Landsvirkjun: búist við orkuskerðingum fram í miðjan maí

Elías Jónatansson, Orkubússtjóri.

Landsvirkjun hefur tilkynnt Orkubúi Vestfjarða um að búist sé við því að áfram verði skert afhending á afgangsorku fram í maí. Orkubúið þarf að kynda fjarvarmaveitur á Vestfjörðum með olíu þar sem rafmagn er ekki til reiðu hjá Landsvirkjun og gildir takmörkunin til 30. apríl næstakomandi. Orkubúinu hefur verið gert viðvart um að líklegt sé að komi til áframhaldandi skerðingar eftir mánaðamót en formleg tilkynning hefur ekki verið gefin út. Elías Jónatansson, Orkubússtjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að Landsvirkjun gæti skert í allt að 120 daga og honum taldist til að aþð gætu bæst við 16 skerðingardagar í maí ef sú heimild væri fullnýtt.

Í tilkynningu Landsvirkjunar segir að ástæðan sé fádæma lélegt vatnsár þar sem gengið hafi hratt á uppistöðulón. Ekki er útlit fyrir að staðan batni fyrr en hlýna tekur og vorleysingar hefjast, með vaxandi innrennsli á vatnasviðum Landsvirkjunar.

Í viðtali við Morgunblaðið á miðvikudaginn kom fram hjá Elíasi að hver dagur kostaði Orkubúið um 5 milljónir króna og að það stefndi í að tjón Orkubúsins yrði um 600 m.kr. vegna orkuskortsins.

Aðspurður sagði Elías að ekki hefði borist svör frá Orkumálaráðherra við málaleitan Orkubúsins sem vill fá að kanna virkjun í Vatnsdal í Vatnsfirði, en erindið var sent fyrir liðlega ári.

DEILA