Knattspyrna: Vestri með fyrsta sigurinn í efstu deild

Vestri vann sinn fyrsta sigur í Bestu deildinni í knattspyrnu karla í gær þegar liðið lagði KA á Akureyri með einu marki gegn engu. Markið kom á þriðju mínútu uppbótartíma leiksins þegar danski leikmaðurinn Jeppe Gjertsen skoraði eftir hornspyrnu.

þetta voru fyrstu stigin sem Vestri nær í efstu deildinni og jafnframt fyrsta markið sem liðið skorar. Liðlega 40 ár eru síðan ÍBÍ frá Ísafirði var í fyrstu deild knattspyrnunnar um tveggja ára skeið.

Þetta var þriðji leikur Vestra í deildinni og voru fyrstu tveir liðinu nokkuð erfiðir, báðir töpuðust og markatalan 0:6. En nú varð breyting á. Vörnin átti ágætan leik með Jeppe Gjertsen sem besta mann og miðjumaðurinn Fatai Gbadamosi lék vel og að sögn fotbolti.net var eins og kóngur á miðjunni. Benedikt Warén var hættulegur í sókninni og gerði usla í KA vörninni. Vestri var í heildina líklegra til þess að fara með sigur af hólmi og er sigurinn að mörgu leyti verðskuldaður.

Eftir sigurinn er Vestri í 9. sæti af 12 með þrjú stig eftir þrjá leiki.

Allir leikir Vestra hafa hingað til verið spilaðir á útivelli þar sem vallaraðstæður eru ekki fullnægjandi á Ísafirði. Unnið er að því að gera nýjan gervigrasvöll á Torfnesi, Kerecisvöllinn, leikhæfan og stefnt er að því að fyrsti heimaleikurinn verði 20. maí gegn Íslandsmeisturum Víkings.

DEILA