Grein

Jón Steinar Guðmundsson.
Jón Steinar Guðmundsson.

Jón Steinar Guðmundsson | 23.05.2006 | 13:58Ungt fólk óskast á landsbyggðina!

Svona gæti auglýsingaherferð sveitarfélaga hljómað. Margir eru á því að yngja þurfi upp sveitarfélögin á Vestfjörðum og að fólk frá tvítugu til þrítugs sé vart sjáanlegt á svæðinu. Mikil menntaalda ríður nú yfir landið og fólk vill í auknu mæli mennta sig. Nú höfum við möguleika til náms í fjarnámi en hvaða þættir eru það sem ungt fólk lítur til þegar það velur sér búsetu? Að sjálfsögðu eru þarfir manna misjafnar en þó er líklegt að ungt fólk líti til ákveðinna þátta eins og t.d; samgangna, húsnæðismála, atvinnumöguleika, skólamála og íþrótta- og æskulýðsstarfs svo einhverjir þættir séu nefndir.

Við hjónin ákváðum að koma heim aftur eftir nokkurra ára fjarveru og völdum að setjast að í Bolungarvík. Við tókum eftir að sumt hafði breyst og annað staðnað á þeim árum sem við voru fjarverandi. Sl. haust mótmælti Óshlíðin harðlega með tilheyrandi grjótkasti á veginn og er það mál nú í þeim farvegi að beðið er eftir lausn. Búið er að viðurkenna vandann en fylgja þarf eftir að sú lausn sem verður ofan á verði að veruleika.

Rétt er það að sala á húsnæði hefur aukist í Bolungarvík en fjölgun íbúa er ekki af sama skapi. Mörg sveitarfélög hafa skipulagt svæði til íbúðabygginga en slíkt er ekki til í Bolungarvík, það er ekki gert ráð fyrir nýju húsnæði. A-listinn vill breyta þessu, veita fólki tækifæri til að byggja og einnig að leita eftir samstarfi við einkaaðila um byggingu íbúðabyggðar fyrir aldraða.Margt ungt fólk er í barneignarhugleiðingum eða á börn. Því skiptir framtíð litlu einstaklinganna miklu máli og þjónusta við barnafjölskyldur mikilvæg. A-listinn vill ráða skóla-og fjölskyldufulltrúa í fullt starf og gera skólastarf í Bolungarvík heildstætt þar sem lögð væri áhersla á samfellu í námi leik- og grunnskóla og að heimanám og tómstundir nemenda færðust inn í stundaskrá þeirra.

Íþróttalíf hefur lengi staðið í blóma í Bolungarvík. Það hefur kannski ekki breyst en iðkendur mættu vera fleiri. Nú sækir kyrrseta að börnum með tölvuleikjum og sjónvarpsglápi og mörgum börnum finnst erfitt að sleppa tölvunni til að fara á íþróttaæfingar. Með þeirri samfellu sem er hér nefnd að ofan kæmum við í veg fyrir slíkt og að auki vill A-listinn gefa börnum tækifæri á að stunda íþróttir á vegum íþróttafélaga bæjarfélagsins gjaldfrjálst til 16 ára aldurs. Slíkt mun að öllum líkindum draga úr brottfalli barna og unglinga úr íþróttum.

Að auki er nauðsynlegt að bæta enn við íþróttaaðstöðu bæjarbúa. Á næsta ári verður íþróttamiðstöðin Árbær 30 ára og við hæfi að efla þjónustu enn frekar. A-listinn vill kanna fjármögnunarleiðir til byggingar sundlaugargarðs og endurbóta á húsnæðinu auk þess að markaðssetja íþróttamiðstöðina fyrir ættarmót, ráðstefnur og móttöku stærri hópa. Við Bolvíkingar verðum öll að sýna ábyrgð og taka þátt í að móta og gera samfélagið okkar að eftirsóknarverðu svæði til búsetu.

Ég vil ekki eyða orðum mínum í að segja af hverju á ekki að kjósa D eða K. Ég vil hins vegar benda á þann kost að setja X við A í komandi kosningum, því það er þörf á jákvæðum breytingum.

Jón Steinar Guðmundsson. Höfundur er smiður og aðstoðarþjálfari sameinaðs mfl. karla BÍ-Bolungarvík og skipar 3.sæti A-listans í komandi bæjarstjórnarkosningum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi