Grunnskólinn á Ísafirði fær lýðheilsuverðlaunin 2024

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra veittu lýðheilsuverðlaunin á Bessastöðum, Alma Möller landlæknir veitti forsetanum viðurkenningu. Hér er forsetinn ásamt verðlaunahöfum.

Grunnskólinn á Ísafirði og Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir, hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, eru handhafar Íslensku lýðheilsuverðlaunanna 2024. Sex aðilar voru tilnefndir til verðlaunanna.

Forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum í annað sinn, en stofnað var til þeirra árið 2023 að frumkvæði forseta.

Í tilkynningu frá forsetaembættinu segir um Grunnskólann á Ísafirði: Grunnskólinn hefur í 30 ár staðið fyrir fjallgönguverkefni fyrir alla árganga. Á hverju hausti fer hver bekkur í fjallgöngu sem hæfir þeirra getu innan Skutulsfjarðar. Við upphaf 10. bekkjar er farið í tveggja daga Hornstrandagöngu. Þannig hafa nemendur, sem ljúka grunnskóla, gengið á öll helstu fjöll í nágrenni.Ferðirnar eru hugsaðar til þess að nemendur læri frá ungum aldri að njóta þess að ganga á fjöll í góðum félagsskap og kynnist fjölbreyttum möguleikum til útivistar í nærumhverfi sínu.

Um hinn verðlaunahafann segir: Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir hjúkrunarfræðingur og fagstjóri Sorgarmiðstöðvar, er hugsjónamanneskja með mikið baráttuþrek sem hefur barist fyrir því að opna umræðu um sjálfsvíg á opinberum vettvangi. Ásamt því hefur hún unnið í mörg ár í gegnum félagasamtök að forvörnum sjálfsvíga og stuðningi við aðstandendur þeirra sem falla fyrir eigin hendi. Guðrún Jóna stýrir nú verkefnum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna. Hún hefur aflað sér mikillar þekkingar á þessu sviði sem hún miðlar áfram af einstakri elju.

Íslensku lýðheilsuverðlaunanna eru samstarfsverkefni embættis forseta Íslands í samstarfi við Geðhjálp, embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytið og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands. Í febrúar var kallað eftir tillögum frá almenningi að verðugum verðlaunahöfum og var valnefnd falið að fjalla um tillögurnar, tilnefna þrjá í hvorum flokki og velja loks einn einstakling og eina starfsheild sem verðlaunuð voru. Öll hin tilnefndu fengu viðurkenningarskjal og var fjallað um störf þeirra í sjónvarpsþætti RÚV í tilefni verðlaunaafhendingarinnar.

Við lok athafnarinnar færði Alma Möller landlæknir forseta Íslands blómvönd sem þakklætisvott fyrir öflugan atbeina til eflingar lýðheilsu Íslendinga í hans embættistíð.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson og Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra veittu lýðheilsuverðlaunin á Bessastöðum, Alma Möller landlæknir veitti forsetanum viðurkenningu.

Verðlaunahafar og þeir sem voru tilnefndir.

Myndir: forsetaembættið.

DEILA