Grein

Pálína Vagnsdóttir.
Pálína Vagnsdóttir.

Pálína Vagnsdóttir | 27.01.2006 | 18:02Að sjá sér ekki fært

Það er nú þannig stundum að maður getur ekki orða bundist og sú er staðan nú. Undirrituð var meðal þeirra sem komu listanum „Við viljum göng“ af stað og átti frumkvæði að baráttufundi um bættar samgöngur milli þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum í samvinnu við bæjarfélögin þrjú. Það er ótrúlegt að æ ofan í æ, beina ákveðnir einstaklingar kröftum sínum frekar í að rýra raddir þeirra 1.519 einstaklinga sem rituðu nöfn sín á listann „Við viljum göng“ heldur en að fagna þeirra röddum í umræðunni og þakka kjósendum sínum fyrir að koma vilja sínum á framfæri. Við afhendingu undirskriftarlistans sem er baráttulisti um jarðgöng milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar og Súðavíkur og Ísafjarðar tók ég skýrt fram að á listanum væru þeir sem studdu yfirskrift hans en jafnframt nöfn einstaklinga sem rituðu nöfn sín á listann til að styðja almennt við jarðgangagerð á Vestfjörðum. Aðalmarkmið samgöngufundarins var að upplýsa hinn almenna borgara um stöðu mála. Fundurinn var löngu tímabær.

Forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur er einn af þeim sem mikið virðist vera í mun að rýra þessa rödd. Honum virtist vera mikið í mun á áðurnefndum fundi að fá það fram á fundinum að framsögumönnum hugkvæmdist ekki sú leið sem yfirskrift listans „Við viljum göng“ hafði. Hann sjálfur sá sér ekki fært að skrifa á listann, það er virt, enda hefur hann talað sínu máli. Hann segir það óhætt vera, að fullyrða að miðað við viðbrögð á áðurnefndum fundi, „þá sé ekki fylgi við þá hugmynd að fara með jarðgöng úr Syðridal í Vestfjarðagöngin, að enginn fundarmanna né framsögumanna hafi staðið upp á fundinum og talað fyrir þeirri leið“ eins og fram kemur í grein hans. Þessa leið studdu þó 1519 manns. Það er auðvelt að kynna sér hvaða nöfn eru á listanum á vikari.is og þeir sem voru á fundinum geta séð að þó nokkur nöfn manna og kvenna á listanum eru þau sömu og voru á fundinum.

Ég minnist þess ekki að fundarmenn hafi verið spurðir um það sérstaklega hvort þeir hefðu skrifað á listann eða væru hlynntir þeirri leið sem yfirskrift hans sagði til um. Mér er því með öllu óskiljanlegt hvernig hægt er að fullyrða svona. Forseti virðist ekki skilja það enn að fólk var komið á fundinn til að upplýsa sig um stöðu mála en sem betur fer ekki til að karpa um leiðir. Ef ég leyfi mér nú að leggja eins út og forseti í nýjustu grein sinni sem birtist á bb.is 20. janúar s.l. þá var það heldur enginn framsögumanna né fundarmanna sem virðist fylgja þeirri hugmynd að gera 1.200 metra langan gangnabúta undir Óshyrnu. Álit sömu fundarmanna á gangnabútanum kom ekki fram því þeir voru ekki spurðir. Forseta láðist að nefna það í grein sinni.

Einn framsögumanna, Steinþór Bragason tók það fram eftir ítrekaða spurningu forseta bæjarstjórnar Bolungarvíkur hvað mál þetta varðar að hann hefði ekki skrifað á listann því honum hugkvæmdist ekki leiðin. Það er líka virt. Einu spurningarnar sem lagðar voru fyrir fundarmenn voru þær, að undirrituð óskaði eftir handauppréttingu þeirra sem vildu ein göng, alla leið, í einum áfanga, óháð leiðum. Það var ánægjulegt að sjá að það gerði mikill meirihluti fundarmann. Hin óskin var að þeir sem væru óhræddir við að segja sveitarstjórnarmönnum okkar, þingmönnum, ráðherrum og ríkissjórn Íslands hvað við vildum, varanlega lausn, ein göng, alla leið voru beðnir að rétta um hönd. Það var líka sérstaklega ánægjulegt að sjá meirihluta fundarmanna rétta upp hendi.

Ég vona að þeir sem hyggjast á framboð í komandi kostningum átti sig á því að bróðurpartur þess fólks sem skrifaði á listann og bróðurpartur fundarmanna vill að málin verði leyst í eitt skipti fyrir öll, í einum göngum, í einum áfanga, það er kjarni málsins, ekki endilega hvaða leið er farin. Eins og ég hef áður sagt er það að sjálfsögðu fagmanna að meta hvaða leið er fær en ákvörðunarrétturinn liggur ekki hjá þeim sem skrifuðu nöfn sín yfirskriftinni til stuðnings og það tók ég jafnframt fram við afhendingu listans. Við leikmenn erum ekki að setja okkur fremri fagmönnum. En við höfum ekkert að gera með fólk í fremstu víglínu í næstu kostningum sem „sér sér ekki fært“ að berjast fyrir framtíðarlausnum og gerir lítið úr skoðunum 1519 kjósenda.

Ég var spurð að því um daginn hvort það gæti verið að barátta ákveðinna manna tengist jafnvel því hverjir fyrstir keyrðu Óshíðina þegar hún var opnuð? Því neita ég að trúa. Ég vil trúa því að óskir kjósenda styðji sveitarstjórnarmenn, þingmenn og ráðherra í baráttunni um öruggar, varanlegar samgöngur, ein göng, í einum áfanga. Það hefur jafnframt verið fullyrt í mín eyru að vestfirskir þingmenn og ráðherrar séu ekki að berjast fyrir gerð jarðganga á milli þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum, þeir leggi áherslu á að Djúpvegurinn verði kláraður fyrst. Þessu neita ég líka að trúa. Ég vil trúa því að þeir hinir sömu séu að krefjast framtíðarlausna í einum áfanga fyrir okkur kjósendur sína. Setjum pólitíkina aftan við öryggið í þessum efnum. Berjumst fyrir framtíðarlausn í einum áfanga í samgöngumálum milli þéttbýlisstaða á norðanverðum Vestfjörðum.

Með áframhaldandi baráttukveðjum,

Pálína Vagnsdóttir.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi