Grein

Sigurður Filippusson.
Sigurður Filippusson.

Sigurður Filippusson | 08.03.2002 | 10:08Réttindi sjávarjarða til sjávarins eru nánast eins og til landsins

Upphafið af því að ég fór að velta þessum málum fyrir mér, var viðtal við gamlan mann í Grímsey er svo var komið hjá þeim, að þeir máttu ekki fara á sjó á trilluhornunum sínum. Þá sagði hann, að sér þætti einkennilegt að hugsa til þess, að Ú.A og Grandi ættu orðið fiskinn er synti í kringum eyna þeirra sem þeir væru búnir að lifa á í gegnum aldirnar.
Réttindi sjávarjarða til sjávarins eru nánast eins og réttindi þeirra til landsins þ.e. fyrst eru netlög sem ná 115 m út frá stórstraums fjöruborði, innan þeirra á jarðeigandi eða ábúandi allan rétt, líka veiðirétt. Þar fyrir utan tekur við rekamark eða fiskhelgi sem nær 300 - 600 m frá stórstraums fjöruborði. Innan þeirra marka á landeigandi allt dautt er flýtur (er á reki). Þar fyrir utan tekur við almenningur.

Fyrirkomulagið á eignarrétti jarða höfum við varðveitt, en það er hið sama og gilti í Noregi fyrir árið 900, eða þar til Haraldur hárfagri setti sín þjóðlendu og kvótalög. Þá gátum við flúið til Íslands, (sjá 4. kafla Egilssögu Skalla-Grímssonar ). Með lögum um stjórn fiskveiða var menning okkar við sjávarsíðuna sett í mikla hættu og verður sennilega útrýmt ef fram heldur sem horfir. Hverri þjóð ber að varðveita menningu sína. Þetta er sú menning sem mundi henta hvað best, til menningartengdrar ferðaþjónustu.

Áður en lögin voru sett áttu og eiga enn sjávarjarðirnar og þéttbýlisstaðir sem byggst hafa á sjávarjörðum auðlindina, og eru búin að nýta hana og lifa á henni í 1100 ár.

Ég álít að stjórnvöld hafi fyrir löngu verið búin að viðurkenna eignarrétt jarða á auðlindinni sem kölluð er, fyrst var útræði skráð inn í jarðabækur, síðar í jarðamöt og þá um leið sem fasteignatengd verðmæti. Það að taka veiðiréttinn af jörðum og færa hann á báta má líkja við að ef settur væri kvóti á rjúpur, veiðirétturinn væri síðan tekinn af jörðunum og settur á byssur. Bátar eru ekkert annað en veiðitæki. Óheimilt er að aðskilja hlunnindi frá jörðum.

Með lögum um stjórn fiskveiða var framinn stærsti þjófnaður, sem framinn hefur verið á norðurhveli jarðar. (En að mati sumra löglegur eins og frændur mínir á Núpstað sögðu í DV 8. september 2001 um þjóðlendumálið). Ég vil minna á að öll sjávarþorp og kaupstaðir við sjávarsíðuna, sem flest eða öll standa á gömlum sjávarjörðum hafa byggt afkomu sína á þessum gömlu réttindum. Menn einfaldlega fluttu á þá jörð er hafði bestu aðstöðuna frá nátturunnar hendi, leigðu sér aðstöðu við sjóinn þar sem útræði var gott. Þá fór fyrst að verða veruleg verkaskipting þegar myndast hafði sjávarþorp. Menn áttu báta og sóttu fisk í sjóinn, aðrir smíðuðu báta og gerðu við, enn aðrir verkuðu aflann, og ennþá aðrir sáu um verslun og svo má lengi telja. Þegar veiðirétturinn var settur á bátana og gerður framseljanlegur fengu eigendur þeirra rétt til að selja lífsbjörgina frá heilu sjávarplássunum sem eru í dag mörg hver á niðurleið, og húseignir manna lítils virði og óseljanlegar sem í mörgum tilfellum er aleiga fólks. Þetta er sambærilegt við það að þegar búið er að selja kvótann af bújörðunum, þá eru þær einskis virði í flestum tilfellum.

Eignarréttindi fyrnast ekki þótt sett séu lög um stjórn fiskveiða. Eignarréttindi fyrnast ekki. Ef hið forna fyrirkomulag um veiðiréttinn fengi að gilda áfram, álít ég að eignarréttur okkar væri mun betur tryggður til frambúðar gagnvart öðrum þjóðum en með núverandi fyrirkomulagi.

Ekki má gleyma loforðum núverandi stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar um þjóðarsátt um auðlindina, hún getur aðeins orðið að veruleika, að henni sé skilað aftur til réttra og löglegra eiganda, og það án allra undanbragða því hér var um þjófnað að ræða. Þar sem við erum sjálfstæð þjóð ber þingmönnum lýðveldisins skylda til að leysa þetta mál innan veggja Alþingis.

Dvergasteini, Seyðisfirði, Sigurður Filippusson, bóndi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi