Grein

Pétur Tryggvi Hjálmarsson | 21.08.2006 | 14:15Um - sjón

Ágæti Halldór bæjarstjóri. Snöggur varstu að svara skrifum þeirra Tryggva lögfræðings og Ólínu fyrrverandi skólameistara á bb-vefnum í síðustu viku varðandi viðbjóðinn Funa. Þú segir að það sé óásættanlegt að hafa „sýnilega mengun“ frá stöðinni. En spyrja má: Er sýnileg mengun verri en ósýnileg? Var ekki einhver fugl sem stingur hausnum í sandinn til að sjá ekki neitt og trúir að það sem hann sér ekki sé þar með ekki til?

Fegurðarskyn er einstaklingsbundið. Sagt er að fegurðin búi í auga þess sem sér. Þannig má halda því fram að marglitar eða jafnvel einlitar eiturgufur geti verið ljómandi fallegar. Að skilgreina útblásturinn frá Funa eingöngu sem „sýnilega mengun“ er að minni hyggju pólítísk hugarfarsmengun. Útblásturinn er eitraður vegna þess að hann er eitur, rétt eins og skófla er skófla. Við skulum leyfa henni að heita skófla, hvort sem við sjáum hana eða ekki, og vera ekkert að flækja málin.

Undirritaður hefur nokkrum sinnum skrifað á opinberum vettvangi um fáránleikaverksmiðjuna Funa og mengunina frá henni, bæði svokallaða sjónmengun og aðra mengun. Fyrst sumarið 2003 eða fyrir rúmum þremur árum. Þessi skrif mín hafa birst í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu og á bb-vefnum.

Téð Ólína byrjar grein sína svona: „Tryggvi Guðmundsson lögmaður hefur nú skrifað tímabæra grein á bb.is um þá sjónmengun sem sorpbrennslustöðin í Funa hefur valdið hér í bæ undanfarin ár. Þegar grein Tryggva birtist var sú sem hér heldur á penna komin á fremsta hlunn með að vekja máls á þessu ófremdarástandi í blaðagrein, en Tryggvi hefur nú blessunarlega tekið af mér ómakið.“

Af þessu orðalagi verður naumast annað skilið en að þetta hafi ekki verið gert áður, að loksins loksins núna hafi einhver tekið sig til og skrifað löngu tímabæra grein um þetta mál.

Ég fagna því hins vegar, að loksins loksins núna hafi komið fram tímabær svör á opinberum vettvangi varðandi þetta mál frá bæjarstjóranum í Ísafjarðarbæ. Það sem til þurfti var að ekkert minna en lögfræðingur og doktor kæmu fram á sjónarsviðið, vektu loksins loksins máls á þessu, skrifuðu um það löngu tímabærar greinar og vörpuðu fram löngu tímabærum fyrirspurnumTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi