Grein

Sigurjón Þórðarson.
Sigurjón Þórðarson.

Sigurjón Þórðarson | 03.09.2005 | 12:06Óvelkomnar skoðanir á Fjórðungsþingi

Í dag var ég staddur á Fjórðungsþingi Vestjarða þar sem Valgerður Sverrisdóttir byggðamálaráðherra fór mikinn við að mæra árangur ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Taldi hún mikinn árangur hafa náðst og að helst mætti kenna genginu um það sem miður hefði farið.

Mér, sem og öðrum þingmönnum Norðvesturkjördæmis, var boðið sérstaklega til þingsins og að taka þátt í umræðunum. Í umræðum um Vaxtarsamning Vestfjarða byrjaði ég að leggja áherslu á mikilvægi þessa málaflokks og talaði um að hér væri verið að ræða um Ísland framtíðarinnar, ef ekki yrði tekið á myndum við enda í borgríki. Ég minnti á þau orð núverandi forsætisráðherra að nú væri komið að Norðvesturkjördæminu í atvinnuuppbyggingu og sagði eitthvað á þá leið að umræddur vaxtarsamningur væri fallegur pappír prentaður í Reykjavík en innihaldið mjög rýrt og ekki í neinu samræmi við þá alvarlegu stöðu sem er víða í atvinnumálum Vestfirðinga. Ég benti á þá staðreynd að vaxtarsamningnum fylgdu aðeins um 70 milljónir inn á svæðið á sama tíma og á Austfjörðum væri verið að framkvæma fyrir nokkur hundruð þúsund milljónir.

Ég fjallaði enn fremur um að Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkur hefðu ítrekað tekið ákvarðanir sem hafa gengið þvert á hagsmuni byggðarinnar á Vestfjörðum, s.s. um hækkun á sementsverði um tugi ef ekki hundrað prósent, stórhækkað rafmagnsverð á landsbyggðinni, niðurskurð á vegafé og að þeir hefðu svikist um að koma á öruggu gagnaflutningasambandi á svæðinu. Að auki minntist ég lauslega á þá augljósu staðreynd að fiskveiðistjórnunin hefði gengið þvert á hagsmuni Vestfirðinga og að það væri fádæma ósvífni að kynna hana á alþjóðavettvangi þar sem hún hefur skaðað þjóðarhag.

Tók ég sem dæmi að þrátt fyrir að alltaf hefði verið farið eftir ráðlagðri veiði hvað varðar rækju hefðu stofn og afli minnkað. Einnig er sérstakt að þrátt fyrir svokallað „besta fiskveiðistjórnunarkerfi í heimi“ þolir útvegurinn ekki hátt gengi íslensku krónunnar. Mætti þó ætla að útvegurinn hefði borð fyrir báru og þyldi hækkandi gengi.

Að lokum endaði ég ræðu mína á því að segja að gengi íslensku krónunnar félli ekki af himnum ofan, heldur væri það ríkisstjórninni að kenna.

Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Birna Lárusdóttir virtist taka þessari tölu minni afar illa og hélt tilfinningaþrungna ræðu þar sem hún lýsti yfir miklum áhyggjum af umræðum þingmanna, þá sérstaklega stjórnarandstöðuþingmanna og nefndi undirritaðan einan á nafn. Mátti helst skilja á orðum hennar að slík umræða ætti ekki heima á þingum sem þessu og það þyrfti að endurskoða málfrelsi alþingismanna á fjórðungsþingum þar sem verið væri að eyða tíma sveitarstjórnarmanna. Guðni Geir Jóhannesson, bæjarstjórnarfulltrúi Framsóknarflokksins, tók heils hugar undir orð Birnu.

Til að halda öllu til haga kom ekki fram í máli Birnu hvort takmarka þyrfti málfrelsi ráðherra.

Í framhaldi af þessu tók ég til máls á ný og benti á að í lýðræðinu fælist að fleiri skoðanir fengju að heyrast og að ég væri sannfærður um að kjósendur Frjálslynda flokksins og jafnvel ýmsir kjósendur Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum gætu tekið undir ýmislegt í ræðu minni. Í raun er fáheyrt að kjörnir fulltrúar skuli lýsa yfir þeirri skoðun að þagga eigi niður óþægilegar skoðanir. Fyrst er fólki boðið á þing og svo sett ofan í við það ef það hefur óþægilegar skoðanir. Ég hef áhyggjur af þessu. Birna sagði að við ættum frekar að tala um það sem allir þingmenn væru sammála um en slíkt býður ekki upp á heilbrigð og lýðræðisleg vinnubrögð.

Verða þingmenn upp á punt í framtíðinni?

Birna Lárusdóttir lagði fram tillögu að lagabreytingu sem hljóðar svo: ,,Fimmtugasta Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið 2.-3. september á Patreksfirði, felur stjórn að endurskoða lög og þingsköp Fjórðungssambandsins í því augnamiði að kveða fastar á um seturétt, málfrelsi og tillögurétt þeirra sem boðaðir eru á Fjórðungsþing annarra en kjörinna þingfulltrúa. Hafa skal til hliðsjónar það verklag sem tíðkast í öðrum landshlutasamtökum.’’

Magnús Reynir Guðmundsson, bæjarfulltrúi Frjálslynda flokksins á Ísafirði, fór fram á að tillöguflytjandinn drægi lagabreytingartillöguna til baka en það fékkst ekki samþykkt. Það verður spennandi að fylgjast með hvort alþingismenn fái yfir höfuð að tjá sig á þessum fjórðungsþingum framvegis eða kannski bara valdir þingmenn og e.t.v. bara vissar skoðanir leyfðar.

Sigurjón Þórðarsonsigurjon.is


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi