Grein

Skúli S. Ólafsson.
Skúli S. Ólafsson.

Skúli S. Ólafsson | 09.11.2005 | 16:26Safnað fyrir nýjum flygli í tónlistarsalinn Hamra á Ísafirði

Tónlistarlíf á Ísafirði er auðugt. Um 300 nemendur stunda nám við Tónlistarskóla Ísafjarðar og er kóra- og hljómsveitarstarf í bænum að sama skapi líflegt og fjölbreytt. Þá njóta bæjarbúar tíðra heimsókna listamanna frá öðrum landshornum eða utan úr heimi. Líklega er tvennu hér um að þakka. Starfið hvílir á sterkum grunni sem stöðugt er byggt ofan á með kraftmiklu starfi. Þá verður ekki framhjá því litið að starfsemin nýtur þess hversu einangrað samfélagið er. Hér þurfa menn að vera sjálfum sér nógir og eru menningarviðburðir því jafnan vel sóttir.

Ákveðin þáttaskil urðu í tónlistarsögu bæjarins þegar tónleikasalurinn Hamrar var vígður árið 1999. Einkar vel tókst til við hönnun hans þar sem hljómburður, útlit og allt aðgengi er eins og best verður á kosið. Frá upphafi stóð til að fenginn yrði fyrsta flokks konsertflygill í salinn. Sá gamli sem þar stendur eru er kominn til ára sinna og nýtist með engu móti þegar flutt eru metnaðarfull einleiksverk. Nú er unnið að því hörðum höndum að safna fyrir flyglinum en vegna hagstæðs gengis krónunnar er lag að ráðast í slík kaup um þessar mundir.

Sunnudaginn 13. nóvember kl. 16:00 verða tónleikar í Ísafjarðarkirkju til styrktar flygilkaupum. Fjölmargir listamenn koma þar fram og má þar nefna þrjá kóra, einsöngvara og hljóðfæraleikara. Fólk er hvatt til þess að koma, njóta tónlistarinnar og láta jafnframt fé af hendi rakna til þess að unnt verði að færa tónlistar- og menningarlíf á Ísafirði upp í enn hærri hæðir.

Skúli S. Ólafsson, formaður Tónlistarfélags Ísafjarðar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi