Viðtalið: Guðbjörg Hafþórsdóttir

Guðbjörg Hafþórsdóttir í Skálavík.

Byrjum á byrjuninni. Ég fæddist í Reykjavík á aðfangadag 1985 kl. 18:12. Foreldrar mínir eru þau Hafþór Gunnarsson sem er giftur Guðbjörgu Hjartardóttur og Elsa Jóhannesdóttir sem er gift Clemens van der Zwet. Ég segi að ég sé mikill Vestfirðingur þar sem ég á rætur að rekja til Jökulfjarða, Hornstranda og Dýrafjarðar.

Sjálf er ég gift Landeyingnum Kristbirni Ólafssyni, Krissa, sem starfar í Bolungarvík sem bifvélavirki. Börnin eru fjögur; Margrét (18 ára), Vagnfríður Elsa (13 ára), Erna Ósk (8 ára) og Hafþór Nói (5 ára). Á heimilinu er einn hundur sem er misvinsæll.

Ég hef búið hér fyrir vestan alla mína tíð að undanskildu einu ári er ég elti ástina og ákvað að prófa að búa annars staðar en í Bolungarvík. Hvernig á ég að vita það fyrir víst að hér vilji ég vera ef ég hef ekki prófað neitt annað? Eftir um eitt og hálft ár á höfuðborgarsvæðinu var haldið á ný heim í Víkina fögru. 

Ég útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum á Ísafirði og var í eitt ár formaður nemendafélags skólans. Að rifja upp þá reynslu væri tilefni til skrifa á annarri grein en það ár var lærdómsríkt og skemmtilegt.   Ég er úr síðasta útskriftarhóp Kennaraháskóla Íslands en þaðan útskrifaðist ég sem grunnskólakennari. Ég er með meistaragráðu í leikskólakennarafræðum ásamt viðbótardiplómu í sérkennslufræðum. Ég starfaði í leikskólanum Glaðheimum í um 10 ár en fyrir tveimur árum færði ég mig yfir í Grunnskóla Bolungarvíkur þar sem ég starfa sem deildarstjóri ásamt því að kenna á miðstigi 5.-7. bekk ensku og dönsku. Það er mér hjartans mál að þjónusta börn og leita leiða í þeim tilgangi að þau fái að njóta sín á þeirra forsendum.

Áhugamál mín eru margvísleg þá sérstaklega útivist og ferðalög. Með börnunum lifi ég og hrærist í þeirra áhugamálum og því sem þau taka sér fyrir hendur hvort það séu bílar, körfubolti, skíði eða hestamennska. Nýjasta fjárfestingin var meðal annars hryssa sem ég á hlut í með elstu dóttur minni sem stundar nám í hestamennsku á Sauðárkrók.

Þar sem mér finnst gaman að ganga á fjöll og stunda almenna útivist hef ég æft mig að finnast gaman að hlaupa. Loksins þegar ég fór að geta hlaupið án þess að standa frammi fyrir dauðanum vegna úthaldsleysis fór ég að mæta á hlaupaæfingar með Riddurum Rósu sem er skemmtilegur félagsskapur.

Ég vill leggja mitt af mörkum í vinnu að góðu samfélagi og þess vegna lagði ég fram krafta mína til sveitarstjórnar í Bolungarvík. Ég hef verið í sveitarstjórn frá árinu 2014 og þá lengst af sem forseti bæjarstjórnar. Ég hef ekki látið staðar numið við sveitarstjórnina heldur lagt mitt að mörkum í ýmsum nefndum og ráðum íþróttafélaga.

Draumurinn er að starfa á sumrin í Skálavík efla þar ferðaþjónustu en góðir hlutir gerast hægt.

Ég horfi bjartsýn fram á veginn og vona að samfélagið hér í Bolungarvík og á Vestfjörðum öllum verði áfram nóg um vinnu og blómlegt líf.

DEILA