Grein

Guðrún Anna Finnbogadóttir.
Guðrún Anna Finnbogadóttir.

Guðrún Anna Finnbogadóttir | 18.05.2006 | 09:14Sjávarútvegur á Vestfjörðum

Vestfirðingar voru á síðustu öld í fararbroddi á landsvísu í veiðum og vinnslu á fiski. Staða okkar í forystusveit á þessu sviði hefur breyst en á Vestfjörðum hafa í gegnum tíðina verið stofnuð mörg nýsköpunarfyrirtæki í sjávarútvegi og tengdum greinum. Þau fyrirtæki sem enn eru við lýði eru svo sjálfsagður hluti af heildarmynd okkar samfélags að við gleymum að þau voru og eru nýsköpunarfyrirtæki. Öll þau fyrirtæki sem eru hætt eru hins vegar hluti af okkar tækifærum inn í framtíðina því að með störfum okkar í þeim höfum við öðlast mikla reynslu og sérþekkingu sem nýtist okkur á nýjum vettvangi.

Góður árangur í veiðum og vinnslu á Íslandi byggir á mikilli þekkingu sem við höfum byggt upp í áranna rás. Fiskvinnslur landsins hafa breyst mikið og hafa tækninýjunar í tækjabúnaði valdið byltingu í auknum afköstum og bættum gæðum afurðanna. Við höfum svarað kröfum markaðarins um ferskleika, stöðlun og rekjanleika vörunnar sem hefur krafist nýrra vinnubragða í iðnaðinum. Til þess að ná þessum markmiðum hafa sjávarútvegsfyrirtæki, fyrirtæki í framleiðslu á tækjabúnaði og rannsóknum verið í stöðugri þróun og útrásin hefur verið mikil.

Hafrannsóknarstofnun hefur verið með starfsemi á Ísafirði en nú hefur verið tekin skýr stefna um að leggja áherslu á veiðafærarannsóknir þar. Veiðafærarannsóknum þarf að sinna af miklum krafti því sú krafa að ganga vel um auðlindir okkar fyrir komandi kynslóðir er sívaxandi og eru auknar rannsóknir á veiðarfærum þáttur í þeirri þróun.

Hjá Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins hefur verið lögð áhersla á rannsóknir í þorskeldi á Ísafirði þar sem staðhættir eru mjög hentugir á Vestfjörðum og er nú verið að auglýsa eftir fleiri rannsóknarmönnum á því sviði. Í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu hafa verið unnar miklar rannsóknir og árangurinn lofar góðu ekki síst vegna þeirrar miklu þekkingar sem heimamenn búa yfir á öllum sviðum sjávarútvegs.

Sjávarútvegur hefur verið okkar helsta auðlind á síðustu öld. Á meðfylgjandi línuriti má sjá hvernig þróun þorskveiða hefur verið.Hvernig þróunin verður á næstu öld er ekki gott að spá um, en frumeldi á þorski og rannsóknir á því sviði munu væntanlega hafa áhrif á þróun mála og leiða til þess að Íslendingar geti haldið markaðshlutdeild sinni í sölu á þorski á erlendum mörkuðum ef þorskveiðar fara ekki að aukast á Íslandsmiðum. Vestfirðingar eru virkir þátttakendur í þeirri þróun að gera þorskeldi að framtíðar atvinnugrein.

Kvótamál hafa verið mikið í umræðunni og hefur kvótakerfið ekki verið að skila okkur þeirri hagsæld sem við hefðum kosið. Vestfirðingar fengu á fiskveiðiárinu 2004-2005 úthlutað 11,1% af heildarmagni úthlutaðs þorskkvóta eða 18 þúsund tonnum af slægðum þorski en heildar úthlutunin var 162 þúsund tonn. Atvinnutekjur af fiskveiðum á Vestfjörðum á því firkveiðiári voru um 35% en á Austfjörðum 28%, 15-20% í öðrum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var 2,5%. Sjávarútvegurinn vegur því enn þyngst í heildar tekjuöflun Vestfirðinga.

Aflamark hefur á síðustu 10 árum dregist saman í Ísafjarðarbæ og hafa margir þættir orðið til þess. Byggðakvóta hefur þó verið úthlutað undanfarin ár til að reyna að rétta hlut manna sem hafa orðið fyrir mikilli skerðingu. Úthlutun þess kvóta hefur verið mjög umdeild en Ísafjarðarkaupstaður hinn forni hefur verið alveg afskiptur í þeirri úthlutun á síðustu árum þar sem aðeins hefur verið úthlutað til minni byggðarkjarnanna. Hnífsdalur hefur einnig verið skilinn frá Ísafjarðarkaupstað hinum forna til að rétta hlut þeirrar smábátaútgerðar er þar starfar. Samt er þetta allt eitt og sama sveitarfélagið.

Smábátaútgerð var í blóma á Vestfjörðum fyrir um 5 árum síðan, en nú er svo komið að aðeins 1/3 smábáta sem þá voru á Ísafirði er eftir hér. Á Suðureyri og Flateyri hefur hinsvegar tekist að spyrna við fótum og halda í kvótann. Eftir að dagakerfið var tekið af í smábátakerfinu sjást varla sumarvertíðarbátar sem fyrir aðeins nokkrum árum fylltu hér hvert einasta byggðarlag á Vestfjörðum vegna nálægðar við fengsæl fiskimið.

Árið 2003 átti Ísland 2,4% af heimsafla fiskveiðiþjóða í heiminum svo hlutur okkur er í raun stór. Við hér í Ísafjarðarbæ erum hluti af þessari heild og þurfum að kappkosta að halda okkar hlut og nýta alla okkar þekkingu á sviði sjávarútvegs til að skapa okkur tekjur og atvinnutækifæri. Þróunin er hröð og það er aldrei að vita hvaða sproti nær að verða stór en með bjartsýni, kjarki og þori náum við árangri.

Guðrún Anna Finnbogadóttir sjávarútvegsfræðingur skipar 10. sæti Í – listans til bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi