Grein

Eiríkur Finnur Greipsson og Ágúst Gíslason.
Eiríkur Finnur Greipsson og Ágúst Gíslason.

Eiríkur Finnur Greipsson og Ágúst Gíslason | 15.11.2001 | 10:05Sjómannaskólann á Ísafjörð

Já, nú er tækifærið ágætu, Vestfirðingar. Sjómennska er okkar fag! Héðan er unnt að mennta hæfustu skipstjórnarmenn á fiski- og farskipaflota Íslendinga. Skipstjórnarmenn með hæfni og þekkingu, byggða á aldagamalli reynslu sem greypt er í vestfirskt mannlíf og menningu.
Nú er talað um að ef til vill eigi að einkavæða Sjómannaskólann, eða að minnsta kosti vilja fjölmargir áhrifamenn í samfélaginu breyta þessum mikilvæga – mjög svo mikilvæga skóla. Skóla sem á að tryggja að við Íslendingar höfum áfram á að skipa hæfustu skipstjórnarmönnum í heimi.

Við erum með allt í höndunum sem þarf! Við eigum heimavist, við eigum frábæra kennara, við eigum gott kennsluhúsnæði, við eigum aðgengi að auðugustu fiskimiðum landsins, við eigum frábæra og mikilsmetna sjómenn og útgerðarmenn. Við eigum reynsluna – VIÐ EIGUM ALLT SEM ÞARF. Kaupum skólann vestur!

Við undirritaðir leyfum okkur að skora á alla hagsmunaaðila, bæjarstjórn, verkalýðs- og sjómannafélögin, skólastjórnendur og kennara, útgerðarmenn og fiskverkendur að safna nú liði.

Árið 1852 var fyrsti íslenski sjómannaskólinn settur á fót á Ísafirði og við hann kenndi Torfi Halldórsson skipstjóri, sem hafði árinu áður numið sjómannafræði í sjómannaskóla í Flensborg í Danmörku. Torfi réðst í þetta nám á eiginn kostnað en með tilstilli félagasamtaka sem stofnuð voru í tengslum við Kollabúðafundina 1849.

Það væri okkur Vestfirðingum til sóma að heiðra minningu þessa merka skóla og kennara, með því að hefja starfrækslu fullgilds íslensks sjómannaskóla haustið 2002 og halda um leið upp á 150 ára afmæli sjómannaskólans á Ísafirði. Minna má það ekki vera.

Hefjumst handa. Skipum okkur í forystusveit fyrir uppbyggingu öflugs sjómannaskóla fyrir landið allt – á Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi