RUV íþróttadeild: Skeiðisvöllur í Bolungavík meðal tíu flottustu knattspyrnuvalla landsins

Skeiðisvöllur í Bolungavík við rætur Ernis. Mynd:RUV.

Íþróttadeild RUV birti í morgun ítarlega umfjöllun um flottustu knattspyrnuvelli landsins byggt á mati allmargra álitsgjafa.

Hásteinsvöllur í Vestmannaeyjum er að mati þeirra sá sem er efstur á listanum. Meðal þeirra tíu efstu er knattspyrnuvöllur Bolvíkinga Skeiðisvöllurinn fyrir stórbrotna náttúru, stúkuna og útsýnið.

Formaður KR, sem er einn álitsgjafanna segir um völlinn: „Sennilega fallegasta vallarstæði landsins. Skeiðisvöllur hefur allt sem alvöru íslenskur völlur þarf að hafa. Búningsklefarnir langt í burt og strangheiðarlega grasbrekka/fjall. Trjádrumburinn í brekkunni er svo punkturinn yfir i-ið. Þá skemmir útsýnið ekki fyrir og tignarlegt Bolafjallið gnæfir yfir. Fallegasti völlur landsins. Hef samt bara einu sinni spilað þar og það verulega þunnur.“

Birkir Sveinsson mótastjóri KSÍ segir „Fjallið Ernir gnæfir yfir völlinn. Völlurinn stendur hátt í landinu og því gott útsýni út á Ísafjarðardjúp.“

Logi Ólafsson, þjálfari minntist á vígsluleikinn á endurbættum vellinum sem var sumarið 1995: „Vallarstæði einstakt í fallegu umhverfi. Vígsluleikur árið 1995 var Bolungarvík gegn ÍA á frábærum velli. Fyrsti leikur Arnars og Bjarka Gunnlaugssona á Íslandi eftir heimkomu. Mörg mörk skoruð og getumunur töluverður á liðunum.“

Stúkan á Skeiðisvelli. Mynd: RUV.

Kerecisvöllurinn á Torfnesi: magnað útsýni

Torfnesvöllur á Ísafirði kemst einnig á blað þótt hann sé ekki meðal tíu efstu. Um hann segir Páll Kristjánsson formaður KR: „Að mörgu leyti fallegasti völlur landsins. Skemmtilega staðsettur og útsýnið magnað. Fjallasýnin. Ég hefði þó viljað sjá stúkuna hinum megin þ.a. gamla góða brekkan hefði fengið að njóta sín betur áfram og áhorfendur verið beggja megin vallarins. Völlurinn væri ofar á listanum ef ekki væri fyrir þessa hörmulegu hlaupbraut. Svipað og úti á Seltjarnarnesi þar sem hlaupbrautin býr til ekkert nema fjarlægð við áhorfendur. Agalegt klúður við hönnun.“

Kerecisvöllurinn á Torfnesi í gær, sumardaginn fyrsta. Miklar framkvæmdir standa yfir við völlinn og verið að setja gervigras á hann. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Umfjöllunin á RUV.

DEILA