Grein

Stína Gísladóttir.
Stína Gísladóttir.

Stína Gísladóttir | 22.11.2005 | 14:10Með virðingu fyrir kirkjukórum!

Sitt sýnist hverjum og við mennirnir erum skemmtilega ólíkir! Yfirleitt er það til að auka fjölbreytni og gleði lífsins, en stundum verður það óneitanlega líka til að trufla okkur. Því miður er það of algengt að menn setjist við að skrifa, þegar þeir vilja kvarta og finna að, en síður til að lofa og þakka. Mér er hins vegar þakklæti í huga, þegar ég set þessar línur á blað. Því andstætt skoðun Magnúsar Ólafs Hanssonar, sem kom fram í grein hér á heimasíðu BB um daginn, þá ber ég mikla virðingu fyrir kirkjukórum og starfi þeirra og þakka Guði iðulega fyrir hina mörgu, sem syngja í þeim kórum.

Kirkjukórarnir eru forsöngvarar í guðsþjónustum og fleiri athöfnum kirkjunnar og vekja gleði okkar margra bæði til að hlusta og taka undir. Margir kirkjugestir hafa sungið í kórum eða eru vanir að radda söng og syngja með í þeirri rödd sem þá langar til. Kirkjukórar eru nefnilega einu kórarnir, sem syngja til að maður taki undir, þó að þeir syngi vissulega líka þannig að við megum hlusta.

Kirkjukórar eru einstakir að því leyti, að þeir eru sífellt að æfa nýtt og oft er ekki nema 1 eða 2 æfingar til að læra nýtt, því í kirkjunni er stöðugt verið að endurnýja og læra nýja sálma. Þess vegna er það sérstök þolinmæðisvinna nýrra félaga í kirkjukór að vera með og hlusta og elta hina í söngnum, því lengi er allt nýtt og lítill tími er til æfinga.

Undanfarna tvo áratugi eða svo, hefur verið aukin áhersla á að kirkjukórar syngi einraddað, og þeir sem hlusta á útvarpsmessur, heyra oft einraddaðan söng. Er það viðleitni í þá átt að fleiri taki undir, því þá er tóntegundin oft lægri. Hef ég grun um að einraddaður söngur sé algengari við guðsjónustur í kirkjum þar sem messað er alla helgidaga og að kirkjukórarnir séu þá iðnari við að æfa nýtt fyrir messurnar en æfi frekar raddaðan söng fyrir sérstakar athafnir og tónleika.

Starfsemi kirkjukóra á Íslandi er einstök. Þó að kirkjukórar starfi vissulega í öðrum löndum líka, þá eru fáir fámennir söfnuðir með kirkjukóra þar eins og hér tíðkast. Sýnir það ræktarsemi og stuðning við kirkjuna, sem er þakkarverð. Það er presti ómetanlegur stuðningur í starfinu í kirkjunni að hafa svo trúfastan samstarfshóp, sem kirkjukórinn er. Söngur kirkjukórsins gerir hverja athöfn að hátíð, sem við erum öll þátttakendur í. Því hvet ég alla til að mæta sem oftast til guðsþjónustu og helgihalds í sinni kirkju og öðrum kirkjum, taka undir söng kirkjukórsins, hlusta og lofa Guð.

Guði séu þakkir fyrir kirkjukórana og alla trúföstu félagana þar!

Stína Gísladóttir, sóknarprestur í Holti.
ritað 18. nóv. 2005.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi