Grein

Gylfi Þór Gíslason, lögregluvarðstjóri.
Gylfi Þór Gíslason, lögregluvarðstjóri.

| 04.10.2001 | 10:52Hættustaður við Sólgötu

Ég vil óska íbúum Ísafjarðarbæjar til hamingju með hringtorgið. Með tilkomu þess og fráganginum þar í kring hefur Ísafjörður fengið mikla andlitslyftingu. En torgið er ekki einungis andlitslyfting fyrir bæinn heldur bætir það einnig umferðaröryggið á Ísafirði. Hringtorg draga úr ökuhraða og fækka skurðpunktum í umferðinni.

Dauðagildra

Einn skuggi er þó við fallega hringtorgið okkar. Það er staðsetning gangbrautarinnar við Sólgötuna. Þarna hefur verið í tugi ára, eða svo lengi sem elstu menn muna, verið örugg leið fyrir börn úr efri bænum til að fara yfir götuna á leið í skólann. Þar hafa verið gatnamót með stöðvunarskyldu en með tilkomu torgsins eru ekki lengur gatnamót á þessum stað.
Frá því að byrjað var að hleypa umferð á torgið hafa þessar aðstæður verið okkur lögreglumönnum áhyggjuefni. Núna er þó búið að setja upp hindrun við gangbrautina til að draga úr hraða gangandi og hjólandi vegfarenda áður en þeir fara yfir á gangbrautinni.

Yngstu vegfarendurnir

En ökumenn verða að gæta sérlega vel að sér á þessum stað. Yngstu vegfarendurnir sjá ekki nógu vel yfir götuna og skynja hættuna ekki á sama hátt og við fullorðna fólkið.

Við lögreglumenn biðjum ykkur, ágætu bifreiðastjórar í Ísafjarðarbæ og nágrenni, að gæta vel að yngstu íbúum bæjarins. Við biðjum ykkur að aka með sérstakri gát um Sólgötuna, svo að komist verði hjá því að þetta fallega götunafn snúist í andhverfu sína og skuggi falli á þennan stað.

Megi hringtorgið og nágrenni þess verða prýði bæjarins. Megi það tryggja öryggi bæjarbúa í umferðinni á komandi tímum eins og verið hefur frá því að umferð var hleypt á torgið fyrir skömmu.

Gylfi Þór Gíslason
varðstjóri í lögreglunni á ÍsafirðiTil baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi