Grein

Guðmundur Karl Jónsson.
Guðmundur Karl Jónsson.

Guðmundur Karl Jónsson | 20.02.2006 | 11:39Hnefahögg í andlit Vestfirðinga

Fyrir sex árum blekktu siðblindir og fáfróðir landsbyggðarþingmenn Alþingi til að ákveða Héðinsfjarðargöng eftir að hafa teymt fjárveitingavaldið og Vegagerðina á asnaeyrunum. Þess iðrast nú enn fleiri landsbyggðarþingmenn sem viðurkenna að það hafi verið vitlaus forgangsröðun að bjóða Héðinsfjarðargöng út að loknu útboði Austfjarðaganganna einum mánuði áður en samningar um stóriðjuframkvæmdir á Reyðarfirði voru undirritaðir milli íslenskra stjórnvalda, Landsvirkjunar, Fjarðaráls og stjórnenda ALCOA í Bandaríkjunum. Fyrir norðan og víðar vilja stuðningsmenn Vaðlaheiðarganga Héðinsfjarðargöng norður og niður, og helst lengra.

Óþolandi er að ekki skuli allir heimamenn í fjórðungnum hafa greiðan aðgang að stóra Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði allt árið um kring eftir að ákveðið var að moka 7 til 10 milljörðum kr í veggöngin milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Stefnuleysi allra þingmanna Vestfirðinga nema Kristinns H Gunnarssonar í þessu máli er til háborinnar skammar. Mun meira fjármagni verður varið í Héðinsfjarðarruglið heldur en til annarra landshluta með ennþá fleiri íbúa en á Siglufirði og Ólafsfirði. Í þessari samgönguáætlun er Vestfirðingum, Norðlendingum og Austfirðingum mismunað þegar aurskriður í þessum landshlutum skapa vandræði. Með þessum vinnubrögðum verður fjármunum misskipt milli landshlutanna. Fyrir stjórnvöld og siðblinda landsbyggðarþingmenn gengur það aldrei upp að þeir gefi kjósendum sínum fögur loforð um rándýrar samgöngubætur í formi jarðganga með löngum fyrirvara og skeri þau síðan niður heimamönnum til mikillar hrellingar. Það er varasamt þegar fáfróðir landsbyggðarþingmenn kynna svona loforða lista sem engin innistæða er fyrir og það á fölskum forsendum áður en kjósendurnir eru sviknir.

Norðanlands kölluðu allar sveitarstjórnirnar nema á Siglufirði og Ólafsfirði þessa Jarðgangaáætlun stærsta samgönguhneyksli Íslandssögunnar þegar þær spurðu ásamt vonsviknum heimamönnum á Akureyri, Sauðárkrók, í Húnaþingi og víðar kjörna þingmenn hvers vegna þeir kynntu sér ekki þörfina á því að lagfæra fyrst alla vegi með einbreiðu slitlagi og losna um leið við einbreiðar brýr á hringveginum og hér í fjórðungnum. Fátt var um svör þegar þessir þingmenn voru líka spurðir að því hvers vegna Dýrafjarðargöng og fjölmörg styttri göng hér í fjórðungnum máttu ekki hafa forgang í fyrsta áfanga með Austfjarðagöngunum. Þar eiga Héðinsfjarðargöng ekki heima. Þessi vinnubrögð eru hnefahögg í andlit Vestfirðinga. Það er illt fyrir heimamenn hér í fjórðungnum og á Vesturlandi að sitja undir þeim rangfærslum um að ekki sé arðbært að ráðast í stutt veggöng undir Bröttubrekku og Klettsháls ef íslenka ríkið getur mokað enn hærri upphæðum í Héðinsfjarðarvitleysuna fyrir norðan heldur en talað er um.

Kristinn H Gunnarsson hefur beint því til stjórnvalda og allra landsbyggðarþingmanna að þeir skuli hætta þessum skollaleik og kynna sér þess í stað þörfina á styttri göngum hér í fjórðungnum, og Vaðlaheiðar- og Mjóafjarðargöngum vegna virkjunar- og stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi. Meirihluti Norðlendinga telur að Héðinsfjarðargöng séu ein vitlausasta framkvæmdin sem þeir hafi heyrt um í langan tíma þegar siðblindum landsbyggðarþingmönnum tekst að blekkja kjósendur sína, Alþingi, fjárveitingavaldið og Vegagerðina án þess að svara því hvaða forsendur réttlæti svona dýrar samgöngubætur sem engin arðsemi verður af. Hluta af þessari fjárhæð upp á 10 til 18 milljarða kr sem svona stór framkvæmd milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar getur kostað ef snjóflóðavarnargarð þarf að byggja milli gangamunnanna í Héðinsfirði væri betur varið til að rjúfa einangrun stóra Fjórðungssjúkrahússins á Ísafirði við íbúa Vesturbyggðar og Suðurfjarðanna með tvennum jarðgöngum inn í Geirþjófsfjörð auk Dýrafjarðarganga.

Ákvörðun sem nú liggur fyrir um að ráðist í jarðgangagerð milli Hnífsdals og Bolungarvíkur vekur spurningar um hvort ríkisstjórnin standi frammi fyrir því vandamáli að þurfa að láta fjölmörg styttri veggöng hafa forgang eftir að aurskriður hér í fjórðungnum og á Suðurfjörðum Austurlands hafa síðustu vikur og mánuði komist í fréttirnar. Annað hvort ákveður ríkisstjórnin strax að gerð skuli 4 til 6 km löng veggöng til að losna við allan Óshlíðarveginn eða menn sitja áfram uppi með þessa dauðagildru sem hrellir heimamenn um ókomna framtíð. Án jarðganga sem eru samgöngubylting leysast þessi vandamál aldrei eftir öðrum leiðum. Óshlíðarvegurinn hefði fyrir löngu átt að fá sitt fyrsta og síðasta dánarvottorð. Þá hefði líka átt að vera búið að skoða möguleika á jarðgöngum undir Skötufjarðarheiði sem geta stytt vegalengdina um 40 til 50 km. Það gengur ekki að almenningur skuli sitja uppi með ónýta vegi eftir sjófluttninganna sem þrefalda slysahættuna. Slíkir flutningar eiga ekki heima á þjóðvegunum. Útúrsnúningur sem viðhafður er í andstöðunni gegn jarðgöngum undir því yfirskini keyrið þið bara varlega hefnir sín á þeim sem vilja útvega ókeypis veiðileyfi á landsbyggðina.

Guðmundur Karl Jónsson farandverkamaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi