Grein

Halldór Halldórsson.
Halldór Halldórsson.

| 28.09.2001 | 10:16Torgvígsla - umferðarvika

Við vígslu hins nýja umferðarmannvirkis, hringtorgsins, við innkomuna í bæinn kl. 16 föstudaginn 28. september hefjum við formlega umferðarviku hér í Ísafjarðarbæ. Vígsla mannvirkis sem er áberandi í bænum og setur nýjan svip á hann er ánægjulegur lokaþáttur þess verks, en um leið upphaf umferðarviku þar sem ýmislegt er á dagskrá sem er þess virði að fylgjast með og taka þátt í.

Vígslan sjálf verður þannig að bæjarstjóri og umdæmisverkfræðingur Vegagerðarinnar munu fara nokkrum orðum um mannvirkið og samstarf bæjarins og Vegagerðar við gerð mannvirkisins. Síðan mun forseti bæjarstjórnar opna hringtorgið formlega og ein af elstu bifreiðum bæjarins, ef ekki sú elsta, aka fyrsta formlega hringinn ásamt lögreglubifreiðum. Þetta verður myndræn, táknræn staðfesting þess að þetta umferðarmannvirki er formlega komið í notkun. Vonandi sjá sem flestir sér fært að vera viðstaddir vígsluna.
Umferðarvikan er hugsuð þannig að málefnið umferðin sé okkur öllum enn ofar í huga en venjulega. Lögreglan verður áberandi á götunum, grunnskólanemar munu vinna umferðarverkefni, fyrirlestrar verða á vegum tryggingafélaganna, fjölmiðlarnir á svæðinu munu fjalla um umferðarmál, greinar skrifaðar daglega um umferðina og tengd mál. Fjallað verður um umferðina og umgengni. Fyrirlestur verður um umferðina hér áður fyrr og þær breytingar sem hafa orðið í umferðarmálum.

Það er af mörgu að taka þegar umferðin er annars vegar. Við þurfum að huga daglega að öryggi okkar og barna okkar í umferðinni. Við þurfum sjálf að vera hæf til þess að taka þátt í umferðinni og þess vegna að fylgjast reglulega með nýjungum og breyttum reglum. Umferðin snýst um tillitssemi og samstarf til að hún gangi upp og verði öruggari.

Framkvæmdir hjá Ísafjarðarbæ tengdar umferð

Hér áður er hringtorgið nefnt sem er framkvæmd í samstarfi Ísafjarðarbæjar og Vegagerðarinnar. Töluverðar gatnaframkvæmdir hafa verið í sumar á Flateyri og munu einnig verða næsta sumar. Gert er ráð fyrir að leggja slitlag á götur sem eru ennþá án slitlags næsta sumar. Slíkum götum hefur fækkað sem betur fer, en til eru nokkur dæmi, t.d. á Þingeyri og Suðureyri auk þess sem hinn fjölfarni vegur inn í Tungudal á Ísafirði er enn malarvegur. Gatnakerfi á Skeiði í Skutulsfirði var lagfært með bundnu slitlagi í sumar. Þá hefur borist umsókn um einbýlishúsalóðir á Skeiði og reikna má með gatnaframkvæmdum þar í tengslum við byggingar á svæðinu. Þessu til viðbótar má nefna að reiknað er með að breyta Pollgötu á móts við Edinborgarhús, þannig að gatan færist fjær húsinu og ný gatnamót verði gerð þar sem Aðalstræti kemur inn á Pollgötu.

Breytingar standa yfir á stoppistöðvum almenningsvagna til að tryggja frekar öryggi þeirra sem nýta almenningssamgöngur, ekki síst skólabarna sem eru helstu notendur þeirra. Helstu breytingarnar eru fólgnar í færslu biðskýlis fyrir Seljalandshverfi og fyrirhugaðar eru sambærilegar breytingar í Hnífsdal. Þannig er komið í veg fyrir að notendur almenningsvagna fari yfir fjölfarna umferðargötu til að fara í vagninn. Þá er á áætlun biðskýli á stoppistöð við Pollgötu. Verið er að skoða hvar framtíðaraðstaða getur verið fyrir áætlunarbifreiðar frá Þingeyri, Flateyri og Suðureyri en breytingar geta orðið á þeirra aðstöðu vegna byggingar nýs verslunarhúss í miðbænum.

Þetta eru nokkur dæmi sem tekin eru um framkvæmdir eða fyrirhugaðar framkvæmdir á vegum bæjarins. Allar miða þær að því að bæta aðstöðu vegfarenda og um leið fegra bæinn okkar. Ekki er um endanlega upptalningu að ræða enda breytast áætlanir árlega í takt við þörf og fjármagn sem veitt er til hvers málaflokks.

Samstarfsaðilar um umferðarviku

Við framkvæmd umferðarviku tengja saman krafta sína Ísafjarðarbær, Vegagerðin, Lögreglan, tryggingafélögin, grunnskólarnir, Menntaskólinn á Ísafirði og fjölmiðlar og hugsanlega bætast fleiri í hópinn. Vil ég nota tækifærið og þakka þeim, sem nú þegar hafa ákveðið að taka þátt, fyrir mikinn áhuga og samstarfsvilja.

Halldór Halldórsson
– bæjarstjóri –Til baka - Prenta grein - Senda grein - Senda á Facebook

Byggir á LiSA CMS. Advania - LiSA, Sharepoint, Veflausnir og Vefumsjónarkerfi