Grein

Jón Fanndal Þórðarson.
Jón Fanndal Þórðarson.

Jón Fanndal Þórðarson | 07.03.2006 | 13:22Hvenær er botninum náð?

Samkvæmt tölum um íbúaþróun á Vestfjörðum fyrir árið 2004 kemur í ljós að íbúum hefur fækkað um 185 það ár. Burt fluttu 742 en aðfluttir voru 557. Fækkun hefur orðið í hverju einasta sveitarfélagi nema Súðavík. Mest er blóðtakan í Vesturbyggð þar sem 118 fluttu í burt en aðeins 58 komu í staðinn. Þeir hafa því misst 60 manns. Ég hef tekið saman yfirlit yfir íbúaþróun á Vestfjörðum allt frá árinu 1986 og kemur þá í ljós að árið 2004 er fjórða versta árið á þessu 19 ára tímabili. Þau ár sem meiri fólksfækkun hefur orðið eru árin 1995 en þá var fækkunin mest eða 325, 1999 en þá fækkaði um 249 og 1997 en þá varð fækkunin 207. Tvö ár skera sig úr þ.e. árin 1991 og 1992 en þá verður fjölgun 13 íbúar hvort ár. Meðaltalsfækkun á tímabilinu er 108 íbúar á ári.

Það kemur mér og eflaust fleirum á óvart að þetta s.l. ár skuli koma svona illa út eða langt yfir meðaltals fólksfækkun síðustu 20 ára. Er nú ekki ástæða til að bregðast við þessum ótíðindum eða eigum við að láta reka á reiðanum áfram.

Skítugu börnin hennar Evu

Það er reynt að telja okkur trú um að hér sé allt í lagi, en er það svo? Ekki ljúga þessar tölur þó auðvelt sé að ljúga með tölum og það óspart gert af stjórnmálamönnum. Það má ekki koma kusk á hvítflibbann og ekki sletta á glansmyndina. Ég skal fúslega viðurkenna að við eigum ekki að vera með barlóm og væl, það þjónar engum tilgangi nema síður sé, og er ég síst talsmaður þess en verðum við ekki að viðurkenna staðreyndir og þegar þær liggja fyrir að reyna að snúa vörn í sókn. Sókn er besta vörnin var einu sinni sagt. Ég get ekki sætt mig við neitt minna en að íbúum á Vestfjörðum fjölgi og það strax. Þeir sem skýla sér á bak við glansmyndina segja að hér sé allt á uppleið, 80 íbúðir í smíðum á Ísafirði einum og fasteignaverð hafi hækkað um 30 % á einu ári.

Þetta er eflaust rétt en hvers vegna í ósköpunum fjölgar okkur ekki en í þess stað sló síðastliðið ár næstum met í fólksfækkun. Frá Ísafjarðarbæ fluttu 335 íbúar í burtu en að vísu komu 294 í þeirra stað en fækkunin varð samt 41. Hér hlýtur að vera eitthvað að, en hvað er það? Þessu ættu kjörnir sveitarstjórnarmenn að geta svarað.

Til hvers kjósum við sveitarstjórnir?

Sveitarstjórnir eru haggæslumenn hvers byggðalags. Í sveitarstjórnir kjósum við þá menn og konur sem við teystum best fyrir hag okkar og byggðalagsins. Ábyrgð þeirra er mikil. Við ætlumst til að þeir séu vandanum vaxnir.Nú styttist í næstu sveitarstjórnarkosningar. Vonandi tekst okkur að kjósa þá aðila til forustu sem hæfastir eru til að leiða mál okkar til farsældar.

Að lokum vil ég skora á alla verðandi sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum að hætta að knékrjúpa fyrir reykvískum ráðuneytum og biðja þau um ölmusu. Þeir stinga bara upp í ykkur dúsu til að fá ykkur til að þegja. Hafnið miðstýringunni og takið forustuna í ykkar eigin hendi. Það mun reynast best.

6. mars 2006, Jón Fanndal.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi