Góður rekstur í Bolungarvík

Ársreikningur Bolungarvíkur fyrir árið 2023 var lagður fram til fyrri umræðu í bæjarráði Bolungarvíkur í vikunni. Hann sýnir heilbrigðan og traustan rekstur með jákvæðum rekstrarafgangi af bæði Aðalsjóði og stofnunum sveitarfélagsins.

Það er ánægjulegt að sjá þann kraft og styrk sem fram kemur í rekstri sveitarfélagsins á síðasta ári. Tekjur eru að aukast verulega og reksturinn er að skila jákvæðum afgangi. Sveitarfélagið framkvæmdi fyrir 330 m.kr. á síðasta ári sem gerir síðasta ár eitt af stærstu framkvæmdaárum síðari ára.

Sterkur rekstur er grundvöllur þess að hægt sé að halda áfram að fjárfesta í innviðum og þjónustu í Bolungarvík. Bærinn okkar er að vaxta, fyrirtækin að eflast og íbúum að fjölga. Það verður áskorun að fylgja slíkum vexti eftir og á sama tíma sýna skynsemi og gott utanumhald í rekstrinum.

Áframhaldandi vöxtur mun því kalla á frekari fjárfestingar á næstu árum í gatnagerð, vatnsveitu, skólakerfinu og svo mætti lengi telja.

Það eru því mörg skemmtileg og spennandi verkefni framundan í rekstri bæjarins sem ég hlakka til að vinna að í samvinnu með bæjarfulltrúum, starfsfólki og bæjarbúum.

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka starfsfólki bæjarins og forstöðufólki fyrir þeirra framlag. Án þeirra útsjónarsemi og ráðdeildar væri ekki hægt að ná árangri í rekstri sveitarfélagsins.

Gleðilegt sumar!

Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir,

formaður bæjarráðs Bolungarvíkurkaupstaðar.

DEILA