Grein

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir | 11.02.2002 | 19:56Byggðaáætlun

Nú hefur iðnaðar- og viðskiptaráðherra kynnt nýja byggðaáætlun til næstu fjögurra ára. Þar ætlar ráðherrann að leggja sérstaka áherslu á Eyjafjarðarsvæðið, sem á að vera mótvægi við Stór-Reykjavík. Efla á Akureyri sem byggðakjarna fyrir Norður- og Austurland. Mikið held ég að Austfirðingar séu glaðir. En þeir eiga nú að fá álver svo þetta verður allt í lagi. Kannski verður lögð járnbraut milli Reyðarfjarðar og Akureyrar svo fólkið komist fljótt og vel heim til síns að loknu dagsverki í álverinu.
En hvað með Vestfirði? – Ísafjörð? Ráðherra vafðist tunga um tönn. Jú, það á að efla símenntun og auka möguleika þeirra til háskólamenntunar. Og ég spyr til að gera hvað? Til hvers að mennta sig ef engin störf eru fyrir hendi sem krefjast þeirrar menntunar – eða heldur ráðherrann ef til vill að störfin verði til að sjálfu sér. Undanfarin ár hefur ríkisstjórnin miskunnarlaust fækkað sérfræðistörfum á landsbyggðinni, nú síðast var Matra lokað hér á Ísafirði. Hvað á svona fíflagangur að þýða? Það er rétt sem Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði segir, það vantar aftan á áætlunina. Það vantar örugglega framan á hana líka. Hvenær ætli ráðamönnum skiljist að úti á landsbyggðinni lagast ekkert fyrr en við fáum að veiða fiskinn sem byggðirnar kringum landið byggðust upp á til að byrja með. Þá skapast svigrúm fyrir fleiri sérhæfð störf. Það byggir engin hús án þess að hafa grunn til að byggja á. Fiskurinn er sá grunnur hjá okkur.

Byggðaáætlun er hálfgert brandaranafn á þessu fyrirbæri sýnist manni á öllu. Ef raunverulega á að treysta byggðir landsins, þarf meira til en að púkka bara undir heimasvæði ráðherrans. Mig minnir að rektor Menntaskólans á Ísafirði hafi haft orð á því að of margir hér ætluðu frekar í háskólanám, þegar leggja bæri meiri áherslu á hagnýtt iðnnám. Auðvitað er ég ekki að gera lítið úr menntun, en hvaða gagn er að því að mennta sig á Ísafirði ef svo eru engin störf á lausu við hæfi? Ekki bólar mikið á að ríkið ætli sér að flytja neitt slíkt hingað. Akureyri skal það vera. Og ég er sannarlega ekki að súta það þótt Eyjafjarðarsvæðið sé eflt, alls ekki, en þegar stjórnvöld ætla sér að handstýra því hvert fólk flytur þá er ekki von á góðu.

Ég segi bara þetta. Leyfið okkur að vera í friði með miðin okkar og fiskinn og við skulum sjá um okkur sjálf. Við erum harðduglegt fólk með mikla sjálfsbjargarviðleitni, ef hendur okkar eru ekki bundnar á bak aftur. Við þurfum enga handstýrða byggðaáætlun, við þurfum aðgerðir sem miða að því að halda því heima í héraði sem er okkar.

Ekki alltaf að taka með annarri hendinni og skammta með hinni. Stjórnmálamenn þurfa að hugsa um hag heildarinnar en ekki vera með sífellt kjördæmapot og atkvæðaveiðar. Einu sinni hélt ég að kvenfólk væri skynsamari og réttlátari stjórnendur en karlar, en ég sé á þeim kvenráðherrum sem nú eru við völd að þær eru enn glórulausari og grimmari en karlarnir og þá er mikið sagt.

Og svona að lokum, þá vil ég árétta það að margt fólk hrökklast í burtu úr bæjum og þorpum um landið, ekki af því að það vilji það, heldur vegna eyðibyggðastefnu þeirrar ríkisstjórnar sem hér ríkir. Það er þessi hryllilega hugsun sem kallast „hagræðing“ og „markaðshyggja“ sem tröllríður hugsum manna og þýðir í reynd að sumir eignast allt og hinir ekkert.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi