Maskína: Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á vestanverðu landinu

Fylgi flokkanna á landsvísu skv. aprílkönnun Maskínu.

Í aprílkönnun Maskínu er Sjálfstæðisflokkurinn með mest fylgi á Vesturlandi og Vestfjörðum samanlagt. Mælist flokkurinn með 21,8% atkvæða. Samfylkingin er næst stærst með 17% fylgi. Miðflokkurinn mælist með 15,3% og Framsóknarflokkurinn með 14,9%. Viðreisn mælist að þessu sinni nokkuð há með 11,9% fylgi. Fjórir aðrir flokkar mælast en eru á bilinu 1% til 6%. Vinstri grænir mælast me 5,7% og Flokkur fólksins 6,4%, Píratar 5,9% og Sósíalistaflokkurinn fær aðeins 1,2%.

Samkvæmt þessu myndu kjördæmaþingsætin sex skiptast þannig að Sjálfstæðisflokkurinn fengi 2 þingsæti, en Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Viðreisn eitt þingsæti hver flokkur.

Samfylkingin, Miðflokkurinn og Viðreisn vinna þingsæti en Framsókn tapar tveimur, Flokkur fólksins og Vinstri grænir tapa einu hvor. Kjördæmaþingsætum í Norðvesturkjördæmi fækkar um eitt í næstu Alþingiskosningum.

Ekki er lagt mat á það hvaða flokkur myndi fá jöfnunarþingsætið.

Miðað við skiptingu atkvæða á öðrum landsvæðum milli flokka er þetta landssvæði, Vesturland og Vestfirðir, það svæði þar sem Samfylkingin fær minnst fylgi en hún er sterkust í Reykjavík með 31,3% fylgi. Þá er fylgi Viðreisnar næsthæst á Vesturlandi og Vestfjörðum á eftir Reykjavík. Sama á við hjá Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Framsókn að þetta svæði er næsthæst á landinu í fylgi þeirra.

Könnunin fór fram dagana 5. til 16. apríl 2024 og voru 1.746 svarendur sem tók afstöðu til flokks.

DEILA