Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

Halldór Halldórsson | 27.10.2005 | 09:53Leiðrétting vegna rangra fullyrðinga í grein á bb.is

Ég las grein eftir Guðrúnu Önnu Finbogadóttur á bb.is 25. október. Mér þótti greinin fara vel af stað. Höfundur þakkaði fyrir frábæran kvennafrídag og rómaði samstöðu kvenna. Að þessu loknu komu fullyrðingar um launastefnu Ísafjarðarbæjar og að ófaglært starfsfólk á leikskólum Ísafjarðarbæjar væri lægst launað á Íslandi. Því haldið fram að yfirmenn bæjarins væru stoltir af því að hafa leikskólakennara í lágmarki (væntanlega átt við laun) með því móti væri hægt að reka ódýrari leikskóla og grunnskólinn væri sá ódýrasti á Íslandi. Þá kom fram að fólk með sérfræðimenntun væri skikkað til að vera í FOS-Vest á lágum launum og fengi ekki að fara í sitt stéttarfélag.

Fullyrðingar í greininni eru alrangar og því vill undirritaður koma leiðréttingum á framfæri við lesendur.

Leiðrétting nr. 1
Fólk með sérfræðimenntun er ekki skikkað til að vera í einu eða neinu stéttarfélagi um það er samið og það er félagafrelsi í landinu. Ísafjarðarbær er með samning við ein 16 stéttarfélög sem sýnir fjölbreytni þeirra starfa og menntunar sem starfsfólk bæjarins er með. Þegar starfsfólk óskar eftir flutningi á milli stéttarfélaga er það laust þegar kjarasamningar eru lausir. Um þetta er samið af hálfu vinnuveitanda og launþegasamtaka og gilda sömu reglur hjá Ísafjarðarbæ og öðrum sveitarfélögum um þetta.

Leiðrétting nr. 2
Ófaglært starfsfólk á leikskólum Ísafjarðarbæjar er á sömu samningum og ófaglært á leikskólum annarra sveitarfélaga utan Reykjavíkur sem ekki er aðili að launanefnd sveitarfélaga vegna ófaglærðs starfsfólks. Samræmt starfsmat er um allt land sem gerir ekki greinarmun á kynjum heldur er starfið sem slíkt metið. Sérstök áhersla hefur verið af hálfu launanefndar sveitarfélaga á að hækka laun umönnunarstétta og er það m.a. innbyggt í síðasta starfsmat.

Leiðrétting nr. 3
Ekki kannast ég við að yfirmenn Ísafjarðarbæjar hafi tjáð sig um að þeir væru stoltir af því að hafa laun leikskólakennara í lágmarki. Laun leikskólakennara eru samræmd um landið enda sameiginlegar samninganefndir. Ísafjarðarbær sker sig ekki úr með þessi laun. Það væri rétt að greinarhöfundur upplýsi lesendur um það hvaða yfirmenn hafi tjáð sig með þeim hætti sem hún lýsir í grein sinni.

Leiðrétting nr. 4
Hvaða tölur sýna fram á að grunnskólinn sé ódýrastur á Íslandi? Ég reikna með að hér sé átt við Grunnskólann á Ísafirði sem er vel rekinn skóli með afbragðs starfsfólki. Þar eins og annars staðar í rekstri bæjarins er aðhalds gætt í rekstri sem er lykillinn að því að geta haldið úti metnaðarfullri þjónustu sveitarfélagsins. Samanburður á rekstrarkostnaði grunnskóla sýnir hins vegar ekki fram á að Grunnskólinn á Ísafirði sé ódýrastur í rekstri af öllum skólum landsins. Hins vegar hefur verið bent á það að samanburður á rekstrakostnaði skólanna sé erfiður vegna þess að húsnæði er af ýmsum aldri, aldurssamsetning kennara, samsetning nemenda o.fl.

Ég hef þá ritað fjórar leiðréttingar við þessa stuttu grein Guðrúnar Önnu. Ingibjörg María forstöðumaður Skóla- og fjölskylduskrifstofu hefur fengið birta stutta grein á bb.is af gefnu tilefni sem er vegna þessarar sömu greinar.

Ég vil eins og Guðrún Anna þakka konum fyrir frábæran dag og fyrir að hafa haft tækifæri til að taka þátt og fylgjast með metnaðarfullri dagskrá í Alþýðuhúsinu. Konur stóðu saman um allt land og minntu á að ekki hefur enn náðst launajafnrétti sem ætti auðvitað ekki að þurfa að benda á en þannig er það því miður ennþá. Ég vil leggja mitt af mörkum og vinna með konum að því að ná þessu launajafnrétti, þar á ég vonandi samleið með Guðrúnu Önnu.

Að mínu mati er grein hennar hins vegar ekki gott innlegg í þá vinnu og þá samstöðu sem er þörf. Það er lágmarkskrafa að eitthvað meira en inngangur heillar greinar um þessi mál sé í lagi.

Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi