Grein

Oddur Árnason.
Oddur Árnason.

Oddur Árnason | 14.03.2002 | 16:28Börnin og bjórinn

Lárus Valdimarsson ritar grein á bb.is og skýrir þar hvers vegna hann hafi séð ástæðu til að ítreka fyrri samþykktir bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar um sölu á áfengi í matvöruverslunum. Í grein sinni segir Lárus að hann sé almennt á móti sölu sterkra vína í matvöruverslunum en telur hins vegar að leyfa eigi sölu léttvíns og bjórs í þessum verslunum. Það telur hann, og reyndar fleiri í bæjarstjórn, svo brýnt að þeir sjá ástæðu til að ítreka fyrri
áskoranir þess efnis til Alþingis.
Í könnun sem sem ÍM Gallup framkvæmdi fyrir Áfengisvarnaráð í apríl 1996 í þeim tilgangi að kanna neysluhegðun einstaklinga á aldrinum 12-24 ára á áfengi kemur fram að þá byrjuðu rúmlega 50% ungmenna á neyslu sterkra vína en sú prósentutala hafði lækkað um 8% frá árinu 1994. 38% byrjuðu á því að drekka bjór og hafði sú tala hækkað úr 26% frá árinu 1994. Almennt virðast menn sammála um að þessi þróun hafi haldið áfram frá árinu 1996 og nú sé svo komið að meirihluti ungmenna byrji á neyslu bjórs.

Jafnframt virðist sem samfélagið hafi tilhneigingu til að líta neyslu barna og ungmenna á bjór og léttvínum mildari augum en sterkra vína. Þekkt er sú staðreynd að þeir sem síðar leiðast út í neyslu á ólöglegum fíkniefnum hafa prófað þau fyrst eftir að hafa „drukkið í sig kjark“ til þess með áfengum drykkjum eða að góður ásetningur ungmennis um að nota slík efni aldrei hefur vikið eftir að dómgreindin hefur sljóvgast af neyslu áfengis.

Forvarnir flokkanna
Ég er þeirrar skoðunar að sala á bjór og léttvínum í matvöruverslunum eigi ekki að vera sérstakt baráttuefni bæjarfulltrúa og tel ýmis verkefni í stjórnun bæjarfélagsins brýnni. Ljóst er að með með slíkri lagabreytingu er verið að auka aðgengi barna og ungmenna að áfengi. Vera má að það valdi einhverjum óhagræði að þurfa að fara aukasnúning eftir áfengum bjór og borðvíni.

Sjálfur mun ég ekki telja þann aukasnúning eftir mér ef það má verða til þess að ungmenni leiðist síður út í neyslu áfengis og vímuefna. Forvarnarmál eru eitt af brýnustu verkefnum sveitarfélaga á komandi árum. Það verður að teljast hjákátleg stefna í forvörnum að ætla sér að auka aðgengi ungmenna að áfengi. Stefna flokkanna í þessum efnum mun ráða miklu um hvar atkvæði mitt lendir í komandi bæjarstjórnarkosningum.

Látum börnin njóta vafans.

Oddur Árnason


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi