Grein

Sigurður Viggósson.
Sigurður Viggósson.

Sigurður Viggósson | 08.01.2007 | 17:42Mesta framfaraspor um árabil

Með úrskurði Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra um að heimila uppbyggingu láglendisvegar á þjóðvegi nr. 60, hefur verið tekin ákvörðun um eitt mesta framfara- og byggðamál í marga áratugi fyrir sunnanverða Vestfirði og í raun Vestfirði alla. Úrskurður hennar þýðir að s.k. 2. áfangi uppbyggingar þjóðvegarins í Reykhólahreppi verður í samræmi við vilja flestra sem um þennan veg þurfa að fara og tekið er tillit til fyllsta umferðaröryggis og ekki síður þess samfélags sem býr á suðvesturhluta Vestfjarða. B- leiðin svokallaða gerir ráð fyrir vegum á láglendi og þverun Djúpa- og Gufufjarðar.

Íbúar hljóta að fagna þessum úrskurði og horfa loksins fram á bjartari tíma fyrir þessa byggð, sem hefur átt undir högg að sækja í allt of langan tíma. Úrskurður þessi mun gera Vegagerðinni kleift að gera landssamgöngur eins og tíðkast annarsstaðar á landinu. Við það opnast leið fyrir íbúa og atvinnulífið að komast í heilsársvegasamband, sem gerir atvinnulífið samkeppnishæfara á þessu svæði. Að sjálfssögðu er þessi framkvæmd umdeilanleg, enda tekið mörg ár og margar skýrslur að fá þennan jákvæða úrskurð.

Við sem búum á svæðinu verðum að virða skoðanir þeirra sem eru á móti þessari framkvæmd, en það getur oft verið erfitt að skilja þær skoðanir að trjágróður á eyðilendi geti haft meiri forgang en það mannfólk sem býr á svæðinu og þarf að komast leiðar sinnar á sem öruggastan máta.

Einnig hlýtur að vega þyngra skoðanir þeirra, sem enn búa á svæðinu og hafa sína afkoma og lífsviðurværi þar. Það getur ekki verið raunhæft að gefa viðhorfum þeirra sem hér búa og starfa og þeirra sem engra hagsmuna eiga að gæta nema af tilfinningalegum toga jafnan þunga á vogarskálunum. Allir sem ég þekki til og búa á Vestfjörðum hafa sterka tilfinningu fyrir umhverfinu og hafa sýnt það með gjörðum sínum til langs tíma að umhverfið til sjávar og lands skiptir miklu máli. Ég vil taka svo djúpt í árinni að segja að umhverfisspjöll ýmisskonar af manna völdum séu minnstar á Vestfjörðum af öllum landshlutum ef grannt er skoðað.

Með úrskurði sínum sýnir Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra að hún hefur kjark til að taka erfiðar ákvarðanir og taka tillit til hagsmuna allra landsmanna, slíkan kjark ættu fleiri að sýna gagnvart landsbyggðinni.

Um leið og tekið er undir þakkir flestra ef ekki allra íbúa Barðastrandarsýslu til umhverfisráðherra við afgreiðslu þessa máls, er skorað á Vegagerð ríksins og þá sem henni stýra að hefjast nú þegar handa við framkvæmdir og ljúka uppbyggingu þjóðvegar nr. 60, svo íbúar þessa svæðis standi jafnfætis öðrum landsmönnum í samgöngumálum.

Sigurður Viggósson, framkvæmdastjóri Odda hf. á Patreksfirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi