Sendiherra Noregs tók þátt í Fossavatnsgöngunni

Sendiherrann tók þátt í Fossavatsgöngunni.

Sendiherra Noregs á Íslandi Cecilie Willoch kom ásamt Emblu Sveinsdóttur starfsmanni sendiráðsins til Ísafjarðar síðastliðinn föstudag 19. apríl. Tilgangur ferðarinnar var tvíþættur, annarsvegar að taka þátt í Fossavatnsgöngunni á laugardaginn og hinsvegar að kynna sér Vestfriði og fá innsýn í mannlífið hér og hvernig samfélögin eru uppbyggð.

Embla gekk 50 km og var það hennar fyrsta þátttaka í skíðagöngu. Sendiherrann Cecilie gekk 25 km og sigraði í sínum aldursflokki. Með þeim í för var Jón Ottó Gunnarsson, ræðismaður Noregs á Ísafirði.

Jón Ottó Gunnarsson og Cecilie Willoch sendiherra.

Á sunnudeginum 21. apríl gengum við úr okkur harðsperrurnar á neðri hluta eyrarinnar segir Jón Ottó. „Við heimsóttum prjónastofuna Ívaf og hittum þar þær Sigríði Sif Gylfadóttur sem á og rekur Ívaf og rithöfundinn Satu Rämö (sem er líklega lang frægasti Ísfirðingurinn um þessar mundir). Þaðan lá leiðin á Sjóminjasafnið og svo fengum við leiðsögn um Safnahúsið á Eyrartúni hjá þeim Guðfinnu Hreiðarsdóttur og Rannveigu Jónsdóttur.“

Á mánudaginn var farið í heimsókn í Kerecis og fengu gestirnir upplýsandi og skemmtilega kynningu. Því næst var spjall með Örnu Láru Jónsdóttur bæjarstjóra þar sem farið var yfir þróun bæjarins undanfarin ár, helstu áskoranir og framtíðarsýn. Háskólasetur Vestfjarða var næst á dagskránni og hittu gestirnir þar Peter Weiss sem fór yfir það mikilvægasta í starfinu þar og þær áskoranir sem lítil eining eins og Háskólasetrið stendur frammi fyrir.

„Við komum aðeins við á Snjóflóðasetrinu þar sem Magni Hreinn Jónsson var spurður út í starfsemina, samvinnu við norska aðila og þörfina fyrir frekari þekkingaröflun og samvinnu. Frá Vestrahúsi var farið á skrifstofur Arctic Fish þar sem við hittum Egil Ólafsson og Fredrik Hansen Mosti.“

Þaðan var farið til Bolungarvíkur þar sem boðið var upp á plokkfisk í Einarshúsi með bæjarstjóranum Jóni Páli Hreinssyni og norski sendiherrann fékk kynningu á starfsemi Arctic Fish og vettvangsskoðun um nýja sláturhúsið á Brjótnum.

Hádegisverður í Einarshúsi í Bolungavík.

Jón Ottó sagði ferðinni hafi lokið með huggulegu spjall með Jóni Páli á skrifstofu hans þar sem einnig var spurt út í helstu áskoranir, áhrif af jarðgöngum, byggðarþróun og fjölmenningu.

Norski sendiherrann í Drimlu. laxasláturhúsi og horfir yfir höfnina.

Myndir: Embla Sveinsdóttir.

DEILA