Grein

Steinþór Bragason.
Steinþór Bragason.
Óshlíðin. Krossarnir á myndinni sýna hvar og hversu margir hafa látist á Óshlíðinni.
Óshlíðin. Krossarnir á myndinni sýna hvar og hversu margir hafa látist á Óshlíðinni.

Steinþór Bragason | 21.02.2006 | 13:10Má bjóða þér í vestfirska rúllettu?

Á baráttufundi um bættar samgöngur þann 14. janúar síðastliðinn kom bersýnileg í ljós að íbúar Bolungarvíkur, Súðavíkur og Ísafjarðar vilja Óshlíðina burt og að stefnt skuli að heildarlausn. Það þarf að skoða þau vandamál sem til staðar eru, vega og meta kosti og galla og komast að vel rökstuddri niðurstöðu. Hvað er verið að bjóða Bolvíkingum og Súðvíkingum uppá í dag í samgöngumálum? Ef ekið er milli Bolungarvíkur og Súðavíkur þarf að keyra um 102 hættusvæði, þetta er sviðað og spila vestfiska rúllettu. Þetta er einungis rétt rúmlega 30 kílametra löng leið. Hvar annars staðar á Íslandi er fólki boðið uppá annað eins?

Ég átti fund með samgönguráðherra þann 25. síðastliðinn og bar fyrir hann þá spurningu, hvernig standi á því að íbúum norðvesturlands sé boðið uppá þessar hræðilegu aðstæður, og hvernig standi á því að Óshlíð og Súðavíkurhlíðin komist ekki inn á vegaáætlun? Svörin sem ég fékk voru þau að hann hafi viljað beita sér fyrir bættum samgöngum á norðanverðum Vestfjörðum, en þingmenn kjördæmisins vilji eins og stendur beita sér fyrir bættum samgöngum við Ísafjarðardjúp. Er þetta virkilega satt?

Ég skora hér með á þingmenn norðvestur kjördæmis sem og þingmenn annarra kjördæma að vinna að því að bæta samgöngur innan kjördæmisins. Þeir samþykktu nú lög nr.49/1997 sem segja fyrir um að vinna skuli að vörnum gegn tjóni og slysum af völdum snjóflóða og skriðufalla.

Tilheyra ekki norðanverðir Vestfirðir ennþá Íslandi?

Lausnin

Sú lausn sem Ríkisstjórnin býður Bolvíkingum og Vestfirðingum uppá er að göng undir Óshyrnu og losna þar með við 1 af 50 hættusvæðum vegfaranda frá Bolungarvík út á flugvöll á Ísafirði. Ég nota flugvöllinn sem viðmið því samkvæmt mælingum Vegagerðarinnar er mesti fjöldi vegfaranda frá Bolungarvík og til flugvallarins í Skutulsfirði. Er það ásættanlegt að nota 1,2 miljarð til að forðast einungis eitt hættusvæði? Ég segi NEI. Því ekki að nota 1,75 miljarða til að leysa allan vandann og stytta leiðina út á flugvöll um 4,8 km, þannig að Bolvíkingur sem á leið út á flugvöll sparar sér 9,6 km við að fara fram og tilbaka. Með þessari styttingu er sparnaður af umferð 1,85 miljarðar, sem ég dró frá áætluðum kostnaði við göngin. Leiðin sem umræðir er að fara frá Syðridal og koma út við Múlaland í Skutulsfirði.

Hættumat á Óshlíðinni

Það hefur mikið verið í umræðunni hættumat á Óshlíðinni. Samkvæmt skráningum lögreglu frá 1988-2005 sýna niðurstöður skráninga að mest grjóthrun hafi verið í Arafjalli árin 1999, 2000, 2001, 2003, 2004 og í Óshyrnu 1998, 2002, 2005. Árið 2005 var sérstaklega slæmt í Óshyrnu eða 19 skráð grjóthrun. Hvað segja þessar niðurstöður okkur? Kannski hálfan sannleikann. Þessar niðurstöður eru byggðar á skráningu lögreglu þegar vegfarendur hafa hringt inn og tilkynnt skriðuföll. En hvað með grjót sem fallið hefur á veginn og vegfarendur hafa rutt út vegi og ekki tilkynnt skriðufallið. Á mínum skólaárum fyrir vestan kom ég að skriðuföllum og nokkrum sinnum ruddum ég og félagar mínir grjóti frá veginum án þess að tilkynna það. Einnig er mikið af grjóti sem lendir á veginum og rúllar svo áfram niður í fjöru því vegurinn er ansi mjór á köflum. Það er nú bara fyrst núna sem GSM samband er á Óshlíðinni. Eina raunverulega mælingin á hættumati á Óshlíðinni eru dauðsföllin. Krossarnir á mynd 1. sýna hvar fólk hefur látið lífið af völdum snjóflóða, grjóthruns og sviptivinda. Hvað þurfum við að fórna mörgum áður en vegsambandið verður viðunandi?

Hvað er í boði fyrir Súðvíkinga (Bolvíkinga, Hnífsdælinga, Ísfirðinga, Súgfirðinga, Flateyringa, Þingeyringa)?

Hvernig eru samgöngumálin milli Súðavíkur og Ísafjarðar? Frá flugvellinum að Súðavík eru 52 hættusvæði. Já 52 hættusvæði á 15,4 km. Þessi hættusama leið er eini þjóvegur norðvesturskjördæmisins að vetri til. Þessi lífæð við aðra landhluta lokast oft á ári þannig að íbúar norðurvestur svæðisins einangrast meðan vegurinn er lokaður. Íbúar svæðisins geta ekki treyst á flugsamgöngur því stopulli geta þær ekki orðið því samtals eru það u.þ.b tveir mánuðir á ári sem ekki er hægt að fljúga til Ísafjarðar. Ég er ekki hissa að mesta fólksfækkunin sé á Vestfjörðum meðan íbúum er boðið uppá þessar aðstæður. Ég skora því á alla alþingismenn landsins að beita sér fyrir bættum samgöngum á norðvesturssvæðinu til að byggðir þess geti blómgast.

Hugmynd mín að bættum samgöngum Súðvíkinga og opnunar þjóðvegarins er að gera göng frá flugvellinum yfir í Arnardal og þaðan yfir í Eyrardalinn í Álftafirðinum. Það má líkja þessu við lítil Héðinsfjarðagöng. Þessi göng myndu stytta leiðina til Reykjavíkur um 9,2 km og leiðina til Súðavíkur um 8 km. Kostnaður við þessi göng að frátöldum sparnaði af styttingu gæti orðið um 2,5 milljarðar króna.

Með því að gera leysa allar þessar hættur væri ráðlegast að leysa þær í einum pakka sem gæti litið út eitthvað í þessa áttina:

Bolungarvík – Ísafjörður:     3,6 milj.kr.
Ísafjörður – Súðavík:           3,9 milj.kr.
Pakkalausn:                       -0,1-0,4 milj.kr.
                                            7,1-7,4 mill.kr
Sparnaður af styttingu         3,25 milj.kr
Heildarkostnaður                3,85-4,15 milj.kr

Eftir hverju er verið að bíða, við skulum framfylgja lögum og leysa þessi samgönguvandamál. Þetta fólk sem þarna býr er búið að skila margföldum þessum tekjum í þjóðarkörfuna. Því væri upplagt að nota eitthvað að þeim peningum sem komu í ríkiskassann frá hinum mikla bílainnflutningi á seinasta ári (2005), það þyrfti ekki nema 16% af því fjármagni.

Ég skora hér með á Ríkisstjórnina að stytta leiðina milli þessara byggðalaga um 14 km, eða nærri því helming og þar með tryggja langvarandi öryggi þessara byggðalaga og hagkvæmni með heildarlausn.

Þessi grein er útdráttur úr framsöguerindi mínu sem ég flutti í Víkurbæ 14.01.2006. Einnig er að finna framsöguna í bundnu máli inn á www.steinthor.com, þar er að finna nánari útskýringar.

Lifið heil,
Steinþór Bragason,
Danmörku.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi