Grein

Brynjólfur Flosason.
Brynjólfur Flosason.

Brynjólfur Flosason | 13.02.2006 | 17:05,,Mannlíf“ á Vestfjörðum

Í febrúarhefti tímaritsins Mannlíf er nokkuð ítarleg grein um Vestfirði eða meira um nokkra útvalda Vestfirðinga. Í henni er fjallað um fólksflóttann, orsakir hans og afleiðingar eins og segir í efnisyfirliti þessa ágæta tímarits. Þykir mér viðmælendurnir sem talað var við vera raunsæir og nokkuð vel þenkjandi og gaman að lesa þeirra innlegg þrátt fyrir eina eða tvær undantekningar sem ég persónulega kunni ekki að meta. Ekki fæ ég þó lesið út úr umræddri grein að um nákvæma rannsóknarblaðamennsku sé að ræða en finnst mér einkenna hana hve mikið höfundurinn sjálfur reynir að draga upp dökka mynd af Vestfjörðum og fólkinu sem þar býr. Það er engu líkara en Reynir Traustason ritstjóri hafi sent blaðamann vestur á firði og blaðamaðurinn sé ekki sáttur við þetta ferðalag og hafi skrifað greinina í flugvélinni á leið sinni vestur.

Greinarhöfundurinn Páll Ásgeir Ásgeirsson byrjar á að setja sér í munn orð skáldsins/vestfirðingsins Eiríks Arnar Norðdahl og alhæfa að allir Vestfirðingar líti á árin 1990-2000 sem ,,Svarta áratuginn“ og lýsir svo á dramatískan hátt hvernig hann sér hverja aumkunarverða ásýndina á fætur annarri í för sinni. Hann gerir lítið úr þeirri bjartsýni og jákvæðni sem viðmælendur hans lýsa með því að kalla hana ,,möntru eða bænaþulu bjartsýninnar“. Það sem kemur mér þó mest á óvart er að skrif blaðamannsins séu flokkuð sem fréttaskýring. Ekki er ég menntaður á sviði blaðamennsku en í einfeldni minni hélt ég að fréttaskýringar ættu að innihalda lýsingu á atburðum líðandi stundar en ekki hugaróra blaðamanna.

Blaðamaðurinn leitar ekki svara við spurningum sem hann veltir sjálfur upp í inngangi ,,fréttaskýringarinnar“ þar sem hann spyr hvort rétt sé að aldurshópurinn 20-35 ára vanti í vestfirskt samfélag og meðalaldur hafi hækkað uggvænlega á síðustu árum? Páll Ásgeir vitnar í opinberar tölur Hagstofu Íslands varðandi fólksfjölda og hef ég lítið út á það að setja. Hinsvegar ef grafið er aðeins dýpra í upplýsingar sem hagstofan hefur að geyma er hægt að komast að ýmsum forvitnilegum niðurstöðum. Sú rannsóknarvinna sem undirritaður gerði með tölur hagstofunnar, og bar þær saman við sömu upplýsingar við tvö önnur landsvæði til að fá samanburðinn, komu fram skemmtileg svör við þessum spurningum Páls. Niðurstöðurnar má sjá í meðfylgjandi töflu en þar sést að fólksfækkun í aldurshópinum 20-35 ára er 2,6% á Vestfjörðum, 0,93% á Höfuðborgarsvæðinu og 2,92% á Norðurlandi eystra. Ekki sýnist undirrituðum vanta þarna heilu kynslóðina samkvæmt þessu.


Hvað varðar uggvænlega hækkun meðalaldurs veit ég ekki hvaðan Páll Ásgeir hefur þær upplýsingar enda ekkert um það í greininni nema fullyrðingin ein. Hins vegar er það þannig að meðalaldur Íslendinga hefur almennt hækkað mjög mikið, vegna þess að hægst hefur á fæðingum í landinu og fólk er orðið langlífara. Hvort meðalaldurinn hafi hækkað meira á Vestfjörðum fremur en annars staðar veit ég ekki, en hef samt ekki ástæðu til að rengja það við hann, þótt gaman væri að sjá nákvæma og rökstudda þróun hvað þessa stærð varðar.

Umræddur Páll spyr einnig með fyrirlitningu hvort ,,uppbygging einhvers konar háskólasamfélags fyrir skáld og kaffihúsaspekinga geti komið í stað bónusdrottninga og aflakónga”. Ekki finn ég fyrir nokkurn mun umfjöllun í þessari grein um nýstofnað háskólasetur, hvað þá um bónusdrottningar og aflakónga. Þó svo staðreyndin sé sú að á Ísafirði hefur nýlega verið opnað háskólasetur og frá Bolungarvík róa aflahæstu smábátar landsins og þó víðar væri leitað með verðlaunaða aflakónga eins og Guðmund Einarsson.
Það getur verið að ,,forsvarsmenn sveitafélaga á svæðinu lifi í afneitun ímyndaðrar bjartsýni“ og það ætla ég ekki að leggja mat á án frekari rannsókna á þessu stigi. Hins vegar er það eina niðurstaðan sem títtnefndur Páll Ásgeir virðist hafa komist að eftir þessa ferð sína ,, vestur í svart skammdegi og fannfergi” og segist hann einnig hafa reynt að slá menn út af laginu í bjartsýnisræðum þeirra og ekki tekist.

Þau vinnubrögð sem birtast í umræddri grein eru ekki til framdráttar fyrir Vestfirði að ég tel og þykir mér það undarlegt ef viðmælendur blaðamannsins séu sáttir við það hvaða niðurstaða er dregin úr ummælum þeirra. Ekki væri ég það í það minnsta en að öðru leiti er greinin ágæt.

Brynjólfur Flosason, viðskiptafræðinemi.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi