Grein

Guðlaug Vagnsdóttir og Aðalsteinn Gunnarsson.
Guðlaug Vagnsdóttir og Aðalsteinn Gunnarsson.

| 18.10.2001 | 14:59Vegna ummæla Ragnheiðar Ólafsdóttur

Eftirfarandi er ritað vegna ummæla Ragnheiðar Ólafsdóttur á Þingeyri í fjölmiðlum og víðar, um að við hjónin, Aðalsteinn Gunnarsson og ég, höfum einfaldlega hætt að vinna í áhugamannafélaginu Steinum og málmum. Þetta er nú ekki svona einfalt, því allt frá upphafi hefur Ragnheiður ekki sagt satt, viljandi eða óviljandi, og fyrir nokkrum dögum fréttum við að Aðalsteinn var aldrei skráður meðeigandi, heldur hún (Ragnheiður Ólafsdóttir) og tengdasonur hennar. Ragnheiður hafði alltaf sagt Aðalsteini að hann ætti helmingshlut (50%) í fyrirtækinu en í viðtölum, ræðum og ritum sínum tók hún hvergi fram að hann ætti eða gerði neitt.
Hún einfaldlega sagði ósatt.
Snemma í vor sagði Aðalsteinn Ragnheiði að hann vildi gera upp félagið eins og það stóð þegar hann hætti. Hún svaraði að það væri ekki hægt, því að þetta væri allt í skuld. Hún var ekki að segja: Þetta er mín en ekki þín eign.

Árið 1997 var þetta áhugamannafélag stofnað og byrjaði þá Aðalsteinn að breyta bílskúr í vinnuaðstöðu, smíðaði slípitromlur, slípipönnu og ótalmargt annað, þá sérstaklega muni sem hún hefur farið með út um allt land. Sumir seldust, aðrir ekki.

Ég vísa til þess sem hún segir í DV 10. desember 2000, þar sem hún segist hafa gert þetta allt, sem er ekki rétt.

Það er líka ósatt að Aðalsteinn hafi selt framhjá fyrirtækinu, eins og hún heldur fram. Mér finnst eins og þarna sé vegið að mannorði manns sem alltaf hefur sýnt heiðarleika gagnvart henni og öðrum. Það er annað með mitt, það er ekki úr svo háum söðli að detta, því að hún hélt því fram að Dýrfirðingar litu okkur systurnar ekki réttu auga, en það gildir um hana.

Þá skulum við aðeins minnast á laun og reikninga.
Árið 1997 var tekið lán að upphæð 600-800 þúsund krónur til kaupa á steinsög. Það sama haust greiddi hún Aðalsteini eitt hundrað þúsund krónur og svo haustið 1998 greiddi hún Aðalsteini aðrar hundrað þúsund krónur. En haustið 1999 þegar hún ætlaði að gera slíkt hið sama, þá neitaði Aðalsteinn að taka við peningunum, því að hann hafði lengi beðið um að fá að sjá hvernig fyrirtækið stæði, en fékk engin svör. Sem var ekki von fyrst að hann átti ekkert í því. Einu sinni henti hún ýmsu blaðadóti á eldhúsborðið og sagði: Hérna eru reikningarnir. Það hefðu fáir skilið þetta dót svo við fórum bara að vinna.

Við bjuggumst aldrei við að verða rík af þessu og förum ekki fram á neitt sem aðrir eiga. Við komumst gegnum lífið án þess. Þessi vinna var fyrst og fremst hugsuð sem dund í ellinni. Hún er minni manneskja að særa hann með þessu falsi og ósannindum í nærri þrjú ár. Það er til nokkuð sem heitir óhreinlyndi.

Í voru fóru þau hjón til útlanda í sex vikur, sem kemur í raun engum við. En þau læstu öllu á meðan og fengu öðrum lykilinn til geymslu. Sem sagt, þau treystu okkur ekki. Ég veit ekki hvort þau héldu að við stælum einhverju. En hvers vegna?

Sölvi Pálsson, eiginmaður Ragnheiðar, hefur aldrei rætt þessi mál við okkur og því er ekkert eftir honum haft.
Þingeyri, 8. október 2001.
– Guðlaug Vagnsdóttir.Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi