Grein

Viðskilnaðurinn.
Viðskilnaðurinn.

| 05.07.2000 | 15:24Vegagerðin og fólkið

Það er víða unnið að vegagerð af kappi og er það vel – og tími til kominn, alla vega hér í Djúpi og víðar. Ég kannast nú vel við þessa kippi sem koma annað slagið þegar eitthvert byggðarlag er að líða undir lok búskaparlega séð. Þá hrökkva menn upp af dvalanum og rykkja sér af stað í gleðivímu, því nú skal vinna, já, vinna fyrir fólkið.
Ekki fyrir fólkið sem hér hefur búið og baslað. Nei, fólkið sem þarf að ferðast og komast um á sem bestan hátt og á sem skemmstum tíma til að skoða landið. Það er gott mál.

En hvers skyldum við eiga að gjalda, sem hér höfum eytt okkar ævi og alið upp mannvænleg börn? Lítilsvirðingin er algjör.

Ég ætla að draga upp mynd af því sem ég bý við. Í mesta slagviðrinu síðasta haust kom hefill frá Vegagerðinni hérna að brúnni heim að Laugabóli. Hann sópaði yfirlaginu út af veginum svo hann lækkaði til muna. Gáfulegt það. Á vegi sem teppist ef einhver snjór kemur á vetrum.

Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig hefillinn skildi við skiltin sem vísa á bæina. Þegar þetta tæki hafði tætt upp forblautt yfirborð vegarins var sáldrað nokkrum bílhlössum ofan í svaðið. Ég held nú satt að segja, að það væri nóg af drullu hér frammi í dal og þyrfti ekki að sækja hana til sjávar. En sitt sýnist hverjum.

Það var lagt bundið slitlag fram að Hrafnabjörgum og ég fékk þá einföldu skýringu, að um þann veg færi fólkið, sem sé reiðmenn o.fl. Ég fer að sjálfsögðu eftir þeim vegi líka, það sem hann nær. Mér finnst þetta ömurleg lágkúra. Ásættanlegt hefði verið ef slitlagið hefði náð fram að brú og við hérna á þessum tveim fremstu bæjum fengið hreint efni en ekki leirdrullu sem smýgur í öll vit. Það er eins og maður sé í malarnámu. Þetta eyðileggur allt í híbýlum manna, svo stórskaði hlýst af, ekki síst að anda þessu að sér.

Ég hélt að ég ætti annað betra skilið eftir að vera búin að leggja Vegagerðinni til endurgjaldslaust allt það efni sem farið hefur í að leggja veg hér um dalinn, niður að Hrafnabjörgum og heim á hlað á Birnustöðum. Sjálf þurfti ég að fá aðstoð sýslumanns, Péturs Kr. Hafstein, til að fá akfæran veg heim til mín. og til að fá brúna á ána á sínum tíma gengu til liðs við mig Hermann Jónasson og Gísli Jónsson, alþingismenn. En það hefur flest verið gert il að eyðileggja þessa brú, sem að sjálfsögðu tengir mig við veginn. Meðal annars með því að riðlast yfir hana á jarðýtum. Ég hef verið hér með matvælaframleiðslu árið um kring í rúm fjörutíu ár og þetta þykir meira en nógu gott fyrir mig. En ef það kæmi hér einhver skrautfugl með embættistitil – því allt er best sem kemur nógu langt að – þá yrði breyting á, trúi ég.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi