Grein

Árni Sigurðsson frá Ísafirði, framkvæmdastjóri í Bandaríkjunum.
Árni Sigurðsson frá Ísafirði, framkvæmdastjóri í Bandaríkjunum.

Árni Sigurðsson | 10.11.2001 | 17:55R-nes - Óvönduð umfjöllun

Tilefni þessara lína er að ég las umfjöllun Hlyns Magnússonar, blaðamanns um úrvinnslu á sölutilraunum eigna Héraðsskólans í Reykjanesi í BB sl. föstudagsmorgun, og þá aðallega svívirðilega og fullkomlega tilefnislaus árás Hlyns á mannorð eins af þeim sem buðu í eignirnar. Einhverjum kann að þykja fast að orðið kveðið hér, en ég get fullvissað þann sama um að hefði þetta verið skrifað í gærmorgun, strax að afloknum lestrinum, þá hefði orðfærið verið magnaðra og ég hefði þá farið betur yfir feril blaðamannsins í vestfirskri fjölmiðlun og tíundað meðal annars aumkunarlega þjónkun hans við hlægilegar toppfígúrur og minnt á ýmis tækifæri, sem hann hefur ekki látið ónotuð, til þess að sparka í liggjandi menn.
- - -
Eftir auglýsingu sl. sumar kom meðal annars fram 18 milljón króna tilboð í eignir Héraðsskólans. Að undangengnu eðlilegu ferli, voru teknar upp viðræður milli Ríkiskaupa og tilboðsgjafans sem stóð að 18 milljón króna tilboðinu. Bjóðandinn hafði uppi nokkuð mótaðar hugmyndir um nýtingu eignanna og uppbyggingu atvinnustarfsemi á staðnum, sem að grunni til byggjast á ferðaþjónustu og ylrækt.

Í framhaldi af viðræðum við Ríkiskaup kynnti tilboðsgjafinn hugmyndir sínar fyrir fáeinum einstaklingum á Ísafirði, sem hann taldi að gætu haft vilja til þess að koma að stofnun félags í því skyni að byggja upp í Reykjanesi, sem og fyrir forsvarsmönnum Ísafjarðarkaupstaðar, Orkubús Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Til að gera langa sögu stutta, þá fengu ágætlega unnin frumdrög bjóðanda skynsamlega umfjöllun hjá þessum aðilum og frekari úrvinnsla hugmyndanna var fengin í hendur Atvinnuþróunarfélaginu. – Staða málsins í dag er sú að Atvinnuþróunarfélagið hefur sent frá sér minnisblað til aðila og máilið er í eðlilegum farvegi, en náttúrulega með þeim gangi, sem oft vill verða í meðferð aðila sem eru að öllu leyti, eða að hluta á höndum ríkis eða sveitarfélaga.

Bjóðandinn er stálheiðarlegur einstaklingur sem er að vinna sína vinnu af fullkomnum heilindum og einlægum áhuga á verkefninu. Undirbúningsvinna hans einkennist af hógværð, varúð og umhyggju fyrir málefninu, en af öllum gögnum sem hann lagði fyrir aðila og á fundum í framhaldi af því er augljóst að hann ber ekki eigin ávinning sérstaklega fyrir brjósti, heldur miklu fremur framtíð staðarins og fjórðungsins. Þetta náttúrulega skynjuðu þeir aðilar, sem hann ræddi við á Ísafirði strax og þessvegna tóku þeir erindi hans, sem raun ber vitni og þar af leiðir að málið er í eðlilegri úrvinnslu. Með heill Vestfjarða í huga vona ég að það fái framgang, þrátt fyrir að bjóðandinn þurfi að láta yfir sig ganga hnútukast af þessari tegund.

Um hugmyndir Margrétar Karlsdóttur, sem kynntar voru í sama blaði og fram kom þessi tilraun H.M. til mannorðsþjófnaðar er það að segja hér og nú, að eðli málsins samkvæmt fæ ég ekki séð neitt því til fyrirstöðu að slíkt rúmist með þeim áformum sem eru til umfjöllunar hjá Atvinnuþróunarsjóði. Vildi ég því eindregið beina því til Margrétar að hafa samband við forsvarsmann sjóðsins og kynna þær.

- - -
Við sem fæddir erum fyrir miðja síðustu öld megum muna tímana tvenna í vestfirsku atvinnulífi og stjórnmálum. Þar hafa skipst á blómaskeið og harðindatímabil. Harðindin sem nú ganga yfir stafa af verulegu leyti af skammsýni og óbilgirni löggjafans. Saga vestfirskra þingmanna hin síðari ár er sorgarsaga sporgöngumanna flokksforingjanna. Þar vantar kannske ekki viljann, en skörungsskapur og víðsýni sem er aðal hins sanna forystumanns lætur lítt á sér kræla. Helst að örli fyrir því nú síðustu mánuði hjá tveimur af þeim fulltrúum Vestfirðinga sem fylla þá auðnulausu flokka sem standa að ríkisstjórninni. Vonandi að það sé sá gróður, sem er að vaxa upp úr kalkvistunum. Þessir ágætu menn mega hafa sig alla við og kannske tekst þeim ekki ætlunarverk sitt. Fari svo, mega þeir samt nokkuð vel við una, því þeir reistu þó upp merkið og reyndu að halda því á lofti.

Við síðustu Alþingiskosningar báru Vestfirðingar gæfu til þess að senda inn á Alþingi skeleggan baráttumann fyrir tilveru byggðarinnar og þeim lífsmáta, sem Vestfirðingar hafa staðið fyrir um langan aldur. Því miður dró hann með sér inn á þing afturbatapíku, sorann úr spillingardeiglu kerfisins, sem flaut þá á því að ræna Samtökum um þjóðareign frá vel meinandi einstaklingum. Það gerði hann með hjálp nytsamra óvita í fjölmiðlastétt sem ár og síð falla fyrir skrítnum kjaftforum persónum sem plata þá til að úthrópa lygi sína, meðal annars með kringilyrðum og hnyttni þannig að fólki þykir sniðugt, en gá ekki að skilja kjarnann frá hisminu.

Lággróður íslenskrar fjölmiðlunar nærist á svona löguðu og fréttamenn hirða mola af borðum manna sem eru áberandi í þjóðlífnu eins og hundar gleypa við beini.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi