Grein

Jón Bjarnason | 18.08.2005 | 12:41Strandsiglingar í takt við kröfur nýrra tíma

Þingflokkur Vinstri grænna hefur ítrekað á undanförnum árum barist fyrir því að teknir yrðu upp að nýju skipulagðir sjóflutningar meðfram ströndum landsins. Snemma á sl. vetri lögðum við fram þingsályktunartillögu þar sem samgönguráðherra var falið að vinna að því að: „Strandsiglingar verði eðlilegur hluti af vöruflutninga og samgöngukerfi landsins. Ráðherra móti stefnu og aðgerðaáætlun og leggi fram lagafrumvörp í þessu skyni ef með þarf, þannig að ríkið geti tryggt reglulegar strandsiglingar til allra landshluta með því að bjóða út siglingaleiðir. Ráðherra láti meta kostnað við að halda uppi reglulegum strandsiglingum um allt land miðað við skilgreinda þjónustu og geri tillögur um siglingaleiðir sem bjóða á út“.

Umsagnir sem bárust um tillöguna voru mjög jákvæðar nema frá stóru flutningafyrirtækjunum sem sjá þann tilgang einan að hámarka arð sinn og hagnað án tillits til almannaheilla, flutningskostnaðar eða þjónustu við einstaka byggðir og landshluta, hvað þá að tekið sé tillit til umhverfisþátta. Með því að sömu samsteypurnar hafa einokun á flutningum á landi og sjó, þá geta þær hagað flutningsformi og gjaldtöku að vild, sett viðskiptavinunum afarkosti og gefið stefnu stjórnvalda í samgöngumálum langt nef.

Evrópuríkin styðja við strandflutninga

Athyglisvert er að meðan við hér á Íslandi með gríðarlega langa strandlengju, dreifða byggð og ófullkomið vegkerfi líðum það að megin flutningar innanlands fara upp á land þá eru önnur lönd eins og Noregur og Bretland að stórauka aðgerðir til að stýra þungaflutningum af vegunum og út á sjó. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur fallist á að stoðkerfi sem Bretar hafi komið á til að færa flutninga af vegum yfir í siglingar og hóflegur styrkur ríksins til slíkra aðgerða brjóti ekki gegn samkeppnisreglum bandalagsins. Nýlegar fregnir herma að Evrópusambandið sjálft hyggist nú stórauka framlög til að efla sjósamgöngur og auka flutninga á sjó, ám og vötnum og siglingaleiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, annarri mengun og létta álagi af vegum. Járnbrautarsamgöngur eru einnig styrktar af sömu ástæðum. Auðvitað eigum við að fara sömu leið, létta álagi á vegakerfið og styrkja samkeppnishæfni strandhéraðanna með skipulögðum sjóflutningum.

Stuðningur við tillögu Vinstri grænna úr óvæntri átt

Samfylkingin hefur því miður í alltof mörgum tilvikum stutt einkavæðingu ríkisstjórnarinnar á almannaþjónustu, stundum viljað að hún væri framkvæmd einhvern veginn öðruvísi. Það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks í samgönguráðherratíð Halldórs Blöndals sem lagði Ríkiskip niður án þess að tryggja lágmarks framtíðar þjónustu í strandflutningum. Nú hefur þessi almannaþjónusta verið lögð af og óskabarni þjóðarinnar Eimskipum verið slátrað. Tillaga okkar þingmanna Vinstri grænna um strandflutninga fékk óvæntan liðsauka á dögunum, en í fréttum útvarpsins sl. þriðjudag lagði Kristján Möller, þingmaður Samfylkingarinnar einmitt til að tryggð yrði lágmarksþjónusta í strandflutningum, einstaka leiðir boðnar út og ríkið styrkti þá með svipuðum hætti og nú á sér stað með ákveðnar flugleiðir og sérleyfi fólksflutninga. Er ánægjulegt að verða vitni að stefnubreytingu hjá þingmanninum en ekki tók hann til máls þegar þessi tillaga okkar var til umræðu á Alþingi, né heldur lýsti neinn þingmanna Samfylkingarinnar stuðningi við hana þá.

Batnandi mönnum er best að lifa. Kristján Möller er varformaður þingflokks Samfylkingarinnar og er honum ásamt öðrum úr þingflokknum hér með boðið að vera meðflutningsmenn á tillögu okkar Vinstri grænna um strandsiglingar þegar hún verður endurflutt í haust.

Þungaflutningar á veikburða vegum mesta ógnin

Kristján Þorbjörnsson yfirlögregluþjónn á Blönduósi vakti með réttmætum hætti athygli á því í útvarpsfréttum nýverið, að vegirnir væru að fletjast út undan stórauknum þungaflutningum. Stórir flutningabílar með langa aftanívagna sveiflast til og frá á öldóttum vegunum. Er þar er ekki við sjálfa flutningabílstjórana að sakast sem velflestir sýna mikla tillitssemi í umferðinni við erfiðar aðstæður. En eins og Kristján bendir á eru vegirnir afar mishæðóttir og svo mjóir að oft munar einungis hársbreidd að bílar skelli saman er þeir mætast eða þeir fara svo tæpt á vegkantana að bíll og vagn veltur. Ábendingar Kristjáns eru nákvæmlega þær sömu og við þingmenn Vinstri grænna höfum hamrað á í umræðum um samgöngumál á þingi. Til þessa hafa ríkisstjórnarflokkarnir lokað eyrunum fyrir möguleikum sjóflutninga og skorið niður um milljarða króna það fjármagn til vegmála sem lofað var samkvæmt vegáætlun. Að óbreyttu stefnir hér í fullkomið óefni. Þingmenn Vinstri grænna munu taka strandsiglingar umhverfis- og umferðaröryggismál upp strax og þing kemur saman í haust eins og við höfum gert undanfarin ár.

Í ljósi umræðunnar síðustu daga er von til breiðs stuðnings við tillögu okkar Vinstri grænna um aðgerðir til að koma á skipulögðum sjóflutningum meðfram ströndum landsins.

Jón Bjarnason þingmaður Vinstri- grænna í Norðvesturkjördæmi


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi