Grein

Óðinn Gestsson.
Óðinn Gestsson.

Óðinn Gestsson | 28.11.2006 | 16:56Enn um reksturinn á skíðasvæðinu og fleira

Það er skemmtilegt að fylgjast með umræðunni um reksturinn á skíðasvæðinu, og það er gott til þess að vita að það skuli gripið inní þegar úr hófi fram er keyrt, það hinsvegar undrar mig að ekki skuli gripið fyrr til aðgerða varla eru menn að uppgötva það í gær að fjármagnið var búið. Í umræðunni hefur farið svolítið fyrir Jóni Björnssyni Íþrótta og tómstundafulltrúa Ísafjarðabæjar, en hann er einmitt sá aðili sem á að grípa inní til þess að koma í veg fyrir að allt fari úr böndum í þessum málaflokki, spurning af hverju gerði hann það ekki fyrr. Væntanlega hefði verið hægt að dreyfa fjármagninu á anna hátt ef menn hefðu haft vara á sér, en það er ljóst að það hefur ekki verið gert í þessu máli. Niðurstaðan er sú að nú sitja menn uppi með fullt af snjó sem ekki er hægt að nota, ekki gott. Kannski er best að loka skíðasvæðinu fyrir fullt og allt, því það er ekki lögbundinn þjónusta og afhenda það einhverjum sem að treystir sér til þess að eiga það og reka, ég held að rekstur á svæði sem þessu sé í eðli sínu áhættusamur og það þarf að gera mikla arðsemiskröfu á fjárfestingu sem þessa.

Íþrótta og tómstundafulltrúi bendir á í viðtali á bb.is að hugsanlega þurfum við að skilgreina þjónustuframboðið uppá nýtt, og nefnir sem helstu ástæðu þess að hér er láglaunasvæði, það séu hér 4 skólar á aðeins 4.100 íbúa, þetta er að vísu ekki málaflokkur sem að tilheyrir undir hans skrifstofu en engu að síður finnst mér gott hjá Jóni að nefna þetta, því þess umræðu þarf að taka og því fyrr sem að við gerum það því betra er að komast frá því. Það hefði t.d átt að taka þessa umræðu áður en við hófumst handa við að byggja nýbyggingu við grunnskólann á Ísafirði og við hefðum kannski átt að skilgreina þörfina aftur með tilliti til íbúaþróunar, þetta er mjög þörf ábending hjá Íþrótta og tómstundafulltrúa. Á sama tíma og Iþrótta og tómstundafulltrúi setur fram þessar skoðanir sínar er á fullu undirbúningur við hagkvæmnisathugun á nýrri íþrótta tómstundamiðstöð á Torfnesið á Ísafirði þar sem meðal annars á að innihalda nýja sundlaug og eitthvað fleira, en fulltrúinn kvartar undan því að við höfum í dag of margar sundlaugar sem ekki skila neinum tekjum, en það er hinsvegar lögbundið að t.d kenna skólasund þannig að þessi aðstaða þarf að vera fyrir hendi, spurningin er hvernig á þessi aðstaða að vera og hvað á að leggja mikið í hana. Ég held að ég geti verið sammála Jóni um að það þarf að skilgreina þetta uppá nýtt, með hagsmuni okkar sem að hér búum í huga.

Undanfarin ár höfum við sem að hér búum verið þáttakendur i neikvæðri umræðu um svæðið og við stöndum frammi fyrir því enn þann dag í dag að fólki fækkar, þrátt fyrir að gripið hafi verið til aðgerða til þess að reyna að sporna við þessari þróun, og er þá vinsælt að nefna vísi að háskóla sem settur hefur verið á laggirnar, ég held að til lengri tíma litið að þá muni sú ákvörðun verða til þess að við náum vopnum okkar aftur.

Þegar fólk hefur flutt af svæðinu hefur það skilið eftir sig ógreiddar skuldir sem að það hefur verið þáttakandi í að stofna til með því að búa í viðkomandi sveitarfélagi, sveitarfélagið hefur haft tekjur af útsvari þessa fólks til þess að greiða þessar skuldir, en þegar það síðan tekur ákvörðun um að flytja sig til situr skuldin eftir og ef að enginn kemur í staðinn fyrir þann sem að fór bætist við skuldina sem að við sem að hér búum áfram þurfum að sjá um að greiða, þ.e.a.s ef við viljum halda sama þjónustustigi og hefur verið, kannski er það bara ekki hægt og við gætum þurft að grípa til aðgerða sem að minnkuðu þjónustuna. Ég fullyrði það að þetta eru einu skuldirnar sem að hægt er að hlaupa frá, ef þú tekur lán í banka þá þarft þú að leggja fram tryggingar til þess að sýna fram á að þú getir staðið undir þeim skuldbindingum sem að þú stofnar til við bankann. En ef þú ert íbúi sveitarfélags hefur þú engar skuldbindingar gagnvart því, þú getur bara farið ef þér líkar ekki, skilið skuldina eftir og það eru síðan aðrir sem að borga hana. Þessvegna vill ég að tekinn verði upp umræða á milli sveitarfélaganna í landinu um að íbúar sem að flytjast á milli sveitarfélaga taki með sér þær skuldir sem að tilheyra þeim, það verður að teljast réttlætismál fyrir alla Íslendinga að þetta sé gert, það má ekki taka bara með sér tekjurnar skuldirnar eiga að fylgja. Ég hvet nýjan formann Sambands Íslenskra Sveitarfélaga að hreyfa þessu máli svo eftir verði tekið.

Stöðugt er verið að ræða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga og verður það sjálfsagt eilífðrar umræða og sennilega aldrei fullrætt. Á sama tíma og ríkið sýnir góða afkomu svelta flest sveitarfélög, í mínum huga er vitlaust gefið, það getur ekki talist ásættanlegt að ríkið geti dælt inní lífeyriskerfið sitt fjármunum sem að það átti fyrir löngu að vera búið að gera ráð fyrir í sínum rekstri peningum sem að almenningur á Íslandi á. Það verður að gera kröfur á þá sem að stjórna fjármálum ríkisins að þeir hafi heildaryfirsýn yfir þann rekstur sem að þeir hafa með höndum og finni hvar þessum fjármunum er best varið, það er óásættanlegt að ríkið sýni mjög góða afkomu á sama tíma og sveitafélögin svelta.

Það eru margir spennandi hlutir að gerast á Vestfjörðum í dag sérstaklega í ferðaþjónustu, sá sproti þarf að fá að dafna og hann mun örugglega gera það ef þeir sem að í þeim málaflokki starfa fá skilning stjórnvalda á þeim úrlausnarefnum sem að fylgja því að vera að byggja upp nýja atvinnugrein, þar má helst nefna að samgöngukerfið til og frá Vestfjörðum þarf að geta flutt fólk og vörur á sanngjörnu verði, því er ekki þannig háttað í dag svo vel sé. Það hefur að vísu mikið áunnist í þessum málaflokki en enn vantar 25 milljarða til þess að kerfið sé boðlegt íslendingum og þeim erlendu gestum sem hingað vilja koma, það er forsenda frekari uppbyggingar að þessir hlutir séu í lagi. Þarna hafa þeir sem að ráðið hafa ferðinni ekki haft þá yfirsýn sem að til þarf í þessum málaflokki.

Ég hef í þessari grein minni rætt um nokkur málefni sem að mér eru ofarlega í huga og fannst rétt að deila áhyggjum mínum með ykkur.

Kveðja,
Óðinn Gestsson, Suðureyri.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi