Grein

Guðjón M. Þorsteinsson.
Guðjón M. Þorsteinsson.

Guðjón M. Þorsteinsson | 27.02.2007 | 09:32Sameining íþróttafélaga

Ég varð fyrir miklum vonbrigðum þegar ég frétti að Skíðafélag Ísfirðinga kaus með átta atkvæðum gegn sjö að taka ekki þátt í sameiningu íþróttafélaga hér á svæðinu. Það er búið að eyða miklum tíma í að vinna þetta verkefni. Margir fundir hafa verið haldnir og kynning á þessu góð. Menn eins og Gylfi Guðmundsson, Jóhann Torfason, Gísli H. Haldórsson, Ingi Þór Ágústsson, Gunnar Þórðarsson og margir fleiri hafa unnið hörðum höndum að gera þetta að veruleika. Það sem vekur furðu mína er hve fáir voru á jafnmikilvægum félagsfundi sem þessum. Ávinningur sameiningarinnar var meðal annars að gera starfið markvissara og öflugra. Félagið átti að vera með framkvæmdastjóra á launum sem átti að sjá um daglegan rekstur, hjálpa við að skipuleggja starf deildanna og aðstoða með fjármál. Eftir sem áður áttu félögin að vera með sjálfstæðar deildir með stjórn. Allt starf nýs félags hefði orðið markvissara og ný öflug aðalstjórn að störfum sem væri með góða yfirsýn yfir allt starf deildanna. Þetta nýja félag hefði orðið stórt og sterkt. Og síðast en ekki síst hefði verið gaman að sjá nýtt félag sem bæri sama nafn, sama félagsmerki og sömu liti í keppnisbúningum.

Von mín og fleirri var að sjá einingu innan íþróttahreyfingunnar og þar hefðu krakkarnir okkar verið að hvetja „sitt lið“ í keppni. Þetta nýja félag átti að taka yfir þjónustu sem HSV hafði sinnt. Ég sá fyrir mér að krakkar gætu flakkað á milli íþróttagreina á einu gjaldi þar sem að við gætum samnýtt þjálfara upp að vissu marki. Það hefði verið gott fyrir fjölskyldur sem eru með krakka í fleiri en einni íþróttagrein.

Ég get auðvitað ekkert verið að ota mínum skoðunum á fólk og er einungis ein rödd. En það er mér alveg óskiljanlegt hve erfitt er að fá fólk til að vinna saman. Þetta ferli er búið að reyna mikið á og mikil vinna hefur farið í að finna nafn á félagið, finna fólk í stjórn og sú vinna var að skila sér. Það eru eflaust margir sem að segja að við getum alveg haldið áfram og að BÍ, Vestri og KFÍ haldi sínu striki. En fyrir mig var þetta alltaf spurning um að öll þessi félög myndu ganga saman og síðan yrðu öðrum félögum boðið þátttaka.

Hvað var það sem varð til þess að SFÍ kaus að ganga ekki að sameiningu ? Ekki treysti ég mér alveg til að svara því, ég hef mínar grunsemndir en það væri virkilega gaman ef að einhver frá skíðafélaginu myndi koma með svör þess efnis hér. Eftir stendur að þau félög sem voru í þessu sameiningarferli verða að ákveða næstu skref. Ég held þó að niðurstaðan verði að málin verði óbreytt og að félögin haldi áfram hvert í sínu horni. Við vestfirðingar erum treg til að vinna saman og það er miður. Ég ætla að enda þetta á frægum frasa frá Henry Ford sem ég ætlaði að geyma og skrifa eftir að nýtt félag var stofnað, en kannski að þetta ýti við einhverjum.

,,Að safnast saman er upphafið. Að halda saman er framför. Að vinna saman er sigur.“

Íþróttakveðja.
Guðjón M. Þorsteinsson.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi