Grein

Einar K. Guðfinnsson.
Einar K. Guðfinnsson.

Einar K. Guðfinnsson | 08.02.2006 | 13:13Háskóli er fólk

Af öllu því, sem ég hef séð skrifað um menntun og skólamál eru orð heiðursborgara Ísafjarðar, sómamannsins Ragnars H. Ragnar mér alltaf eftirminnilegust. Hann sagði, sem fleygt varð; „skóli er ekki hús – skóli er fólk”. Kannski er þessi tilvitnun nú á þessari hátíðarstundu, er við tökum í notkun húsnæði háskólasetursins hér á Vestfjörðum, einkar óviðeigandi – og þó. Þvert á móti. Háskólasetrið okkar er nefnilega svo miklu meira en bara hús. Háskólasetrið er glæsileg hugmynd og dæmi um það þegar vonirnar rætast. Húsnæðið er rammi um þá hugmynd og auðvitað forsenda kennslunnar. Við Vestfirðingar vitum svo vel að háskólasetrið er ennþá meira en gott hús með merka sögu, sem er afar viðeigandi fyrir þá þekkingarstarfsemi sem hér á sér stað og mun eiga sér stað. Þess vegna eiga orð hugsjónamannsins og hins þingeyska Ísfirðings svo einstaklega vel við í þessu samhengi.

Hin veraldlega umgjörð

Þegar ég hitti Peter Weiss einn fallegan haustdaginn í litlu skrifstofunni, þar sem hann hafði komið sér fyrir hér í Vestrahúsinu, aleinn starfsmaður nýrrar stofnunar, þá rifjaðist upp fyrir mér 35 ára gömul minning við upphaf og stofnun Menntaskólans á Ísafirði. Jón Baldvin minn gamli skólameistari orðaði það einhvernvegin þannig að þar hefði setið einn og hálf umkomulaus skólameistari við einmanalegt skrifborð og tóma ruslafötu. Hin veraldlega umgjörð Menntaskólans í gamla barnaskólahúsinu við Aðalstræti var kannski fábrotin en námið og uppeldið innan hinna þiljuðu veggja gamla skólahússins var það sem máli skipti. Skólinn naut óskoraðs stuðnings samfélagsins og byggðist upp og varð sú mikilvæga stoð, sem hann er í dag. Nákvæmlega þannig verður háskólasetrið hér á Vestfjörðum. Við bindum við það miklar vonir og það er fullt tilefni til þess; - af því að háskólasetrið er ekki bara hús.

Rökrétt framhald

Í raun og veru er uppbygging háskólasetursins á Vestfjörðum rökrétt framhald af því sem við höfum verið að gera undanfarin ár. Vestfirðir hafa verið að breytast eins og aðrir hlutar landsins. Hér á Ísafirði og nágrenni hefur byggst upp margvísleg menningar- þróunar- og vísindastarfsemi. Það ber ekki síst að þakka forystufólki í bæjarmálum Ísafjarðar og sveitarstjórnum á Vestfjörðum sem hefur lagt sig fram um að vinna að slíkri uppbyggingu. Þetta starf hefur ekki alltaf verið auðvelt og oft hafa menn orðið að synda gegn ríkjandi viðhorfum og gagnrýni. Oft hefur maður heyrt raddir úr fortíðinni sem ekki skynjuðu þessa strauma framtíðarinnar sem þessi uppbygging er sannarlega. Í dag hygg ég á hinn bóginn að enginn efist um að rétt hefur verið að málum staðið. Sú uppbygging sem við höfum séð einmitt í þessu húsi er sönnun þess að við höfum verið og erum á réttri leið. Það er aðeins það að við hefðum kosið að geta farið hraðar.

Sjávarútvegurinn krefst ótrúlegrar þekkingar

Fyrir íslenskan sjávarútveg er uppbygging rannsóknar- og þróunarstarfsemi forsenda þess að atvinnugreinin lifi af. Sjávarútvegurinn krefst ótrúlegrar þekkingar á mjög fjölþættu sviði. Mér er til efs um að aðrar atvinnugreinar útheimti jafn fjölþættan þekkingarlegan bakrunn og einmitt sjávarútvegurinn. Þess vegna hef ég verið óþreytandi að halda því fram að sjávarútvegurinn sé okkar helsti þekkingariðnaður í landinu. Og við eigum að líta á sjávarútveginn sem framsækna, nútímalega atvinnugrein sem getur orðið starfsvettvangur fólks með margþætta og fjölbreytilega menntun. Hann er líka forsenda heilmikillar uppbyggingar á öðrum sviðum, eins og dæmi hafa margfalt sannað, meðal annars hér á Ísafirði.

Miðstöð veiðarfærarannsókna

Í nábýli og í samstarfi við háskólasetur Vestfjarða er að byggjast upp einstök þekking á sínu sviði sjávarútvegsins.Við höfum skilgreint Hafrannsóknastofnun hér á Vestfjörðum sem miðstöð veiðarfærarannsókna auk þess sem þar fer fram önnur starfsemi á sviði hafrannsókna. Ég hyggst efla þá starfsemi enn frekar. Fyrir mér vakir einfaldlega að Hafrannsóknastofnun verði á þessu sviði á heimsmælikvarða, enda dugar ekkert minna. Við erum með sjávarútveg á heimsmælikvarða og rannsókna- og þróunarstarfsemi á sviði hans verður þessvegna að skara fram úr. Veiðarfærarannsóknir eru mjög brýnar og eiga eftir að vaxa og því er mikilvægt að sá vaxtarbroddur verði einmitt hér.

Nýtum nábýlið við öflugasta þorskeldið

Sömu sögu er að segja um Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins. Sú starfsemi hefur hér á Ísafirði tekið miklum breytingum. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er nú hreinræktuð rannsóknastarfsemi. Þjónustumælingar sem áður voru burðurinn í starfsemi stofnunarinnar fara nú fram í einkafyrirtæki sem einnig starfar hér í húsinu. Þetta hefur gefið okkur tækifæri til þess að sinna með vaxandi áhuga og af auknum krafti mikilvægum rannsóknum, sérstaklega á sviði þorskeldis. Þannig nýtum við nábýlið við öflugustu atvinnustarfsemi á sviði þorskeldis á Íslandi, sem fer einmitt fram hér á svæðinu undir merkjum HG og búum til kröftugt þekkingarsamfélag á þessu sviði. Með breytingum á starfsumhverfi RF og sameiningu stofnana í nýtt fyrirtæki sem nú stendur fyrir dyrum gefst að mínu mati frekara tækifæri til þess að efla starfsemina á landsbyggðinni.

Samstarf við aðrar vísindastofnanir

Á vegum Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík er sömuleiðis unnið að mjög mikilvægum rannsóknaverkefnum sem tengjast þessu málefnasviði. Þar er nýtt einstök aðstaða sem meðal annars helgast af landfræðilegri stöðu þessarar vísindastofnunar í næsta nágrenni við Hornstrandir sem er paradís rannsóknarstarfsemi á mörgum sviðum. Hjá Náttúrustofnunni skapast því möguleikar sem fyrirfinnast hvergi annars staðar hér á landi til þess að varpa einstöku ljósi á þær breytingar sem eru að verða í umhverfi okkar og við þurfum að fylgjast náið með. Athyglisvert væri að efna til samstarfs okkar öflugustu vísindastofnana við Náttúrustofuna á þessu sviði.

Það er í þessu vísindasamfélagi sem háskólasetrið hér á Vestfjörðum er nú að hasla sér völl. Háskólasetrið fer því ekki af stað í neinu akademísku tómarúmi, heldur í öflugu fræða og vísindasamfélagi og getur fyrir vikið hrundið af stað starfi sem einstakt getur talist á margan hátt.

Við viljum ekki vera neinir kotungar

Nú fyrsta kastið horfum við fyrst og fremst til hlutverks háskólasetursins sem kennslustofnunar. Það mun gefa Vestfirðingum einstakt tækifæri til aukinnar menntunar. Á það ber að líta - og á það verðum við að leggja áherslu - að hlutverk háskólasetursins verður ekki eingöngu að uppfræða Vestfirðinga. Þangað eiga aðrir að sækja menntun sína jafnframt, vegna þeirrar sérstöðu sem þar á að byggjast upp með framúrskarandi hætti.

Háskólastarfsemi af þessu tagi á ekki einasta að vera þjónustufyrirtæki í heimabyggð, heldur einnig aðdráttarafl fyrir þá sem vilja sækja sér menntun hvaðanæva að úr heiminum. Þessvegna tel ég að sú hugmyndafræði sé rétt sem býr að baki háskólasetursins; annars vegar að verða staðbundin háskólakennsla á Ísafirði, en einnig að gefa kost á fjölþættri menntunarstarfsemi og sem sækir þekkingu sína hvaðanæva að úr heiminum. Við viljum nefnilega ekki vera neinir kotungar. Þess vegna var það eðlilegt að menn færu óhefðbundnar leiðir við uppbyggingu háskólanámsins hér. Þrátt fyrir efasemdir á fyrri stigum málsins þá hygg ég að mönnum sé að verða það ljóst að þessi aðferð við uppbygginguna er líklegri til þess að skila okkur öflugri menntastofnun en ella hefði verið.

„Ég var sá lukkunnar pamfíll…“

Ég var sá lukkunnar pamfíll fyrir tæpum 35 árum að vera meðal frumbýlinga í Menntaskólanum á Ísafirði. Ég man vel hvernig uppbygging Menntaskólans breytti samfélaginu hér. Það var auðvitað ævintýri að fylgjast með stuðningi samfélagsins við þennan vaxtabrodd sem Menntaskólinn var á þessum árum. Framgangur nýja háskólasetursins mun ekki síst ráðast af viðtökum okkar samfélags hér fyrir vestan. Ég veit að þær viðtökur verða góðar. Þessvegna höfum við mikla ástæðu til þess að binda miklar vonir við þetta upphaf nú, af því að við vitum eins og Ragnar H. Ragnar kenndi okkur fyrir áratugum; „skóli er ekki hús – skóli er fólk“. Og því segjum við núna –„háskóli er ekki hús - háskóli er fólk“.

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.

(Greinin er byggð á ræðu sem flutt var við vígslu húsæðis Háskólasetursins 4. febrúar sl.)


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi