Grein

Jóhannes Bjarni Guðmundsson.
Jóhannes Bjarni Guðmundsson.

Jóhannes Bjarni Guðmundsson | 26.07.2005 | 14:31Atvinnuflugi hætt á Vestfjörðum

Nú hefur verið auglýst um útboð ríkisins á annars vegar sjúkraflugsþjónustu og hins vegar áætlunarflugi milli nokkurra staða. Það sem er mjög athugavert við þetta útboð er sú ætlun ríkisins að skerða þjónustu utan höfuðborgarinnar og þjappa þess í stað fólki og fjármagni á tvo staði – þ.e. Reykjavík og Akureyri. Þar til fyrir tæpum áratug sinnti Flugfélagið Ernir flugþjónustu á Vestfjörðum út frá Ísafirði og gerði það af stakri prýði. Það félag hætti flugrekstri um það leyti sem jarðgöngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar voru opnuð og styrkur til póstflutninga var aflagður og boðað var frelsi í flugsamgöngum hér á landi. Í kjölfarið hófu Íslandsflug og Flugfélag Íslands harðvítuga baráttu á allt of litlum markaði, sem bæði fyrirtæki biðu mikinn skaða af.

Staðan í dag er þessi: Aldrei fyrr hefur jafn miklum fjármunum verið varið til að ríkisstyrkja flug á Íslandi, fyrirtækin sem njóta styrkja hafa líklega aldrei verið færri og að mínu áliti hefur þjónustan frekar versnað. Þessu til stuðning má benda á að samkvæmt svari samgönguráðherra á Alþingi fyrir nokkrum árum var samtals tæpum 45 millj. kr. varið til að styrkja flug úr ríkissjóði árið 1997, en árið 2001 samtals rúmlega 200 millj.kr.

Vestfirski hlutinn!

Eftir að Flugfélagið Ernir hætti flugrekstri hefur tugum milljóna króna verið varið til sjúkraflugsþjónustu á svæðinu. Þetta hefur verið með þeim hætti að hinir ýmsu flugrekendur hafa staðsett 9 sæta flugvél á Ísafirði frá byrjun október til byrjun maí, oftast sem undirverktakar Íslandsflugs sem hefur samninginn við ríkið (nú Landsflug ehf.). Þessi vél hefur jafnframt flogið milli Vesturbyggðar og Ísafjarðar þegar Hrafnseyrarheiði hefur verið ófær á þessum árstíma.

Samkvæmt útboði ríkisins núna verður enginn flugvél staðsett á Ísafirði eða Vestfjörðum, heldur skal sjúkravélin til reiðu á Akureyri! Ekki er heldur lengur gert ráð fyrir neinum flugsamgöngum milli norður- og suðurfjarða eins og verið hefur. Vestfirðingar hafa horft á eftir ýmsu norður í Eyjafjörð og nú er það sjúkraflugið. Það er ómögulegt að una því að nú á tímum sé verið að minnka samgöngur á Vestfjörðum og skerða þjónustu. Forsvarsmenn sveitarfélaga hér rembast við að fá hingað peninga til uppbyggingar, menntunar og þar með starfa og ráðamenn eru fljótir að berja sér á brjóst þegar bitlingum er kastað! Nú munu hverfa af svæðinu störf tveggja til þriggja flugmanna og mikilvægt öryggistæki. Ástæðan fyrir staðsetningu sjúkraflugvélar á Ísafirði til þessa er sú að á vetrum er oft hægt að fljúga burt, þegar getur verið ófært að komast til vallarins. Sú krafa hlýtur því að koma í kjölfar þessarar ákvörðunar, að blindaðflug verði stórbætt til Ísafjarðar og flugmönnum gert kleift að fljúga hingað að nóttu eins og tíðkast annars staðar!

Sorgleg tímamót

Ísafjarðarbær er byggðakjarni Vestfjarða. Að mínu mati væri eðlilegt að nota ríkisstyrkina til að efla starfsemi á hverju svæði. Mætti ekki sinna t.a.m. samgöngum við Gjögur og Bíldudal frá Ísafirði? Ferðatími þyrfti ekki að lengjast mikið og samgöngur innan svæðisins myndu eflast. Þetta er og verður áfram gert með Akureyri sem skiptistöð fyrir Vopnafjörð, Þórshöfn og Grímsey. Flugfélag Íslands hefur höfuðstöðvar sínar og varnarþing á Akureyri. Félagið fær ríkisstyrk fyrir sjúkraflugsþjónustu á Norður- og Austurlandi og styrk til að fljúga á áðurnefnda staði frá Akureyri. Þetta ætti ríkisstjórnin að hafa til fyrirmyndar fyrir alla landshluta, en ekki bara Akureyri. Ef fer sem horfir, þá eru allar líkur á að frá og með næstu áramótum verði því miður öllu atvinnuflugi endanlega lokið á Vestfjörðum.

Jóhannes Bjarni Guðmundsson, atvinnuflugmaður.
Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi