Grein

Magnús Þór Hafsteinsson.
Magnús Þór Hafsteinsson.

Magnús Þór Hafsteinsson | 04.08.2005 | 14:20Færum vegina neðar

Eitt af mínum ánægjulegustu verkum sem alþingismaður er að vera viðstaddur opnun nýrra samgöngumannvirkja. Hvert nýtt eða endurbætt mannvirki af slíkum toga er ákveðinn sigur fyrir okkur öll, því góðar samgöngur eru ein af meginforsendum þess að þjóðinni takist að sækja af afli til framtíðar. Nú síðast var ég til staðar þegar nýju göngin undir Almannaskarð við Hornafjörð voru vígð á sjálfan Jónsmessudag þann 24. júní síðastliðinn. Þau losa okkur við erfiðan og hættulegan veg sem liggur í miklum halla yfir bratta fjallaskriðu. Þessi göng eru glæsilegt mannvirki og tvímælalaust mikil samgöngubót á þjóðleiðinni suður um, til og frá Austfjörðum. Gerð þessara jarðganga gekk vonum framar. Verkinu lauk á styttri tíma en áætlað var, og kostnaður var undir áætlun.

Jákvæð reynsla

Reynsla okkar af gerð jarðganga undanfarin ár hefur tvímælalaust verið mjög jákvæð, og ætti að hvetja okkur til frekari dáða á þessum sviðum. Framkvæmdir hafa gengið vel og ávinningurinn tekið af öll tvímæli um kosti þessara mannvirkja. Þar má nefna að jarðgöng hafa aukið umferðaöryggi, dregið úr kostnaði vegna viðhalds vega, minnkað ferðakostnað með styttingu vegalengda og styrkt byggð í landinu.

Við í Frjálslynda flokknum gerum okkur fulla grein fyrir kostum jarðganga og höfum mikinn áhuga á frekari gerð þeirra. Við teljum að jákvæð reynsla undanfarinna ára geri það að verkum að nú verði að endurskoða skipulega áætlanir um gerð jarðganga, og að slíkum framkvæmdum eigi að flýta eins og kostur er því göngin eru tvímælalaust varanlegar umbætur í vegamálum til framtíðar. Þekkingu við gerð jarðganga hefur fleygt fram hér á landi og kostnaður fer hríðlækkandi á hvern kílómetra í jarðgangagerð. Verkhraði eykst, eins og sést af gerð Almannaskarðsganganna og ganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Þess vegna lögðum við í vor fram þingsályktunartillögu um að Vegagerðinni verði falið að vinna tillögur um að allar helstu leiðir á þjóðvegi 1, Vestfjörðum og á norðausturhorni landsins verði færðar niður á láglendi. Það verði gert með jarðgöngum og þverun fjarða. Inn í þetta verði einnig reiknaður út sparnaður samfara nýju vegakerfi, t.d. við flutning á raforku og heitu vatni, og ávinningur af hugsanlegri fækkun flugvalla og hafskipahafna.

Aðeins um 100 km

Sé Íslandskortið skoðað grannt, sést að líklega megi koma öllum þjóðleiðum á láglendisvegi með gerð innan við 20 jarðganga sem samtals yrðu aðeins um 100 km. Öllum er ljóst eftir reynsluna af Vestfjarða- og Hvalfjarðargöngum hvaða hag menn hafa af svo öruggum þjóðvegum, styttri leiðum milli staða og landsvæða, sem og tíma- og eldsneytissparnaði sem fylgir varanlegum samgöngubótum sem endast í áratugi og aldir.

Ef undan eru skilin göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sem lýkur brátt, og svokölluð Héðinsfjarðargöng. Þá standa nú eftir eftirfarandi leiðir þar sem gera mætti jarðgöng:

Arnarfjörður – Dýrafjörður.
Dynjandisheiði.
Óshlíð.
Ísafjörður – Súðavík.
Eyrarfjall í Djúpi.
Tröllatunguheiði.
Öxnadalsheiði.
Vaðlaheiði.
Vopnafjörður – Hérað.
Seyðisfjörður – Hérað/Norðfjörður.
Norðfjörður – Eskifjörður.
Stöðvarfjörður – Breiðdalsvík.
Skriðdalur – Berufjörður (Öxi).
Undir Berufjörð.
Reynisfjall í Mýrdal.
Hellisheiði.

Hugsanlega göng til Vestmannaeyja eru ekki með í þessari upptalningu þar sem fjármögnun þeirra er tengd innheimtu veggjalda og niðurfellingu á ferjusiglingum við opnun þeirra. Göng úr botni Ísafjarðardjúps yfir í Fjarðarhornsdal í Kollafirði á Barðaströnd eru heldur ekki nefnd þó þau yrðu mjög vænlegur kostur eftir að þverun Gufufjarðar, Djúpafjarðar og Þorskafjarðar væri lokið, enda yrði þá hægt að aka á láglendisvegi milli suðvesturhorns landsins og norðurhluta Vestfjarða.

Við í þingflokki Frjálslynda flokksins munum endurflytja þessa þingsályktunartillögu á þingi nú í haust. Í ljósi velgengni við gerð jarðganga undanfarið, þá er rík ástæða til að staldra við og meta málin upp á nýtt þegar gerð þeirra er annars vegar. Vonandi verður tillaga okkar fyrsta skrefið í átt til þess.

Magnús Þór Hafsteinsson, alþingismaður Frjálslynda flokksins.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi