Grein

| 19.01.2000 | 17:04Allir þurfa klapp á bakið

Neikvæðar raddir heyrast víða og þá sérstaklega hér vestra. Ekki aðeins í sambandi við atvinnuástandið eða fólksflóttann, heldur spannar þessi neikvæðni allt – menningaratburði, félagslíf og íþróttir. Þetta verður að stöðva. Ef við viljum reyna að bæta ástandið hér, þá verðum við að byrja á okkur sjálfum.
Þessi grein er skrifuð vegna þess að fólk hér í bæ hefur verið of fljótt að dæma og verið neikvætt í garð KFÍ. Í vetur hefur strákunum í meistaraflokki ekki gengið eins vel og við viljum, en gefur það einhvern rétt til að rakka þá niður? Þetta eru strákar sem leggja mikið á sig, flestir vinna fulla vinnu og eru jafnframt að þjálfa og æfa. Einnig eru sumir þeirra með fjölskyldu sem þeir þurfa líka að sinna.

Það koma tímar hjá öllum, þegar ekki er allt eins og allra best verður á kosið. Þá, og sérstaklega þá, þurfum við einhvern góðan bakhjarl sem stendur með okkur, hjálpar okkur og stappar í okkur stálinu. Þetta er einmitt það sem KFÍ þarf núna og það er verkefni okkar allra.

Við höfum haft hér íþróttafélög sem hafa átt og eiga sum hver ennþá góða íþróttamenn, en þegar illa árar hjá þeim er algengt að fólk labbi í burtu. Íþróttafélögin hér á Vestfjörðum eiga fullt af ungu og efnilegu fólki og við, almenningur, eigum að styðja við bakið á því. Þetta unga fólk er okkar framtíð og þá erum við alls ekki bara að tala um körfuboltann, heldur einnig sundið, fótboltann, handboltann, skíðin og yfirleitt allt það jákvæða sem ungir og efnilegir krakkar eru að fást við. Hættum að brjóta niður og byrjum á því að byggja enn frekar upp íþróttastarf hér í bæ.

Við segjum Áfram KFÍ! en viljum einnig nota tækifærið og óska öllu íþróttafólki gæfu og gengis á nýrri öld.
– Ísfólkið.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi