Grein

Bryndís Friðgeirsdóttir.
Bryndís Friðgeirsdóttir.

Bryndís Friðgeirsdóttir | 23.04.2002 | 16:16Félagslega húsnæðiskerfið – Orkubú Vestfjarða

Nú hefur loks verið fest niður á blað í formi þingsályktunartillögu lausn á vanda félagslega húsnæðiskerfisins á landsvísu. Um er að ræða tillögu að lausn á sameiginlegum vanda ríkis og sveitarfélaga þó ríkisvaldið hafi oftast látið sem sveitarfélögin ein beri ábyrgð á honum. Lagaramminn sem settur er utan um félagslega húsnæðiskerfið er samþykktur á Alþingi og þar af leiðandi hafa sveitarfélög ekki geta aðhafst neitt ein og sér, nema þá að borga brúsann.
Sveitarfélögin hafa undanfarin ár knúið á um að ríkið viðurkenni sinn þátt í vandanum með því að leggja til fjármagn á móti því sem sveitarfélögin hafa lagt fram úr sveitasjóðum. Í Ísafjarðarbæ var lögð rík áhersla á að lausn fyndist á vandanum á landsvísu áður en kæmi til sölu á eignarhlut sveitarfélaganna í Orkubúi Vestfjarða. Var það gert vegna þess að ríkisvaldið tengdi söluna við fjárhagsvandann í félagslega húsnæðiskerfinu.

Undirrituð ásamt félögum sínum í Samfylkingunni lagðist gegn sölunni vegna þessarar tengingar. Ástæðan var mjög einföld; það kom ekki til greina að samþykkja að ríkið héldi eftir hluta af söluandvirðinu (sem síðan var lagt inn á biðreikning) og greiddi skuldir fyrir hönd sveitarfélagsins. Við töldum að bæjarfulltrúar í Ísafjarðarbæ væru að afsala sér sjálfsforræði yfir fjármálum sveitarfélagsins með því að láta ríkið reikna út og greiða skuldir þess. Meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks (ég gleymi ekki Guðna í þetta sinn) samþykkti þennan gjörning þrátt fyrir hávær mótmæli íbúanna og varnaðarorða minihlutans. Orkubúið var selt til greiðslu skulda í félagslega húsnæðiskerfinu! Sjálfstæðismenn hafa hins vegar reynt að breiða yfir þessa tengingu með því að segja að Vestfirðingar hafi fengið okurverð fyrir Orkubúið. Já, það er auðvelt að semja við þann sem er illa staddur því hann tekur það sem að honum er rétt ef hann á ekki annarra úrkosta völ. Þetta vissu fulltrúar ríkisvaldsins. Tímasetningin var engin tilviljun og ekki heldur tímasetningin á lausninni á vanda félagslega húsnæðiskerfisins á landsvísu. En lítum nánar á þá lausn. Ekki er hún enn eitt þrekvirkið sem sjálfstæðismenn í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hafa unnið gegn ríkisvaldinu.

Í grein sem bæjarstjórinn í Ísafjarðarbæ ritar í blaðið þann 17. apríl sl. kemur fram að miklum áfanga hefur verið náð í máluefnum félagslega húsnæðiskerfisins á landsvísu en eins og fram kemur í greininni átti hann sjálfur sæti í henni. Nefndin starfaði eitt og hálft ár og hvorki gekk né rak fyrr en búið var að ganga frá sölunni á Orkubúinu. Hér er ekki verið að tortryggja störf bæjarstjórans heldur koma því á framfæri að enn einu sinni hallar á landsbyggðina í aðgerðum ríkisvaldsins. Engin þrekvirki hafa verið unnin í bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar til að rétta þann halla.

Þó sitthvað megi finna í frumvarpinu sem hentar landsbyggðinni (þó það nú væri) eins og t.d. heimild til að rífa ónýt hús þá er lausnin sniðin að þörfum suðvesturhornsins og fjármagn sem á að fylgja lausninni er ekki nægjanlegt. Heildarlausnin felur m.a. í sér að eigendur geta nú selt félagslega húsnæðið á frjálsum markaði þó enn hvíli kaupskylda á sveitarfélögum. Þá er gert ráð fyrir að húsnæðið færist niður á markaðsverð (en upp á suðvesturhorninu) og ríki og sveitarfélög borga í sameiningu þann mismun. Fjármagnið sem kemur frá ríkinu dugir ekki til. Sá mismunur sem myndast í sölu íbúða á á suðvesturhorninu er í formi hagnaðar sem fer í vasa eigandanna. Lausnin er sem sagt sniðin að þörfum suðvesturhornsins og landsbyggðin fær molana sem hrökkva af borðinu.

Bryndís Friðgeirsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi