STEFNUMÓT VIÐ ÍSLENSKU Á DOKKUNNI

Nú má leiða líkum að því að þú lesandi góður hafir heyrt um átakið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag. Hugsanlega stendur þú í þeirri trú að átakið lúti algerlega, fullkomlega, klárlega og eingöngu að þeim sem eru að læra íslensku sem annað mál, að um einhvers konar námskeið sé að ræða þar sem fólk með íslensku sem annað mál sé markhópurinn. Þess vegna komi þér ef til vill málið ekki við. Sú er ALLS ekki raunin. Þeir sem hafa íslensku að móðurmáli eru aðalmarkhópurinn.

Okkur sem að Gefum íslensku séns stöndum finnst nefnilega mikilvægt að leita allra leiða við að búa í haginn fyrir aðstæður sem stuðla að sem náttúrulegastri máltileinkun og skapa tækifæri til íslenskunotkunar fjarri skólastofunni í samspili við samfélagið. Við vitum enda að Íslendingar eru gjarnir á að grípa til ensku í samskiptum við innflytjendur. Ekki verða innflytjendur góðir í íslensku við það.

Við viljum skapa vettvang hvar fólk sem lærir málið og fólk sem kann á því góð skil kemur saman og spreytir sig á íslenskusamskiptum, leitar allra leiða til að gera sig skiljanlegt á íslensku þótt leyfilegt sé að krydda málið með orðum eins og séns. Þetta gildir þá ekki síst um þá sem eru byrjendur. Það er fólgin í því áskorun að tala við byrjendur í íslensku og gera sig skiljanlegan.

Leikurinn er og ekki síst til þess gerður að fólk með íslensku að móðurmáli fái nasasjón af því hvað máltileinkun felur í sér og „neyðist“ til að gefa því gaum hvernig þeir beita málinu. Þeir þurfa þá oft og tíðum að tala afar hægt og skýrt, endurtaka og einfalda mál sitt, nota einfaldar setningar og þar fram eftir götunum. Þetta er stundum eitthvað sem þarfnast æfingar og æfingu þá vill Gefum íslensku séns skapa. Við trúum því líka að oftar en ekki geti maður brúkað íslensku þótt það kunni að taka lengri tíma en þegar skipt er yfir á ensku.

Sá viðburður Gefum íslensku séns sem hefir verið hvað vinsælastur er hin svokallaða hraðíslenska. Það er viðburður sem lýtur svipuðum lögmálum og hraðstefnumót nema hvað markmiðið er ekki að ná sér í framtíðarmaka og alls ekki að tala hratt.

May be an image of 10 people, people studying and tableOg nú vill svo til að núna á fimmtudaginn (25.4., sumardagurinn fyrsti) er einmitt hraðíslenska á Dokkunni klukkan 18:00. Af því tilefni langar okkur að biðja þig um að hugleiða að láta sjá þig (gott ef þú skráir þig áður á islenska(hja)uw.is eða staðfestir komu á Facebook). Best færi á því að taka með sér vin sem vill ná tökum á íslensku og þráir ekkert heitar en að tala íslensku við ömmu mannsins síns eða konunnar sinnar eða þá við fjölskyldu maka síns, aðila sem er mállega utangarðs í fermingarveislum og fjölskylduboðum. Þetta er kjörið tækifæri fyrir þennan vin að æfa sig í íslensku.

Má sem sagt ekki bjóða þér að koma á hraðíslensku (eða eitthvað annað sem Gefum íslensku stendur að í framtíðinni) og bjóða með þér vini eða vinkonu? Má bjóða þér að koma og hjálpa okkur með þetta mikilvæga mál?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson,

verkefnastjóri Gefum íslensku séns

DEILA