Grein

Guðjón M. Þorsteinsson.
Guðjón M. Þorsteinsson.

Guðjón M. Þorsteinsson | 02.02.2007 | 09:55Eru íþróttir fyrir alla?

Það sem ég sit fyrir framan sjónvarpið og dáist að íþróttamönnum dagsins á skíðum og í handbolta þá fer um mig ónotatilfinning. Ekki er það vegna þeirra sem ég er að horfa á, síður en svo, ég dáist af þeim. Þessi tilfinning er vegna þess að ég geri mér allt í einu grein fyrir því að við erum illa sett hér á Ísafirði vegna skertra tækifæra til að æfa og keppa. Ég hef verið þeirra gæfu aðnjótandi að vera alinn upp í íþróttum sem þátttakandi og hinn síðari ár sem þjálfari og stjórnarmaður, fyrst fyrir sunnan og síðan hér fyrir vestan. Það eru forréttindi að geta verið í íþróttum. Félagsskapurinn er ómetanlegur og þó að maður hafi oft farið heim í fýlu og með sár út um allt þá var maður fljótur að jafna sig og ekki getað beðið eftir að komast á næstu æfingu.

Ég var einn af þessum púkum sem var í öllum íþróttum sem ég komst yfir og í þá daga var bara eitt æfingargjald og svo var maður þessi týpíski ungi drengur sem varð að vera á hreyfingu. Í dag er þetta ekki hægt. Aðstæður hafa breyst allverulega. Ef ég myndi vilja leyfa mínum dreng að æfa þessar klassísku íþróttir sem hér eru þ.e. karfa, fótbolti, sund og skíði þá þyrfti ég að borga um 12-20.000 krónur á mánuði fyrir þjálfun. Og gerum okkur svo að minn púki myndi ílengjast í tveim af þessum íþróttum þá bætast við um 50-150.000 krónur á ári í keppnisferðir!

Vandamál okkar er að heilbrigðasta og besta afþreying okkar krakka í dag er of kostnaðarsöm fyrir venjuleg heimili. Þó að það séu ekki allir sammála mér þá er ég þess fullviss að íþróttir séu mesta forvarnarstarf sem til er.

Í dag er ég svekktur út í sjálfan mig og aðra sem eiga að vera búnir að breyta þessu til hins betra. Við erum alltaf að tala um sameiningu hér í heimabyggð, og einnig erum við alltaf að vonast til að okkar háa Alþingi komi í gegn lögum um að jafna ferðakostnað fyrir okkur. En vandinn er bara að við tölum alltaf of mikið í sitthvoru horninu. Það sem er að eyðileggja fyrir okkur eru smáborgaralegir hugsunarhættir. Við virðumst ekki ætla að skilja mikilvægi þess að vinna fyrir þá sem erfa munu land. Það er fjandi hart og við eigum að vita og gera betur !

Undirritaður er að fara með 10 drengi suður til Reykjavíkur til keppni um næstu helgi og er kostnaður á hvert barn 14.000-16.000 krónur og er það háð því að þessir drengir eigi ættingja fyrir sunnan sem geta hýst þá, annars er upphæðin hærri. Mér hefur verið bent á það af fleirum einum að þetta sé okkar vandamál þ.e.a.s að við þurfum ekki að senda börnin okkar á mót og þannig getum við sparað pening. Þetta kemur aðallega að sunnan frá fólki sem þarf að senda barn sitt einu sinni hingað vestur.

Þetta er auðvitað mjög barnaleg nálgun á þessu. Auðvitað er það undir okkur foreldrunum komið hvort að við sendum krakkana okkar í mót. En hvað eigum við að gera. Ég á strák sem væri mjög illa settur ef að hann hefði ekki íþróttir. Þar hefur hann blómstrað og er að breytast í mjög góðan dreng sem hefur ábyrgðartilfinningu.

Íþróttirnar eru því miður orðnar pólítískt mál og það er nokkuð sem ég forðaðist, en ég er ekki hættur afskiptum mínum af íþróttum og mun berjast fyrir þá sem minna mega sín í þeim efnum. Það skortir greinilega pólítískan vilja að gera öllum kleift að vera með og ég spyr þá sem að valdið hafa. Eru íþróttir fyrir alla?

Baráttukveðja.
Guðjón M. Þorsteinsson, landsbyggðarmaður og áhugamaður um íþróttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi