Grein

Áslaug S. Alfreðsdóttir.
Áslaug S. Alfreðsdóttir.

Áslaug S. Alfreðsdóttir | 23.01.2006 | 16:08Vesturferðir: staða og stefna

Endrum og eins skjóta upp kollinum sögusagnir um að þá og þá stundina séu Vesturferðir endanlega að gefa upp öndina. Svo er aldeilis ekki þó ýmislegt hafi gengið á hjá fyrirtækinu allt frá stofnun þess. Meginmarkmið Vesturferða hefur allt frá stofnun fyrirtækisins 1993 verið að að setja saman, þróa og selja ferðir um Vestfirði og þjóna þeim vel sem sækja Vestfirði heim. Skrifstofan hefur lagt áherslu á það að fá til liðs við sig sem flesta á svæðinu til að geta boðið upp á sem fjölbreyttasta þjónustu fyrir umbjóðendur skrifstofunnar; ferðamenn sem sækja Vestfirði heim.

Ýmislegt hefur verið gert til að auka fjölbreytni og jafna verkefnum á skrifstofunni yfir árið s.s. að selja flugfarseðla, reka umboð bílaleigu og að starfrækja upplýsingamiðstöð fyrir Ísafjarðarbæ.

Upplýsingamiðstöð

Þegar Ísafjarðarbær ákvað að bjóða út rekstur á landshlutamiðstöð Upplýsingamiðstöðvarinnar á Ísafirði á sínum tíma var einungis eitt tilboð sem barst, frá Vesturferðum, og var því tekið. Starfsemin var síðan boðið aftur út og þá var það sama upp á teningnum. En á síðasta ári ákvað atvinnumálanefnd Ísafjarðarbæjar að segja upp samningi við Vesturferðir um rekstur upplýsingamiðstöðvarinnar á Ísafirði og tók uppsögnin gildi síðustu áramót.

Á heimsíðu bæjarstjórans í Ísafjarðarbæ segir desember:

„Framundan eru miklar breytingar á rekstri upplýsingamiðstöðvarinnar. Undanfarin ár hefur hún verið rekin af Vesturferðum eftir útboð á rekstrinum. Að tillögu atvinnumálanefndar var ákveðið að fara þá leið í rekstrinum að Ísafjarðarbær reki upplýsingamiðstöðina og ráði til þess starfsfólk. Ferðaþjónustan hefur af og til gagnrýnt það fyrirkomulag sem viðhaft hefur verið og talið óeðlilegt að einkaaðili ræki upplýsingamiðstöð ferðamála. Mér er sagt að þannig sé það þó gert á Norðurlandi eystra og reynist ágætlega.

Rekstur upplýsingamiðstöðvar á vegum Ísafjarðarbæjar mun kosta um 7 m.kr. á ári. Ferðamálaráð greiðir 2,5 m.kr. upp í það á þeim forsendum að upplýsingamiðstöðin er landshlutamiðstöð fyrir Vestfirði. Mér finnst eðlilegt að hagsmunaaðilar í ferðaþjónustu komi að fjármögnun upplýsingamiðstöðvar fyrir landshlutann með Ísafjarðarbæ og Ferðamálaráði. Verkefni okkar er að undirbúa opnun upplýsingamiðstöðvar á vegum Ísafjarðarbæjar með ráðningu forstöðumanns, því að tryggja húsnæði sem verður vonandi á sama stað í Edinborgarhúsinu. Þá þarf að fá ferðaþjónustuna að rekstrinum eins og fyrr segir. “


Samkvæmt ofangreindu útboði voru Vesturferðum greiddar innan við 2 milljónir á síðasta ári og því er ljóst að bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar er tilbúin að bæta töluvert í núna, í stað þess að nýta sér kosti útboðs. Þá gæti bærinn, sem greinilega er tilbúinn til að auka framlög sín til ferðamála, lagt mismuninn í önnur þörf verkefni í ferðaþjónustu sem eru næg. Vonir bæjarstjórans um að fá hagsmunaaðila að rekstrinum eru góðar og gildar en því miður eru flest fyrirtæki svo smá og veikburða að varla er hægt að gera ráð fyrir miklum fjárhagslegum stuðningi þaðan til að reka margra milljóna krónu skrifstofu með öllu sem því fylgir.

Það skýtur nokkuð skökku við að á sama tíma og bærinn leitar leiða til að lækka kostnað á öðrum sviðum rekstrar síns með útboðum, standi hann að því að auka kostnað og auka opinberan rekstur án þess að aukin gæði séu í sjónmáli. Samningur Vesturferða og Ísafjarðarbæjar rann út um áramót og þá var ljóst að bærinn gæti ekki ráðið starfsmann og opnað fyrr en eitthvað væri liðið á árið var því gerður skammtímasamningur við Vesturferðir til 5 mánaða um að sjá um upplýsingamiðstöðina í þann tíma.

Aftur að rótunum

Í kjölfar skipulagsbreytinga hætti skrifstofan að sjá um bílaleiguumboðið sem hún hafði séð um. Á sama tíma þótti ljóst að í kjölfar lækkandi farmiðaverðs og aukinnar netvæðingar í flugfarseðlakaupum væri ekki grundvöllur fyrir sölu á þeim. Starfsemi Vesturferða er því aftur komin að upphaflegum tilgangi sínum; að sjá um skipulagningu ferða á Vestfjörðum, þ.e. sölu á eigin ferðum, umboðssölu og kynningu á þjónustu annarra ferðaþjóna á svæðinu og ráðstefnuþjónustu. Auk þess annast Vesturferðir móttöku skemmtiferðaskipa á Ísafirði og skipulagningu ferða fyrir farþega þeirra.

Vesturferðir er öflugur þátttakandi í ýmiss konar þróunar- og nýsköpunarverkefnum í ferðaþjónustu á svæðinu með aðaláherslu á þróun ferða tengdum náttúruskoðun, útivist og hreyfingu. Vesturferðir njóta engra ríkisstyrkja. Fyrirtækið hefur, eins og að ofan er greint, sinnt rekstri upplýsingamiðstöðvar fyrir lága upphæð og verið í samstarfi við opinbera aðila við markaðssetningu á svæðinu, en lengra ná samskipti hins opinbera og Vesturferða ekki. Því verður að teljast afskaplega undarleg sú rógsherferð sem önnur ferðaskrifstofa á Vestfjörðum hefur farið upp á síðkastið. Enn ankanalegri verður hún þegar litið er til þess að téð ferðaskrifstofa stendur eingöngu í því að senda Íslendinga til Danmerkur, nokkuð sem Vesturferðir hafa fyrir löngu hætt og hafa engan áhuga á.

Vesturferðir hafa verið fastur punktur í ferðaþjónustu á svæðinu vel á annan áratug og án efa verið eitt öflugasta fyrirtækið í kynningu og markaðssetningu svæðisins. Nægir að nefna bæklingaútgáfu skrifstofunnar sem ætíð hefur verið vandað til. Í haust var nýrri bæklingaröð hleypt af stokkunum með útgáfu ensks bæklings fyrir útlendar ferðaskrifstofur.

Sókn er besta vörnin

Margar nýjar og spennandi ferðir með áherslu á útivist og náttúru bera þess glökkt vitni. Spennandi verður að sjá hvernig ferðamenn taka í þá fugla- og refaskoðunarferðaáherslu sem lögð var í haust með uppsetningu ferða um alla Vestfirði. Vesturferðir hafa eftir því sem ferðaþjónustan þroskast hér vestra sóst eftir samstarfi við aðila sem bjóða ferðir á Suðurfjörðunum og Ströndum, svo fátt eitt sé nefnt.

Skemmtiferðaskipum til Ísafjarðar hefur fjölgað og þau stækkað ár frá ári og stöðugt fleiri farþegar nýta sér ferðir sem í boði eru. Vesturferðir hafa lagt metnað sinn í að auka fjölbreytni og gæði þeirra ferða sem eru í boði fyrir skemmtiskipin. Það hefur sýnt sig að samstarf og samvinna hafnaryfirvalda og ferðaþjónustuaðila hefur skilað ríkulegum ávöxtum með fjölgun skipa sem hingað koma. Sú þjónusta sem Vesturferðir bjóða upp á eykur mjög möguleika og tækifæri Ísafjarðar til að þjóna þessum markaði enn betur. Þeir sem sjá um skipulagningu ferðanna hér sjá hagræðið í því að skipta aðeins við einn aðila sem heldur um alla þræðina. Það er því augljóst að ef ekki væri þessari þjónustu fyrir að fara hér væru mun færri ferðir í boði og farþegar mundu skilja eftir mun minni tekjur í bænum.

Fjölþætt samstarf hefur líka skilað árangri í eflingu Ísafjarðarbæjar sem ákjósanlegs staðar til funda og ráðstefnuhalds. Þeim fjölgar stöðugt sem vilja halda fundi og ráðstefnur hér í bænum og þeir sem hingað koma kunna vel að meta þá góðu og persónulegu þjónustu sem boðið er upp á. Ekki spillir fjölbreytt val af ýmis konar dægradvöl og hversu stutt er í ósnortna náttúru.

Að lokum

Það er ljóst að þó ferðaþjónusta hafi ekki verið ýkja arðbær á síðustu árum á Vestfjörðum eru sóknarfærin mörg, bæði meðal innlendra og erlendra ferðamanna. Þegar er til staðar á svæðinu gott framboð á mjög áhugaverðum ferðum. Eigendur, starfsfólk og samstarfsaðilar Vesturferða vilja ekki leggja árar í bát, heldur snúa bökum saman til að gera greinina að lifibrauði fyrir sem flesta á svæðinu.

Starfsfólk Vesturferða er vel menntað og þrautþjálfað til að sinna verkefnum sínum. Með breytingum á verkefnum fyrirtækisins á undanförnum misserum eru tækifærin mörg til að halda áfram kraftmikilli starfsemi á ört vaxandi ferðaþjónustusvæði. Fyrirtækið er rótgróið ferðaþjónustufyrirtæki með gott orðspor og tengsl við ferðaskrifstofur um víða veröld, og eina ferðaskrifstofan sem sinnir móttöku ferðamanna og þróun ferða á Vestfjörðum.

Vesturferðir er öflugt og framsækið fyrirtæki í ferðaþjónustu sem leggur metnað sinn í að bjóða fjölbreytta gæðaþjónustu og laða inná svæðið sem flesta ferðamenn og skapa þannig sem mestar tekjur af ferðaþjónustu.

– Áslaug S. Alfreðsdóttir, stjórnarformaður Vesturferða.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi