Grein

Elías Jónatansson.
Elías Jónatansson.

Elías Jónatansson | 20.01.2006 | 13:50Rannsóknarboranir að hefjast í Óshyrnu

Nú styttist óðum í að rannsóknarboranir vegna jarðganga um Óshlíð hefjist. Ákveðið hefur verið að fram fari boranir vegna bæði fyrsta og annars áfanga jarðganga. Óshlíðin liggur sem kunnugt er undir þremur fjöllum, Óshyrnu, Arafjalli og Búðarhyrnu. Á haustdögum var tekin ákvörðun í ríkisstjórn um jarðgangagerð um Óshlíð í kjölfar verulega aukins grjóthruns á hlíðinni og hefur þegar verið ákveðið að veita til verksins einum milljarði króna. Þessi ákvörðun er þakkarverð og mikilvæg Vestfirðingum í baráttu sinni fyrir bættum samgöngum. Samgönguráðherra leggur hins vegar á það áherslu að hafa í höndum niðurstöður rækilegra rannsókna, áður en tekin er endanleg ákvörðun um varanlega og fullnægjandi lausn í samgöngum við Bolungarvík.

Hættumat

Harpa Grímsdóttir, forstöðumaður snjóflóðaseturs á Ísafirði hefur unnið skýrslu sem metur áhættu vegfarenda um Óshlíð og fleiri hlíðar í grennd við Ísafjörð út frá árlegaum dánarlíkum einstaklinga sem fara leiðina tvisvar á dag.

Niðurstaðan er eftirfarandi:
• 45 % hættunnar stafa af grjóthrunshættu.
• 29% hættunnar stafa af hættu á framhlaupi úr Óshyrnu (vegna “lifandi sprungu” efst í fjallinu.
• 26% hættunnar stafa frá snjóflóðum.

Þá kemur einnig fram að:
• 58% af hættunni er undir Óshyrnu
• 34% af hættunni er undir Arafjalli
• 8% af hættunni er undir Búðarhyrnu

Þessar niðurstöður styðja mjög þá stefnu að ef jarðgöngum er forgangsraðað, þá skuli byrjað á að fara undir Óshyrnu. Jafn augljóst er að hættan annarsstaðar er umtalsverð og kallar á aðgerðir hið fyrsta. Hagkvæmnisjónarmið gætu ennfremur hvatt til þess að farið yrði í meiri framkvæmdir strax, en gera má ráð fyrir t.d. að heil göng undir Óshyrnu og Arafjall, í Seljadal, stytti leiðina til Ísafjarðar um tæpan einn km, sem hefur áhrif á arðsemi.

Þreföldun grjóthruns

Grjóthrun á árinu 2005 var lang mest undir Óshyrnu af fjöllunum þremur, eða 90% af öllu grjóthruni það árið. Ennfremur voru grjóthrunstilfellin undir Óshyrnu þrisvar sinnum fleiri en meðaltal næstu sjö ára á undan. Augljós hætta undir Arafjalli hvetur til þess að næsti áfangi verði tímasettur sem allra fyrst.

Lega jarðganga – umræður um valkosti

Á fjölmennum fundi um samgöngumál á milli byggðarlaga við Ísafjarðardjúp, sem haldinn var í Bolungarvík 14. janúar sl. var afhentur undirskriftalisti sem 1.400 manns hafa ritað undir, en þar er m.a. skorað á samgönguyfirvöld að tengja Bolungarvík við Vestfjarðagöng sem liggja undir Breiðadals- og Botnsheiði, með jarðgöngum.

Undirritaður sá sér ekki fært að undirrita þann lista. Aðalástæðan er sú að ef farin væri sú leið, þá myndi vegalengdin í miðbæ Ísafjarðar lengjast úr 13 km í 20 km eða um 50%, sem þýddi m.v. umferð um Óshlíð í dag, líklega ríflega milljón auka-km á ári með tugmilljóna kostnaði. Óhætt er að fullyrða að miðað við viðbrögðin á ofangreindum fundi, þá sé ekki fylgi við þá hugmynd að fara með jarðgöng úr Syðridal í Vestfjarðagöng, en enginn fundarmanna stóð upp á fundinum og talaði fyrir þeirri leið. Enginn framsögumanna gerði það heldur

Ýtt á jarðgöng fremur en leiðarval

Bent hefur verið réttilega á að fólk hafi skrifað á undirskriftarlistann til að styðja jarðgangagerð en ekki endilega verið að velja þeim leið, enda sé það sérfræðinga að gera tillögur að leiðarvali. Þetta hefur undirritaður sannreynt hjá mörgum sem á listann rituðu.

Vegalengdir og kostnaður

Á framangreindum fundi reifaði Gísli Eiríksson, umdæmisstjóri Vegagerðarinnar á Ísafirði, nokkrar hugmyndir um legu jarðganga frá Bolungarvík. M.a. hugmynd um göng úr Syðridal yfir í Tungudal á Ísafirði. Áætlaður kostnaður er um 4,7 milljarðar. Vegalengd í miðbæ Ísafjarðar yrði þá 14,4 km, eða lenging um 1,3 km, en vegalengd í botn Skutulsfjarðar 12,2 km samanborið við 16 km í dag. Tvenn göng um Óshlíð, sem eru til skoðunar eru áætluð kosta u.þ.b. 2,3 milljarða. Þau myndu þýða óbreyttar vegalengdir m.v. það sem þær eru í dag.

Líklega er þó stysta leið í miðbæ Ísafjarðar um 5,3 km löng göng frá Bolungarvík í Hnífsdal, en leiðin í miðbæinn yrði þá um 11,5 km og 14,5 km í botn Skutulsfjarðar. Ætla má að kostnaður yrði 3,6-3,7 milljarðar. Hnífsdalsgöng þýða því 3 km styttri leið í miðbæinn á Ísafirði, heldur en Syðridalsgöng. Syðridalsgöng þýða hins vegar 2,3 km styttri leið í Skutulsfjarðarbotn en Hnífsdalsgöng.

Tillögur um endanlega legu jarðganga

Varðandi endanlega staðsetningu og útfærslu jarðganga þá hljóta Bolvíkingar að leggja áherslu á það í fyrst og fremst að öryggi vegfarenda verði tryggt, en þar á eftir að vegalengdir séu sem stystar. Ekki er að búast við tillögum frá Vegagerðinni um legu jarðganga og útfærslu fyrr en að rannsóknum loknum. Það er síðan á hendi samgönguráðherra að taka endanlega ákvörðun, sem að líkindum mun einnig taka mið af hagkvæmni, án þess að öryggi sé fórnað.

Bolungarvík 17. janúar 2006,
Elías Jónatansson, verkfræðingur og forseti bæjarstjórnar Bolungarvíkur.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi