Grein

Guðjón Arnar Kristjánsson.
Guðjón Arnar Kristjánsson.

Guðjón Arnar Kristjánsson | 21.09.2006 | 14:11Mörgu verður endurlofað

Í þessu greinarkorni ætla ég að spá um það hverju verður endurlofað sem fjölnota kosningaloforðum á næstu vikum og mánuðum af ráðherrum og þingmönnum ríkisstjórnarinnar. Byrjum á að velta því upp hverju verður marglofað.

Góðæri endurlofað

Þrátt fyrir að seðlabankastjórinn Davíð Oddsson haldi áfram að hækka stýrivexti sem nú lenda einkum af fullum þunga á minni einkafyrirtækjum og skuldsettu fjölskyldufólki og að verðbólgan hækki nú lán fólks, þá verður samt sem áður góðærinu endurlofað. Ríkisstjórnin mun lofa forsjálni og stöðugleika sem aldrei fyrr. Aðgerðir Seðlabankans nú ættu að stefna að lækkun stýrivaxta strax í nóvember. Við þurfum ekki á því að halda að aðgerðir Seðlabankans valdi því að krónan styrkist um of. Þess vegna væri æskilegt að hægfara lækkun stýrivaxta hæfist í haust. Við eigum ekki að örva innflutning með of sterkri krónu og miklum viðskiptahalla.

Marglofaðar samgöngubætur

Senn fer samgönguráðherra að endurlofa fólki því að vissulega verði farið í útboð á vegarköflum á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Fljótlega áður en apríl 2007 er liðinn hafa þeir stjórnarliðar endurlofað öllu í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum sem þeir settu á niðurskurðarlistann í júní sl. Þessi endurlofun þeirra telst þá stórkostlegur sigur, enda hafa þeir þá sigrað sjálfa sig og aðra niðurskurðarpostula sem krefjast niðurskurðar á þenslu þar sem enginn hafði orðið þenslu var. Þá sperra sveitarstjórnarmenn Sjálfstæðisflokksins sig og segja sem svo að það sé góðs viti að samgönguráðherra minnist nú orða sinna frá því fyrir sveitarstjórnarkosningar á sl. vori og að verulegu máli skipti að samskipti þeirra séu á flokksvettvangi. Birna Lárusdóttir getur svo skrifað nýja grein um „stórir áfangar í augsýn.“

Vestfirðingar geta ekki beðið eftir betri vegum. Frestun framkvæmda var óásættanleg ákvörðun sem ekki tók mið af brýnum þörfum og kröfu um lægri flutningskostnað.

Sjávarlíf Mjóafjarðar

Að lokum vík ég að líffræði og þverun Mjóafjarðar ef og þegar af því verður. Ég hef haft af því verulegar áhyggjur að við þverum Mjóafjarðar í Ísafjarðardjúpi sé þess ekki nægilega gætt að í firðinum innan við fyllingu verði nægur straumur að norðanverðu. Þar með gæti svo farið að því lífríki sem er í firðinum verði raskað. En oft má sjá mikið líf innan skerjanna enda þar merkilegt straumakerfi að mínu mati. Þar hafa verið veidd hundruð þúsunda þorskskeiða til áframeldis að Nauteyri og síðar í kvíaeldi. Einnig var og er sjálfsagt enn rækja innan skerja. Við þessu mætti bregðast með brúargerð í norðursundinu, þ.e. tvær brýr, eða með tveim til þremur veglegum ræsum sem komið væri fyrir í fyllingunni í Breiðasundinu norðanvið Hrútey. Það sem nú er skilgreint sem umhverfismat nær ekki að mínu mati til líffræði hafsins í fjörðum. Mér vitanlega veit enginn hvað einn fjörður gefur af sér inn í viðhald og vöxt lífsins við landið eða til viðhalds nytjastofna. Það væri verðugt viðfangsefni Hafró á Ísafirði að taka Mjóafjörð í gæslu til næstu áratuga og leitast við að kortleggja hvað einn fjörður á Vestfjörðum gefur af sér fyrir viðhald lífsins á Íslandsmiðum.

Vegagerðin og Hafró ættu að sýna frumkvæði í þessu máli sem og sjávarútvegsráðherra. Það væru ný áform og góð loforð sem vonandi þyrfti ekki að endurlofa sem fjölnota kosningaloforðum.

Guðjón Arnar Kristjánsson, alþingismaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi