Kerecis völlurinn: búið að tryggja fjármagn fyrir hitalögnunum

Kerecisvöllurinn í gær, sumardaginn fyrsta. Mynd: Kistinn H. Gunnarsson.

Búið er að tryggja það fjármagn sem upp á vantaði til þess að unnt væri að ráðast í það að kaupa og setja niður hitalagnir í Kerecisvöllinn á Torfnesi. Jóhann Torfason staðfesti það í samtali við Bæjarins besta. Hann sagði að einstalingar stæðu að þessu og nöfn þeirra yrði ekki gefin upp.

Í frétt Bæjarins besta á þriðjudaginn kom fram að 8,2 m.kr. vantaði til þess að ná endum saman og fjármagna kaupin og niðursetningu á hitalögnunum. Það er nú í höfn og sagði Jóhann að búið væri að panta leiðslurnar frá Set á Selfossi og von væri á þeim í næstu viku. Það væru bílar frá Kubb sem flyttu þau. Búið er að panta frostlög í rörin hjá Olís og fæst hann á góðum kjörum. Auk þess leggur Orkubú Vestfjarða 3 – 4 m.kr. í verkefnið. Ísafjarðarbær styrkir kaupin með 4,8 m.kr. framlagi.

Jóhann sagði að þessi áfangi létti verulega á mönnum og væri mikið gleðiefni.

DEILA