Grein

Elías Jónatansson | 29.09.2005 | 09:40,,Jákvæða fréttablaðið”

Jóni Fanndal Þórðarsyni, sem á sínum tíma gaf út ,,Jákvæða fréttablaðið” er við brugðið og sendir mér kveðju hér í blaðinu nýverið í grein sem hann nefnir ,,Er ekkert að óttast”. Tilefnið er greinarkorn mitt,,Á valdi óttans” sem birtist á vefsíðu BB. Þar er ég m.a. að verja málfrelsisrétt sveitarstjórnarmanna á fjórðungsþingi Vestfirðinga og að hann sé ekki af þeim tekinn með málæði og endurtekningum efnis sem hægt er að hlusta á í útsendingum frá Alþingi. Jón vill að á fjórðungsþingum tali alþingismenn sem mest og sveitarstjórnarmenn þar af leiðandi lítið (tíminn er jú takmarkaður). Það er ágæt skoðun og stendur fyrir sínu, en um þetta erum við ósammála.

En þá að landsbyggðarmálunum almennt.

Greining vandans

Við erum hins vegar sammála um að landsbyggðin á við ýmis vandamál að glíma. Eitt stærsta vandamálið er lítil fjölbreytni atvinnulífsins. Sú tækniþróun sem orðið hefur í sjávarútvegi og fiskvinnslu hefur leitt til þess að færri hendur þarf til að vinna og veiða aflann. Við Bolvíkingar finnum þessa stað m.a. í því að eiga fengsælustu fiskimenn smábátaflotans. Mér finnst það reyndar frekar jákvætt, en það þýðir vissulega að það krefst færri sjómanna til að veiða sama afla.

Fiskvinnslur og rækjuvinnslur á svæðinu hafa fjárfest í nýjum tækjabúnaði þannig að færri þarf í einhæfustu og óvinsælustu störfin. Mér finnst það jákvætt, því annars gætu fyrirtækin ekki keppt á heimsmarkaði og væru annaðhvort hætt starfsemi eða flutt til annarra landa með starfsemina. Til hagræðingar í sínum rekstri þá hafa fyrirtækin einnig fjárfest í tölvubúnaði og upplýsingakerfum til að geta betur haft yfirsýn yfir reksturinn. Það hefur hins vegar leitt til fækkunar í stjórnunar- og skrifstofustörfum sem enn þýðir að atvinnutækifærum fækkar og fjölbreytni minnkar. Þetta er jákvætt fyrir rekstur fyrirtækjanna og lykillinn að því að þau standi sig í sífellt harðnandi samkeppni.

Bolvíkingar hafa gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum árum sem vissulega má rekja m.a. til atburða sem mér þykja afskaplega miður, en geri ekki að frekara umtalsefni hér. Það breytir ekki þeirri staðreynd að Bolvíkingar hafa rifið sig upp og byggt upp sitt atvinnulíf að nýju. Sem betur fer búa hér enn stórhuga einstaklingar sem láta að sér kveða í fyrirtækjarekstri. Stærstu útgerðarfyrirtækin í Bolungarvík keyptu aflaheimildir og skip fyrir á þriðja milljarð í fyrra og enn er verið að bæta við í ár, eins og fram hefur komið í fréttum. Þá er ótalinn sá fjöldi aðila sem farið hefur af stað með eigin útgerð á undanförnum árum. Mér finnst þetta vera jákvætt.

Vestfirðingar eru duglegir og líkar illa að vera aðgerðarlausir. Það hefur þýtt að fólk flytur tiltölulega fljótt af svæðinu ef það missir atvinnu við þess hæfi og á ekki kost á annarri af svipuðu tagi. Það er auðvitað jákvætt að fólk sé duglegt, en því fylgir að sjálfsögðu að fólk þarf að fá útrás fyrir dugnaðinn.


Lausnir og frumkvæði

Oft vill það verða þannig með lausnirnar að það er auðveldara um að tala en í að komast.

Því miður eigum við ekki uppi í erminni neinar ,,patent” lausnir á vandamálum landsbyggðarinnar.

Almennt séð þá eru meiri líkur en minni á því að takast megi að byggja upp fjölbreyttari atvinnutækifæri og að þau atvinnutækifæri verði nýtt, ef almenn menntun og starfsmenntun er aukin. Um þetta held ég að flestir geti verið sammála. Þess vegna á það að vera eitt af langtímamarkmiðunum að auka þekkingarstigið með frekari menntun almennings. Bæði með því að hvetja ungt fólk til frekara náms og því að gera því fólki sem þegar er komið á vinnumarkaðinn auðveldara með að sækja sér aukna þekkingu. Ég tel að verið sé að vinna að þessum verkefnum báðum, þótt alltaf sé hægt að segja að gera þurfi betur.

Stjórnvöld geta vissulega unnið með landsbyggðinni á þann hátt að láta í auknum mæli vinna verkefni á landsbyggðinni. Í því sambandi má nefna aðila eins og ríkisskattstjóra og tryggingastofnun, en báðir þessir aðilar eru með starfsemi fyrir úti á landi.

Almennt frumkvæði í atvinnumálum mun þó alltaf koma frá frumkvöðlum. Duglegum einstaklingum og fyrirtækjum sem eru tilbúnir til að taka einhverja áhættu til að láta hlutina gerast.

Hlutverk bæjaryfirvalda

Það er fyrst og fremst hlutverk bæjaryfirvalda að skapa jarðveg til þess að atvinnulíf og mannlíf geti þrifist með sem bestum hætti í bæjarfélögunum. Ef það gerist betur með því að sveitarfélög sameinist, þá ber að skoða það. Það verður þó ekki ákveðið af forráðamönnum sveitarfélaganna eða stjórnvöldum, heldur af því fólki sem byggir sveitarfélögin.

Varðandi sameiningu Bolungarvíkur við önnur sveitarfélög, þá tók nefnd á vegum stjórnvalda þá ákvörðun að ekki væri ástæða til að kanna hug íbúa til sameiningar, að sinni. Væntanlega var það gert vegna þess að ekki reyndist unnt að sýna fram á að í því fælist nægileg hagræðing, eða bæting á búsetuskilyrðum, til að ástæða væri til að bera slíkt undir kjósendur.

Á jákvæðum nótum

Ég er mjög tilbúinn til að ræða þau vandamál sem steðja að landsbyggðinni og hef engan hug á að stinga höfðinu í sandinn hvað það varðar. Ég held hins vegar að við eigum að beina sem mestu af kröftunum í það að leita lausna og finna þeim farveg.

Ég hlakka til að hitta Jón Fanndal næst þegar ég á leið um Ísafjarðarflugvöll og fá mér kaffi hjá honum, eins og venjulega, enda fær maður þá hlutina “beint í æð” og milliliðalaust.

Að lokum þá vona ég að hann birti þessa grein fyrir mig í öðru tölublaði ,,Jákvæða fréttablaðsins” sem hann er upphafsmaður að og gefur vonandi út áfram. Þannig getum við haldið áfram baráttunni fyrir betri byggð á Íslandi, líka á jákvæðu nótunum.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi