Grein

Guðjón Már Þorsteinsson.
Guðjón Már Þorsteinsson.

Guðjón Már Þorsteinsson | 22.05.2006 | 18:10Já, ég er viss!

Ég hef búið á Ísafirði í um tuttugu og sex ár. Þennan tíma hef ég nýtt til þess að koma mér upp fjölskyldu og ég tel mig hafa gert vel í þeim efnum. Fljótlega eftir komu mína hingað fékk ég áhuga á pólitík og þá sérstaklega bæjarpólitík. Ég hef verið mjög virkur þar á ýmsum vettvangi og setið í fjölmörgum nefndum. Þó að ég sé sjálfstæðismaður að upplagi, þá er nú svo að ég hef alls ekki alltaf verið sammála meirihluta flokksins, og það fór að halla verulega á bæði áhuga minn og sannfæringu um tíma.

Ég gerðist sekur um vera kærulaus um atkvæði mitt, með því að kjósa ekki, enda sá ég ekki tilganginn í því á þeirri stundu. Ég þagði þunnu hljóði og var ekki nógu ákafur í að koma mínum skoðunum á framfæri, það kann ekki góðri lukku að stýra og það er stundum dýrt að taka ekki afstöðu. Sá tími er liðinn, og þó að ég sé ekki sammála öllu því sem D-listinn hefur bæði gert og eins hefur haft á stefnuskrá sinni, þá er ég viss um að geta haft áhrif á framtíð okkar með því að leggja málefnum lið. Það segir sig sjálft að ef að maður vill hafa áhrif á framtíð Ísafjarðarbæjar, þá verður maður að vera tilbúinn í vinnu.

Félagsmál og íþróttir eiga hug minn allan. Ég sit nú í stjórn Heraðssambands Vestfirðinga og einnig er ég í stjórn Körfuknattleikssambands Íslands og einnig er ég að fara í nefnd á vegum Íþróttasambands Íslands. Ég hef séð hvað hægt er gera hér á Vestfjörðum, og ég vill gera betur. Ég vil taka þátt í mótun framtíðaríþróttamanna hér, ég vill taka þátt í að efla félagsmálin og treysti mér fullkomlega að gera það með frábæru fólki sem skipar D-listann. Ég hef unnið með mjög mörgu af þessu fólki sem skipar listann og það er ein helsta ástæða að ég trúi og treysti á sjálfstæðisflokkinn. Það er gott til þess að vita að fólk sem tilbúið í vinnu fyrir bæjarfélagið. Þetta er erfiðisvinna, það veit ég eftir áratugavinnu í íþrótta og félagsmálaumhverfinu. En þessi „litla fjölskylda“ okkar er kominn í vinnugallann og hættir ekki fyrr en dagsverkinu er lokið.

Ég tel sjálfan mig bjartsýnismann í dag, en viðurkenni fúslega að hafa verið bölsýnismaður oft á tíðum. Bjartsýnismaður er maður sem veit hve sorglega manni getur farnast í lífinu. Bölsýnismaður er alltaf að grafast fyrir um orsakir þess. Við eigum að vera bjartsýn. Við eigum að horfa fram á veginn og láta verkin tala. Við eigum að ætla okkur stóra hluti og við eigum ekki að vera hrædd við að vera stór.

Ég treysti Halldóri, Birnu, Gísla, Inga Þór, Níelsi, Guðnýju, Hafdísi, Ingólfi, Stefáni, Öldu, Gróu, Sigurði, Sturlu, Áslaugu, Brad Alexander, Steinari, Geirþrúði, þér og mér til þess að halda áfram uppbyggingu Ísafjarðarbæjar. Ég lifi í nútíðinni, ég trúi á framtíðina, og gleymi ekki fortíðinni....

Henry Ford sagði eitt sinn við eina af bílaverksmiðjum sínum; Að safnast saman er upphafið, að halda saman er framför, að vinna saman er sigur”.

Ég geri þessi orð að mínum og hvet fólk að setja X við D.

Guðjón Már Þorsteinsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi