Grein

Jóhann Magnús Elíasson.
Jóhann Magnús Elíasson.

Jóhann Magnús Elíasson | 05.07.2005 | 16:25Engar forsendur fyrir hvalveiðum?

Enn einu sinni varð ég að hlusta á órökstuddar og hæpnar fullyrðingar Ásbjarnar Björgvinssonar, í morgunfréttum á Rás2 þriðjudaginn 5 júlí sl. Þessi maður virðist láta sér í léttu rúmi liggja, þótt sannleikurinn í fullyrðingum hans sé víðs fjarri bara ef hann kemur sjónarmiðum sínum að. Hann nefndi þá gömlu „tuggu“ að ekki væru til markaðir fyrir hvalkjöt erlendis og ekki væri sjáanlegur markaður fyrir kjötið innanlands heldur.

Eins og ég hef áður sagt þá hafa hvalveiðar í atvinnuskyni verið bannaðar í tuttugu ár og því er það fullkomlega eðlilegt að markaðir erlendis séu ekki fyrir hendi en það er vitað að eftirspurn er til staðar, enda hvalkjöt mikil gæðavara og holl þannig að markaðssetning og sala verða ekki vandamál þegar hvalveiðar í atvinnuskyni verða leyfðar. Með fullyrðingar hans og fleiri manna um markað fyrir hvalkjöt innanlands, sem eru allt að því hlægilegar væri hægt að skrifa heila bók en ég læt mér nægja að fara um þetta nokkrum orðum.

Ásbjörn hefur nokkrum sinnum haldið því fram að ekki sé hægt að selja hrefnukjötið, sem til fellur vegna vísindaveiðanna, hér innanlands og það safnist upp birgðir. Ég ætlaði mér að grilla hrefnukjöt um síðustu helgi (því hrefnukjöt er eitthvað besta kjöt sem ég fæ til þess að grilla). Fram að síðustu helgi hafði ég getað fengið hrefnukjöt í þeirri verslun sem ég skipti við en nú brá svo við að það var ekki til og ekki fékk ég það í öðrum verslunum heldur. Ef kjötið selst ekki og það eru að safnast upp birgðir hvernig stendur þá á því að kjötið fæst ekki? Er þarna aðeins um enn einn ómerkilegan áróður hvalverndunarsinna að ræða? Ég vildi gjarnan að Ásbjörn og félagar létu mig vita hvar ég geti fengið allt þetta hrefnukjöt sem þeir virðast vita af.

Með fullyrðingu Ásbjarnar að halda því fram að hvalveiðar hafi takmarkað vísindalegt gildi, er varla svara verð, en ef maðurinn heldur að vísindamenn séu að stunda þessar rannsóknir vegna þess að þeir hafi svo gaman af þessu og niðurstöðurnar séu lítils eða jafnvel einskis verðar, þá er maðurinn í skógarferð, svo vitnað sé í fótboltann, ekki verður annað séð en hann hafi enga hugmynd um hvað hann er að tala.

Þær fullyrðingar hans að hrefnuveiðar séu stundaðar á sömu slóðum og verið sé að sýna hvali, eru alveg í stíl við annað sem þessi maður hefur látið út úr sér, sem sagt tóm þvæla og vitleysa. Sannleikurinn er sá að það „fréttist“ til eins hvalaskoðunarbátsins, í fyrra, að verið væri að „skera“ hrefnu ekki langt frá og var þá farið á bátnum til þess að leyfa þeim sem voru um borð að sjá og svo voru allir fjölmiðlar mataðir á á þessum viðburði, að hætti hvalverndunarsinna og þar var Ásbjörn Björgvinsson í framlínunni.

Flestar ef ekki allar fullyrðingar Ásbjarnar virðast stjórnast af tilfinningum og ekki hirðir hann um að færa rök fyrir máli sínu, enda eru þau rök annað hvort léttvæg eða engin og er það minnsta sem hægt er að fara fram á að maður sem er í forsvari fyrir einhver samtök fari með rétt mál og láti ekki tilfinningar eða skort á tilfinningum ráða gjörðum sínum og orðum.

Jóhann Elíasson, fyrrverandi stýrimaður.


Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi