Endurbótum á Vatneyrarbúð að ljúka

Vest­ur­byggð hefur unnið að endur­bótum á húsnæði Vatn­eyr­ar­búðar sem senn fer að ljúka. Við endur­gerð hússins var lögð mikil vinna í að halda í uppruna­legt útlit en á sama tíma á húsnæðið að uppfylla kröfur nútíma vinnu­að­stöðu.

Sögu Vatneyrarbúðar er gert hátt undir höfði og taka rýmin heiti fyrirtækja, skipa og fólks sem á stóran þátt í atvinnuuppbyggingu Patreksfjarðar. Munir úr gömlu Vatneyrarbúð prýða húsið að nýju og verður unnin bók þar sem má fræðast um þá muni sem sjá má í húsinu og sögu þeirra.

Í gegnum árin hafa komið fram ýmsar hugmyndir um nýtingu húsnæðisins en frá árinu 2019 hefur verið unnið að uppbyggingu þekkingaseturs og samvinnurými í Vatneyrarbúð.

Fyrstu stofnanir sem taka til starfa í Vatneyrarbúðinni eru MAST, Umhverfisstofnun, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Minjasafnið að Hnjóti og Náttúrustofa Vestfjarða með nýtt starf deildarstjóra fiskeldis.

Auk þess er unnið að samningi við umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið um starf sem verður staðsett í Vatneyrarbúð.

Þegar hefur verið rætt við fjölda stofnana og má gera ráð fyrir að störfum fjölgi enn frekar á árinu, enda er einn aðaltilgangur verkefnisins að skapa kjöraðstæður til nýsköpunar og auka fjölbreytileika starfa.

Vatneyrarbúð verður eign samfélagsins og þannig glæsilegur samkomustaður, þekkingar og umræðna. Viðburðir verða haldnir á vegum þekkingarsetursins en einnig býðst einstaklingum eða fyrirtækjum að leigja sér aðstöðu til lengri eða skemmri tíma eða halda þar einstaka fundi.

Vatneyrarbúð, þekkingarsetur, verður formlega opnað í maí.

DEILA