Grein

Guðrún Anna Finnbogadóttir.
Guðrún Anna Finnbogadóttir.

| 19.10.2001 | 13:17Vestfirskur harðfiskur!

Nú þegar harðfiskvertíðin er að hefjast á ný er gott að vita að „Harðfiskur eflir þrótt og fjör“ eins og stendur í októberhefti Neytendablaðsinns en harðfiskur er próteinrík úrvalsfæða sem allir ættu að hafa á matseðli vikunnar. Hjá Neytendasamtökunum var gerð könnun á bragðgæðum harðfisks og safnað saman harðfiski frá fjölda framleiðenda. Frumkvæði að þessari könnun kom frá nýstofnuðu Félagi harðfiskframleiðenda á Vestfjörðum í samstarfi við Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða og Matra á Ísafirði en könnunin var síðan framkvæmd af hlutlausum aðilum Neytendasamtakanna.
Niðurstöður könnunarinnar sýndu að besta ýsan þótti koma frá E.G. harðfiskverkun á Flateyri auk sérvalins sýnis að vestan en þar á eftir kom ýsa frá Gullfiski, Flateyri. Þegar meðaltalseinkunn fyrir herta ýsu frá Vestfjörðum og annars staðar á landinu er borin saman fær vestfirsk ýsa að meðaltali 3,25 í einkunn (hæsta einkunn 5) og ýsa annars staðar af landinu 2,17 í einkunn svo vestfirskur harðfiskur kom vel út. Eingöngu var um að ræða hjallþurrkaða ýsu.

Besti steinbíturinn kom frá E.G. harðfiskverkun á Flateyri, Harðfiskverkun Antons Proppe á Þingeyri og Harðfiskverkun Finnboga Jónassonar á Ísafirði. Í samanburði þá er að meðaltali ekki munur á hertum steinbít frá Vestfjörðum og annars staðar á landinu.

Markmiðið með þessu verkefni af hálfu Félags harðfiskframleiðenda á Vestfjörðum var að vekja athygli á gæðum vestfirsks harðfisks. Einnig að hvetja neytendur til að kaupa aðeins harðfisk í merktum umbúðum þar sem fram kemur hvaða tegund af fiski er notuð, hver framleiddi vöruna og hvernig best er að geyma hana.

Varðandi geymslu þá vildu félagsmenn benda á þann útbreidda misskilning að harðfiskur geymist við stofuhita en þannig er hann oft geymdur í verslunum. Raunin er að harðfiskur geymist alls ekki við stofuhita, þannig þornar hann upp og missir bragðgæði. Harðfiskur geymist best í lokuðum umbúðum í kæli eða í frysti. Ávallt er hægt að taka „strengsli“ úr frystinum og það er strax tilbúið til neyslu.

Verði ykkur að góðu!

Guðrún Anna Finnbogadóttir, Matra, Ísafirði.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi