Grein

Jón Páll Halldórsson.
Jón Páll Halldórsson.

| 18.10.2001 | 15:06Ótrúlegt metnaðarleysi

Á liðnu sumri voru liðin 60 ár síðan nokkrir Ísfirðingar komu saman og stofnuðu Byggða- og sjóminjasafn Ísafjarðar. Það var 23. júlí 1941. Bárður G. Tómasson, skipaverkfræðingur hafði beitt sér fyrir því, að Jóhann Bárðarson, bátasmiður á Ísafirði, var fenginn til að smíða sexæring með gömlu lagi og öllum fargögnum. Sexæringurinn var tilbúinn sumarið 1941. Á stofnfundinum afhenti Bárður safninu sexæringinn til eignar sem fyrsta vísi að héraðs- og sjóminjasafni byggðarlagsins.
Árið 1955 var svo stofnað Byggðasafn Vestfjarða, en starfsemi fyrra safnsins hafði þá legið niðri um skeið, þar sem forystumenn þess voru ýmist fluttir eða á förum til annarra byggðarlaga. Hugmyndin að stofnun þess var ættuð frá stjórn Sögufélags Ísfirðinga. Þetta safn var stofnað skv. heimild í lögum frá 1947 um viðhald fornra mannvirkja og byggðasöfn. Stofnaðilar þess voru bæjarstjórn Ísafjarðar og sýslunefndir Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslna. Síðar gerðist Bolungarvíkurkaupstaður aðili að safninu.

Velunnarar safnsins hafa frá fyrstu tíð verið ótrúlega duglegir að færa því margvísleg verðmæti og gjafir, sem eru ómetanlegar heimildir fyrir byggðarlagið. Á ákveðnu tímaskeiði var safnið álitið með merkari byggðasöfnum í landinu. Upphaflega var því kosin sérstök stjórn, sem skipuð var fulltrúum eignaraðila, en fyrir nokkrum árum var ákveðið, að fella stjórn safnsins alfarið undir stjórnsýslu bæjarins, til þess að ná aukinni skilvirkni í uppbyggingu þess, eins og það hét á máli stjórnmálamanna. Því miður hefur lítið farið fyrir uppbyggingu þess seinustu árin og hefir safnið verið lokað, nema sjóminjadeild þess, sem staðsett er í Turnhúsinu í Neðstakaupstað. Safnmunir þeir, sem velunnarar þess hafa verið að færa því á liðnum árum, hafa því ekki verið gestum til sýnis.

Í Morgunblaðinu 7. október sl. birtist viðtal við ameríska konu, Polly James, sem var mikil vinkona Nínu Sæmundsson, myndlistarkonu, og arfleiddi Nína hana að mörgum verkum sínum. Í þessu viðtali segir Polly James: „Ég vil hins vegar ekki afhenda íslenskum stjórnvöldum verk hennar, því þau eiga mörg fyrir, sem þau hafa sett til hliðar til geymslu og sýna þau sjaldnast. Ég held því, að þau þurfi ekki fleiri verk. Mér finnst þau ekki hafa sinnt því að kynna list Nínu Sæmundsson. Þau eiga mörg falleg verk eftir hana, sem þau hafa keypt.“ Svo mörg voru þau orð.

Þegar ég las umrætt viðtal datt mér ósjálfrátt í hug, hvort það hefði aldrei hvarflað að bæjaryfirvöldum Ísafjarðarbæjar, að þeir fjölmörgu aðilar, sem hafa verið að gefa byggðasafninu verðmæta muni á umliðnum árum, hefðu svipað viðhorf. Ég get fullvissað stjórnendur okkar ágæta bæjarfélags um, að nákvæmlega þetta sama sjónarmið kemur fram hjá brottfluttum Ísfirðingum, sem hingað koma í heimsókn og sjá umkomuleysi safnsins. Þeir furða sig á ótrúlegu metnaðarleysi bæjaryfirvalda og algjöru skilningsleysi þeirra á þeim sögulegu verðmætum, sem þeim hafa verið afhent til varðveizlu. Ég vil nú eggja stjórnendur bæjarfélagsins lögeggjan til að bæta hér um. Það væri ágæt byrjun hjá þeim, að kynna sér þær aðstæður sem safnið býr við á Sundhallarloftinu. Ég leyfi mér nefnilega að draga í efa, að þeir hafi allir séð það. Þá áttuðu þeir sig e.t.v. á hvílík verðmæti hér er um að ræða, sem þeir hafa tekið að sér að varðveita og bera ábyrgð á. Það fylgir nefnilega vandi vegsemd hverri. Það er ekki nægilegt að þakka góðar gjafir á hátíðarstundu og gera svo ekkert meira.

Lítil sveitarfélög eru nú mörg að koma sér upp glæsilegum byggðasöfnum, sem hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn, þegar þeir sækja þessa staði heim. Mín skoðun er, að það væri verðugt markmið að stefna að því, að Byggðasafn Vestfjarða verði komið í viðeigandi húsnæði árið 2005, þegar 50 ár eru liðin síðan sveitarfélögin á norðanverðum Vestfjörðum stofnuðu til þessa samstarfs. Ég neita að trúa því, að það verkefni sé þessum sveitarfélögum ofviða. Núverandi ástand er til háðungar.

– Jón Páll Halldórsson.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi